Er alltaf jafn hissa á því hvað lítið er fjallað af fjölmiðlum um það hverjir fjármagna stríð eða hafa gert það í gegnum tíðina.Margir trúa því að stríð séu nánast náttúrulögmál.Hins vegar liggja fyrir upplýsingar um að vissir aðilar hafa í gegnum báðar heimstyrjaldirnar grætt ótrúlegar upphæðir á því að framleiða vopn og selja t.d Nasistum í Seinni Heimstyrjöldinni.Fróðlegt er einnig að sjá hverjir fjármögnuðu vígbúnað Þjóðverja og framleiddu vopn og annað sem þarf til að reka her fyrir þá öll stríðsárin.
Er hægt annað enn að fá þvílíkan viðbjóð á mönnum sem svo blygðunarlaust maka krókinn á hildarleiknum.Þarna eru mörg þekkt nöfn sem koma við sögu og hráskinnaleikurinn slíkur að maður spyr sig….er hægt að leiða þetta hjá sér,mér finnst ef að menn þekki ekki þessa hlið mál og skilja að þetta eru ekki einhverjar samsæriskenningar heldur verulega ónotalegar staðreyndir,séu varla viðræðuhæfir um stríð og stríðsrekstur nú á tímum eða áður fyrr,svo mikilvægum þætti í öllu brjálæðinu má einfaldlega ekki líta framhjá.
Í bókinni Falið Vald eftir Jóhannes Björn skrifar hann meðal annars;
Árið 1926 stofnuðu tveir alþjóðlegir bankaeigendur stærsta auðhring sem heimurinn hafði séð fram að þeim tíma: I.G. Farben. Þeir voru Hermann Schmitz, forstjóri Deutsche Reichsbank og Bank of International Settlements í Sviss, og Eduard Greutert, eigandi Greutert & Cie bankans í Basel. Aðrir valdamenn í upphaflegri stjórn I.G. Farben voru Max Warburg, Carl Bosch, Fritzter Meer, Kurt Oppenheim (gyðingur sem var sleginn til aría af nasistum!) og George von Schnitzler.

I. G. Farben einbeitti sér fyrst og fremst að efnaiðnaðinum. Það náði að starfa í níutíu og þremur löndum og var geysilegt afl í efnahags- og stjórnmálum í öllum heimsálfum. Talið er að I.G. Farben hafi átt 613 fyrirtæki og haft meiri eða minni áhrif í öðrum 2000. [Haft eftir Eisenhower, New York Times, 21. október 1945]

Innan Þýskalands samanstóð I. G. Farben upphaflega af sex stærstu efnafyrirtækjunum sem réðu öllum efnaiðnaði landsins. Smámsaman lagði það einnig undir sig nær allan þungaiðnaðinn og þá sérstaklega stáliðnaðinn. Hermann Schmitz var ráðandi aðili í Krupp stálsamsteypunni og var einn af stjórnarformönnum þess ásamt að vera í stjórn stálsamsteypunnar Vereinigte Stahlwerke.

Annars staðar í Evrópu stjórnaði I. G. Farben stórfyrirtækjum á borð við Imperial Chemical á Bretlandi, Kuhlmann í Frakklandi og Allied Chemical í Belgíu. [Stocking og Watkins, CARTELS IN ACTION, bls. 90,1946] Í Bandaríkjunum átti I. G. Farben eða stjórnaði fyrirtækjum eins og Bayer Co. (framleiddi aspirín), I. G. Chemical Co., Sterling Drug Company, Winthrop Chemical, Breck, Lederle Labaratories, Metz Laboratories, J. T. Baker Chemical, Whitehall Laboratories, Frederick Stearns & Co., Nyal Co., Heyden Anti-Biotics, Antrol Laboratories, Cardinal Laboratories, Taylor Chemical, Ozalid Corp., Alba Pharmaceutical, Bristol Meyers Drug, Inc., Vegex, Inc. og fjölmörgum öðrum sem voru nógu stór til að vera eignarfyrirtæki sjálf og áttu mörg smærri. [Howard W. Ambruster, TREASON'S PEACE, 1947]

I. G. Farben—eða Internationale Gesellschaft Farbenindustrie A. G., eins og það hét fullu nafni—hefur stundum verið nefnt “ríkið í þýska nasistaríkinu.” Það kom Hitler til valda, var stærsti framleiðandinn fyrir hernaðarvél nasista, var stjórnað af sama fólki og drottnaði yfir bankakerfi landsins og starfrækti meira að segja útrýmingarbúðir.

Þegar fjárreiður nasistaflokksins voru rannsakaðar eftir seinni heimsstyrjöldina kom í ljós að I. G. Farben gaf 400.000 mörk í kosningasjóð Hitlers árið 1933 (sem var dulnefndur “Nationale Treuhand” sjóðurinn og Rudolf Hess hafði umsjón með) og fyrirtæki tengd I. G. Farben gáfu 2.600.000 mörk (Krupp gaf 600.000). Hitler var gert kleift að blása nýju lífi í flokkinn, vopna stormsveitirnar og ná völdum í landinu. Í bók sinni, I. G. Farben, segir Richard Sasuly:

Hitler fékk meiri stuðning en hann hafði nokkru sinni þorað að vona. Iðnaðar- og fjármálafurstar Þýskalands, með I. G. Farben í fararbroddi, tóku höndum saman og veittu Hitler fullan stuðning.

[Richard Sasuly, I.G. FARBEN, bls. 63, 1947]


ennfremur:
Árið 1933 tóku iðnaðar- og fjármálafurstar Þýskalands höndum saman og veittu Hitler fullan stuðning. Nokkur fyrirtæki í bandarískri eigu, t.d. Osram og A.E.G. (bæði dótturfyrirtæki General Electric), gáfu einnig ríflega í kosningasjóð Nasistaflokksins þetta örlagaríka ár.

Forráðamenn I. G. Farben geta ekki afsakað sig með því að þeir hafi ekki vitað hvað þeir voru að gera þegar þeir studdu Hitler. Fyrirtækið hóf stríðsundirbúning strax árið 1934. Þá var byrjað að leika svokallaða “stríðsleiki” (Kriegsspiele) í verksmiðjum I. G. Farben, þ.e. æfingar fyrir loftárásir, skemmdarverk o.s.frv. Dr. Struss, yfirmaður í tæknideild I. G. Farben, lýsir þessum “stríðsleikjum” á eftirfarandi hátt:

"Sérstaklega var tekið til athugunar hvað mundi gerast ef 100- eða 500-kílógramma sprengjur féllu á ákveðna verksmiðju og hverjar afleiðingarnar yrðu. Það er líka rétt að orðið Kriegsspiele var notað …

Staðirnir sem urðu fyrir sprengjum voru færðir inn á kort svo ljóst væri hvaða svæði í verksmiðjunni hefðu orðið fyrir skemmdum, t.d. gasmælir eða mikilvæg leiðsla. Strax eftir að árásinni lauk, kom stjórn verksmiðjunnar saman til að ganga úr skugga um skemmdir og tilkynna hvaða svæði í verksmiðjunni yrðu að leggja niður vinnu; þeir gáfu einnig upp hve langan tíma tæki að gera við skemmdirnar. [U.S. Congress, House of Representatives, Special Committee on Un-American Activities. 73rd Congress, 2nd Session, Hearings no 73-DC-4, bls. 954–955, 1934. Sjá WALL STREET AND THE RISE OF HITIER, eftir Antony Sutton, 1976]

Vegur I. G. Farben varð sífellt meiri eftir því sem styrjöldin nálgaðist og fyrirtækið hafði algjöra einokun á mörgum framleiðslusviðum. Til að fá gleggri mynd af umsvifum I. G. Farben í Þýskalandi og þýðingu þess fyrir hernaðarbröltið, skulum við líta á þjóðarframleiðslu landsins árið 1943 á nokkrum efnum sem notuð

voru í styrjöldinni og þátt I. G. Farben í þeirri framleiðslu.

Vara Heildarfram­leiðsla Þýskalands Hve mörg % framI. af Farben
Gervigúmmí 118.600 tonn 100%
Tréspíritus 25 1.000 tonn 100%
Smurningsolía 60.000 tonn 100%
Nikkei 2.000 tonn 95%
Plast 57.000 tonn 90%
Magnesíum 27.500 tonn 88%
Sprengiefni 221.000 tonn 84%
Byssupúður 210.000 tonn 70%
Bensín (há oktantala) 650.000 tonn 46%
Brennisteinssýra 707.000 tonn 35%

Einn óhugnanlegasti þátturinn í starfsemi I. G. Farben var uppgötvun þeirra, framleiðsla og dreifing á Zyklon B gasi sem var notað í útrýmingarbúðunum til að drepa gyðinga og aðra “óæðri” borgara. Zyklon B gasið var framleitt af I. G. Farben Leverkusen og selt í gegnum Degesch, sem var óháð fyrirtæki. I. G. Farben átti einnig heiðurinn af tæknilegum rekstri útrýmingarbúðanna í Auschwitz, Bitterfeld, Walfen, Hoechst, Agfa, Ludwigshafen og Buchenwald—og naut í staðinn góðs af því ódýra vinnuafli sem þar var að fá. [Josiah E. DuBois, THE DEVIL'S CHEMISTS, 1952]

En hvað hefur þetta allt að gera með Hitler og Wall Street?

Skömmu eftir stofnun I. G. Farben, eða um 1930, hófst víðtæk samvinna milli þess og stærstu bandarísku fyrirtækjanna: Standard Oil (nema hvað?), Ford, DuPont og fleirum. Forsaga þess máls er sú, að á milli 1924 og 1931, samkvæmt svokölluðum Dawes Plan og Young Plan, fengu Þjóðverjar 33ja milljarða marka lán í Bandaríkjunum. Mest af þessum peningum fengust með sölu þýskra skuldabréfa á opnum markaði í Ameríku og stærstu bankarnir á Wall Street sáu um. Það voru reyndar eigendur bankanna sem beittu pólitískum áhrifum sínum og stóðu á bak við bæði Dawes Plan og Young Plan. Prófessor Carroll Quigley segir:

"Það er íhugunarvert að þetta fyrirkomulag var fundið upp af eigendum alþjóðlegu bankanna og þau lán sem fylgdu í kjölfarið, og samanstóðu af peningum almennings, voru mjög ábatasöm fyrir þessa bankaeigendur.

[Carroll Quigley, TRAGEDY AND HOPE, bls. 308, 1966]

Það voru meðal annars þessir peningar sem bandarísku stórfyrirtækin (undir stjórn eigenda bankanna) notuðu til að græða á hervæðingu Þýskalands. Hæstu lánin sem voru veitt á þennan hátt runnu til Vereinigte Stahlwerke, $70.225.000, Allgemeine Elektrizitäts-Gesellschaft (dótturfyrirtæki General Electric í Bandaríkjunum), $35.000.000, og I. G. Farben, 30.000.000 dollara. [Robert R. Kuczynsky, BANKERS PROFITS FROM GERMAN LOANS, bls. 127, 1932.] Öll þessi fyrirtæki borguðu rausnarlega í kosningasjóð Hitlers árið 1933.

Þann 9. nóvember 1929 tóku Standard Oil og I. G. Farben höndum saman og undirrituðu samkomulag þess efnis að keppa ekki hvort við annað á mörkuðunum og skiptast á tæknilegum uppfinningum. Við þetta tækifæri afhenti Rockefeller I. G. Farben 546.000 hlutabréf í Standard að andvirði yfir 30 milljónir dollara, en fékk í staðinn hlutdeild í dótturfyrirtæki Farben í Bandaríkjunum, I. G. Chemical Corporation (kallað General Aniline & Film eftir 1939) sem var stofnað þetta sama ár. Fulltrúi Rockefellers í stjórn þess var Walter Teagle, forstjóri hjá Standard Oil og Federal Reserve Bank of New York. [Stockmg og Watkins, CARTELS IN ACTION, bls. 93, 1946]

Samkomulagið við Standard Oil var ómetanlegt fyrir Hitler og stríðsundirbúning Þjóðverja. Olíuskortur hefur alltaf háð Þjóðverjum og árið 1934 fluttu þeir t.d. inn 85% af allri olíu og bensíni sem þeir notuðu. Við slíkar aðstæður var algjörlega útilokað fyrir þá að hefja meiri háttar styrjöld.

I. G. Farben hafði í nokkur ár reynt að leysa þetta mikla vandamál með nýrri aðferð til að vinna fljótandi eldsneyti úr kolum (með vetni), en með ófullnægjandi árangri. Árið 1929, þegar Farben og Standard gengu í eina sæng, tók Standard Oil Development Company (rannsóknarfyrirtæki Standards í Bandaríkjunum) við þessum rannsóknum og fullkomnaði aðferðina á nokkrum árum. Þá gátu skriðdrekar og hertrukkar Hitlers loks þeyst út á vígvöllinn án þess að óttast viðskiptabönn. Eins og við munum, þá var það einmitt Roskefeller sem kom fótunum undir olíuiðnað Rússa árið 1926 og var hluthafi í Soviet Nobel Oil Works, svo flestir stríðsaðilar standa í mikilli þakkarskuld við gamla manninn!

I. G. hafði fleiri ástæður til að ganga í hjónaband með Standard Oil. Í merkilegri skýrslu sem einn af yfirmönnum auðhringsins, von Knieriem, skrifaði á sínum tíma og kom fram í réttarhöldunum í Nurnberg, segir:

Samkomulagið við Standard Oil var nauðsynlegt af tæknilegum, viðskiptalegum og fjárhagslegum ástæðum: tæknilega, vegna þeirrar sérstöku reynslu sem aðeins var fyrir hendi í stóru olíufélagi og nauðsynleg var fyrir frekari þróun aðferðar okkar (að vinna fljótandi eldsneyti úr kolum), því enginn slíkur iðnaður var fyrir hendi í Þýskalandi; viðskiptalega, vegna þess að ríkisstýrt efnahagslíf var ekki fyrir hendi í Þýskalandi á þessum tíma og I. G. Farben varð að komast hjá samkeppni við voldugu olíufélögin, sem alltaf seldu besta bensínið á lægsta verði á samkeppnismörkuðunum; fjárhagslega, vegna þess að Farben, sem þegar hafði eytt ótrúlega háum upphæðum til rannsókna á aðferðinni, varð að létta á sér fjárhagslega til að geta haldið áfram rannsóknum á öðrum tæknilegum sviðum, eins og framleiðslu á gervigúmmíi.

[Nurnberg réttarhöldin, mál I.G. Farben, vii og viii hefti, bls. 304]

Dótturfyrirtæki Standard Oil í Þýskalandi, Deutsche-Amerikanische Petroleum A. G. (DAPAG), var 94% í eign Standard Oil of New Jersey. Það starfrækti útibú um allt Þýskaland, átti olíuhreinsunarstöð í Bremen og hafði höfuðstöðvar í Hamborg. Þetta fyrirtæki starfaði öll stríðsárin í Þýskalandi.

[Viðbót árið 2004: Árið 1936 reisti Standard Oil olíuhreinsunarstöð í Hamborg sem framleiddi 15 þúsundir tonna á viku af flugvélabensíni fyrir flugher nasista. Eftir að styrjöldin braust út 1939 beitti Standard ýmsum brögðum til að mæta aukinni þörf Hitlers fyrir eldsneyti. Ein frumlegasta leiðin var að senda olíu til Rússlands og flytja hana síðan með lest til Berlínar. Önnur leið og einfaldari var að selja Þjóðverjum olíu í gegnum Franco á Spáni, og Standard mun hafa selt 48 þúsundir tonna mánaðarlega til Hitlers á þann máta árið 1944. En mikilvirkasta leiðin til að slökkva eldsneytisþorsta Hitlers var þó að láta olíuskip Standard sigla til Tenerife á Kanaríeyjum þar sem bæði kafbátar voru fylltir og olíu var umskipað í þýsk skip sem sigldu með hana til Hamborgar.

Standard Oil sló tvær flugur í einu höggi í þessum viðskiptum. Þjóðverjar borguðu ekki aðeins betur en aðrir fyrir vörutegund sem þeir gátu ekki verið án, heldur bendir flest til að þeir hafi sérstaklega reynt að hlífa skipum Standard á meðan öðrum var sökkt. Starfsmaður leyniþjónustu bandaríska hersins, Charles A. Burrows, kom sérstaklega inn á þetta atriði í skýslu sem hann skrifaði 15 júní 1941:

Sjómenn hafa tjáð heimildarmanni okkar að þeir hafi séð kafbáta í nágrenni Kanaríeyja og þeim sé kunnugt um að þeir fái eldsneyti þar. Heimildarmaður okkar bendir líka á að Standard Oil fyrirtækið hefur ekki misst eitt einasta skip í tundurskeytaárásum, ólíkt því sem gerist hjá öðrum bandarískum fyrirtækum sem sigla á aðrar hafnir.]

Fleiri bandarísk fyrirtæki tóku þátt í stríðsundirbúningi Þjóðverja. Í bréfi til Roosevelt forseta, þann 19. október 1936, segir sendiherra Bandaríkjanna í Berlín, William Dodd:

Á þessu augnabliki starfrækja rösklega eitt hundrað amerísk fyrirtæki dótturfyrirtæki hér eða eiga sameiginlegra hagsmuna að gæta. DuPont á sér þrjá bandamenn í Þýskalandi sem hjálpa til við hervæðinguna. Helsti samherji þeirra er I. G. Farben … Standard Oil Company (útibúið í New York) sendi tvær milljónir dollara hingað í desember 1933 og hefur þénað 500.000 dollara á ári við að hjálpa Þjóðverjum að framleiða tilbúið gas til hernaðarþarfa; en Standard Oil getur ekki flutt neitt af tekjum sínum úr landi nema í vöruformi. Þeir gera lítið af því, tilkynna um tekjur sínar heima fyrir, en greina ekki frá staðreyndum. Forseti International Harvester Company sagði mér að viðskipti þeirra hefðu aukist um 33% á ári (hergagnaframleiðsla, trúi ég) … General Motors Company og Ford stunda geysileg viðskipti hér í gegnum dótturfyrirtæki sín og yfirfæra ekkert af gróðanum. Ég minnist á þessar staðreyndir, vegna þess að þær flækja ástandið og auka á stríðshættuna.

[Edgar B. Nixon, FRANKLIN D. ROOSEVELT AND FORElGN AFFAIRS, 3ja hefti, bls. 456, 1969]

Það sem William Dodd vissi ekki—og ekki var vitað fyrr en eftir styrjöldina—var að þær greiðslur sem lagalega séð máttu ekki fara út úr Þýskalandi, fóru, bæði fyrir stríð og í stríðinu sjálfu, í gegnum Bank for International Settlements í Sviss. Eins og við munum, þá var Hermann Schmitz, forseti I. G. Chemical Corp. í Bandaríkjunum og stofnandi I. G. Farben, forstjóri bankans.

[Viðbót árið 2004: Bank for International Settlements var stofnaður 1930 af seðlabönkum nokkra ríkja. Helstu hvatamenn að stofnun hans voru Hjalmar Schacht, bankastjóri þýska seðlabankans og helsti efnahagssérfræðingur Þýskalands, og Emil Puhl, sem var persónulegur fulltrúi Hitlers bæði í seðlabankanum þýska og í Bank for International Settlements. Þessir menn vildu vera í viðbragðsstöðu ef heimsstyrjöld hæfist svo minni truflun yrði á alþjóðlegu fjárstreymi til og frá Þýskalandi. Um það leyti er styrjöldin hófst 1939 réðu nasistar mestu í stjórn bankans, en þar sátu menn eins og Hermann Schmitz (I.G. Farben, Krupp og Deutsche Bank), Walther Funk (skipaður af Hitler og sat einnig í stjórn Ríkisbankans), Emil Puhl (hægri hönd Hitlers), Baron Kurt von Schröder (“SS bankastjórinn”, en Hitler átti frægan fund með von Papen á heimili von Scröder í Munchen árið 1933), Vincenzo Azzolini (fasisti og bankastjóri ítalska seðlabankans) og Alexandre Galopin (belgískur bankastjóri og föðurlandssvikari sem andspyrnuhreyfingin myrti 1944).

Eitt helsta hlutverk Bank for International Settlements á stríðsárunum—fyrir utan að sjá um greiðslur til fyrirtækja sem hjálpuðu nasistum—var að koma í umferð gulli og öðrum fjármunum sem nasistar stálu í herteknum löndum. Til dæmis lögðu Þjóðverjar inn $378 milljónir í gulli í maí 1944, en það var þýfi úr austurrískum, hollenskum og belgískum bönkum. Hluti þessa gulls voru fyllingar sem höfðu verið plokkaðar úr tönnum myrtra gyðinga og síðan bræddar í Ríkisbankanum. [Charles Higham, TRADING WITH THE ENEMY, New York, 1983] Hvergi nema í Sviss gátu nasistar breytt slíku gullmagni í erlendan gjaldmiðil, og þegar þeim varð ljóst að stríðið var að tapast, þá var bankinn óspart notaður til að koma verðmætum úr landi.]

Skömmu síðar sendi William Dodd annað bréf til Roosevelts forseta (23. jan. 1937). Þar segir m.a.:

“Standard Oil Company of New York, eignarfyrirtæki Vacuum Oil, hefur eytt 10 milljónum marka í Þýskalandi við að reyna að finna olíulindir (í Hannover) og byggja stóra olíuhreinsunarstöð nálægt höfninni í Hamborg.”

[Henry H. Schloss, THE BANK FOR INTERNATIONAL SETTLEMENTS, 1958]



og einnig
Innskot árið 2004: Aðdáun Hitlers á Henry Ford byrjaði snemma og hans er getið í Mein Kamph. Þegar Hitler heyrði að Ford væri að hugsa um að fara í forsetaframboð 1923, þá sagði hann í viðtali við Chicaco Tribune: “Ég vildi óska þess að ég gæti hjálpað með því að senda nokkrar stormsveitir til Chicago og annarra amerískra stórborga.” Ford hélt tryggð sinni við Hitler og framleiddi bíla og trukka fyrir þýska herinn öll stríðsárin. Árið 1940 byrjaði Ford að framleiða flugvélahreyfla fyrir nasista í Poissy í Frakklandi. Þegar breski flugherinn gerði loftárásir á þessa verksmiðju þá borgaði leppstjórn Þjóðverja þeim $38 milljónir í skaðabætur og hjálpaði fyrirtækinu að reisa nýjar verksmiðjur víðsvegar um Frakkland.

Annar aðdáandi Hitlers var ekki eins heppinn og Ford, en það var Prescott Bush, pabbi George Bush forseta og afi George W. Bush forseta. Fyrirtæki hans í Bandaríkjunum, Union Banking Corporation í New York, var kært fyrir óeðlileg viðskipti við nasista (braut lög sem féllu undir “Trading With the Enemy Act”) og var lokað af yfirvöldum 1942.

Roosevelt gerði ekkert í málinu. Hann var sjálfur fjármagnaður af sömu aðilum og var verið að klaga (sjá Wall Street and FDR eftir Antony C. Sutton, Arlington House, New York, 1975).

Fyrsti útlendingurinn sem vitað er til að hafi stutt Hitler fjár hagslega var þó ekki Rockefeller—heldur Henry Ford. Í New York Times, 20. desember 1922 (!), segir að bílaframleiðandinn Henry Ford sé að fjármagna þjóðernissinnahreyfingu Adolf Hitlers í Munchen. Á sama tíma skorar Berliner Tageblatt á bandaríska sendiherrann í Berlín að rannsaka og koma í veg fyrir afskipti Henry Fords af innanríkismálum Þýskalands. Hitler virðist hafa haft miklar mætur á Ford, því í greininni segir:

Veggurinn á bak við skrifborðið í einkaskrifstofu Hitlers er skreyttur með stórri mynd af Henry Ford. Í forstofunni er stórt borð þakið bókum, sem flestar eru þýðing á bók sem var skrifuð og gefin út af Henry Ford.

Þegar Henry Ford, árið 1928, stofnaði dótturfyrirtæki í Þýskalandi keypti I.G. Farben 40% hlutabréfanna. Samruninn var fullkomnaður þegar Carl Bosch (forseti I.G. Farben) og Karl Krauch (stjórnarformaður I. G. Farben) settust í stjórn þýska Ford, og Edsel Ford tók sæti í stjórn dótturfyrirtækis Farben í Bandaríkjunum, I. G. Chemical Corp. Til frekari glöggvunar á samruna I. G. Farben við bandarísku stórfyrirtækin og bankana, skulum við líta á stjórn dótturfyrirtækis Farben í Ameríku, I. G. Chemical Corp., eins og hún var 1930. Hana skipuðu eftirtaldir menn:

Hermann Schmitz: Forseti I. G. Chemical Corp., í stjórn og einn stofnenda I. G. Farben, forstjóri hjá Deutsche Bank og Bank for International Settlements, í stjórnum bæði Krupp og Vereinigte Stahlwerke.
Poul M. Warburg: “Faðir” Federal Reserve System (alríkisbankakerfis Bandaríkjanna) og fyrsti forseti þess, í stjórn Federal Reserve Bank of New York, einn af eigendum Bank of Manhattan (seinna Chase Manhattan) og bróðir Max Warburg (sem sat í stjórn I.G. Farben).
Carl Bosch: Forseti I. G. Farben og í stjórn Ford Motor A.G. (Þýskalandi).
CE. Mitshell: Forstjóri hjá Federal Reserve Bank of New York og National City Bank (Rockefeller).
Edsel B. Ford: Sonur Henry Fords og forstjóri hjá Ford Motor of Detroit.
Max Ilgner: Yfirmaður leyniþjónustu I. G. Farben (I. G. Farben N. W. 7).
W. H. von Rath: Forstjóri hjá dótturfyrirtæki General Electric í Þýskalandi (A.G.E.)
Walter Teagle: Forstjóri hjá Standard Oil og Federal Reserve Bank of New York.

Aðrir í stjórn I. G. Chemical Corp. árið 1930 voru W. E. Weiss (Sterling Products), F. Ter Meer (dæmdur í Nurnberg), Walter Duisberg og Adolf Kuttroff. [Moody's Manual of lnvcstments, bls. 2149, 1930]

Einn liður í stríðsundirbúningi Þjóðverja var þjóðnýting erlendra fyrirtækja. Þrátt fyrir þessa yfirlýstu stefnu voru fyrirtæki Fords, ITT, Standard Oil, General Electric og fleiri bandarískra stórfyrirtækja aldrei þjóðnýtt. Við yfirheyrslu í Nurnberg réttarhöldunum útskýrði Karl Krauch (stjórnarformaður I. G. Farben og meðlimur í stjórn Ford A.G.) hvers vegna þýska Ford fyrirtækið var ekki þjóðnýtt:

“Ég þekkti Henry Ford persónulega og dáði hann mjög. Ég fór og hitti Göring sjálfan vegna þess. Ég sagði Göring að ég þekkti einnig son hans, Edsel; og ég sagði Göring, að ef við tækjum hlutleysi Fords frá Þýskalandi, þá mundi það spilla fyrir vinsamlegum samskiptum okkar við amerískan iðnað í framtíðinni …”

Göring hlustaði á mig og sagði síðan: “Ég samþykki. Ég skal sjá til þess að Deutsche Fordwerke verði ekki breytt í Hermann Göring Werke.”

[Josiah E. DuBois. THE DEVIL'S CHEMISTS, bls. 247. 1952]

Verksmiðjur Ford í Þýskalandi framleiddu hertrukka og herbíla öll stríðsárin fyrir heri nasista. Þær voru allan tímann 60% í eign Ford Motor of Detroit sem uppskar ríkulega. Þegar Frakkland var hernumið af nasistum héldu verksmiðjur Ford þar áfram að framleiða hertrukka eins og ekkert hefði í skorist. Það eina sem breyttist var, að nú var það þýski herinn sem keypti, en ekki sá franski. Í bréfi frá forstjóra Ford Motor í Frakklandi, Maurice Dollfuss—sagður fyrsti Frakkinn sem heimsótti Berlín eftir fall Frakklands—til Edsel Ford, segir að verksmiðjurnar geti framleitt 20 hertrukka á dag fyrir þýska herinn, sem (skrifar Dollfuss) er meira en:

… óheppnari keppinautar okkar í Frakklandi geta. Ástæðan er sú, að trukkar okkar eru mjög eftirsóttir af þýsku yfirvöldunum og ég held að eins lengi og stríðið stendur og alla vega í nokkurn tíma, þá verður allt sem við framleiðum keypt af þýsku yfirvöldunum … Það gleður mig að segja yður, að sú stefna sem þér hafið tekið, ásamt föður yðar, að halda algjört hlutleysi í heiðri, hefur haft ómetanlega þýðingu fyrir framleiðslu fyrirtækja yðar í Evrópu.

[Josiah E. DuBois. GENERALS IN GREY SUITS, bls. 248,1953]

Dollfuss heldur áfram og segir Edsel að nettó-gróði fyrirtækisins fyrir 1941 sé rösklega 58 milljónir franka, aðallega vegna skjótra greiðslna frá Þjóðverjum. Edsel Ford svarar bréfinu með eftirfarandi símskeyti:

"Gleður mig að heyra að yður vegnar vel. Bréf yðar eru mjög athyglisverð. Skil fullkomlega hið mikla forskot sem þér búið við. Vona að yður og fjölskyldunni líði vel. Kveðjur.

s/Edsel Ford.

[Josiah E. DuBois, GENERALS IN GREY SU ITS, bls. 249,1953]

Í Amsterdam, Antwerpen, Búdapest, Búkarest og Kaupmannahöfn var sama uppi á teningnum og í Frakklandi. Þar átti Ford verksmiðjur sem framleiddu farartæki fyrir þýska herinn. Og til að bæta gráu ofan á svart var nýtt dótturfyrirtæki sett á. laggirnar í Frakklandi, Ford-Afrique, sem bar ábyrgð á starfsemI Ford Motor í Alsír, Túnis, frönsku Morocco og frönsku Vestur­Afríku. Dótturfyrirtæki Fords á Englandi, Ford Motor Ltd., hafði ekki lengur aðgang að Norður-Afríku, svo þetta nýja dótturfyrirtæki—skrásett í Frakklandi á yfirráðasvæði nasista—var látið fylla í skarðið.

Það er dálítið hjákátleg staðreynd, að Ford Motor of Detroit framleiddi hertrukka og herbíla fyrir alla stærstu heri seinni heimsstyrjaldarinnar. Bandaríski herinn verslaði við verksmiðjumar í Detroit. Breski herinn við Ford Motor Company Ltd. á Englandi. Þýski herinn við Ford Motor A. G. í Þýskalandi, Ford í Frakklandi, Ford-Afrique og víðar. Og loks ók rússneski herinn a Molotov trukkum frá Gorki verksmiðjunni, sem var reist og tæknivædd af Ford Motor of Detroit.

Á sjötugasta og fimmta afmælisdegi sínum, 1938, var Henry Ford sæmdur æðsta heiðursmerki nasista sem útlendingar áttu kost á—stórkrossi þýska arnarins. Hann þáði heiðurinn með þökkum, enda vel að honum kominn.

Annað fyrirtæki sem lét mikið að sér kveða í Þýskalandi nasismans var International General Electric, eignarfyrirtæki General Electric. Þetta athafnasama fyrirtæki hafði veruleg afskipti af iðnaðaruppbyggingu Rússlands, og þegar það hélt til atlögu við þýska markaðinn hafði það nýlega lokið við að rafvæða stór landssvæði austur þar.

Dótturfyrirtæki General Electric í Þýskalandi hét Allgemeine Elektrizitäts-Gesellschaft (A.E.G.). Fjórir Bandaríkjamenn sátu í stjórn A.E.G. Þeir voru Gerard Swope, Owen D. Young, Clark H. Minor og E. Baldvin., Þessir menn voru einnig valdamestu aðilarnir í stjórn International General Electric, Broadway 120, New York. Það er athyglisvert, að þrátt fyrir að þessir menn sætu í stjórn A.E.G., þá gaf fyrirtækið 60.000 mörk í kosningasjóð Hitlers árið 1933 (sem var dulnefndur “Nationale Treuhand” sjóðurinn).

Annað stórfyrirtæki sem General Electric náði tökum á var Osram. Gerard Swope og Owen D. Young voru báðir í stjórn þess er það gaf 40.000 mörk í kosningasjóð Hitlers. Þessar greiðslur fóru í gegnum Schickler Bank í Berlín.



Læt hér staðar numið í bili,en er það ekki grátlega augljóst hvað drífur styrjaldir áfram,allavega sumar þeirra.
Bíð enn eftir þeim degi að þessi mál verði rædd á opinskánn og hreinskilnislegann hátt af málsmetandi mönnun,eða er betra að fólk sofi bara
og sé ekki að velta þessu of mikið fyrir sér?

Hér er hægt að lesa nánar um hvejir græddu feitt á öllu saman.
http://www.vald.org/falid_vald/kafli07.htm