Eins og flestir hafa líklega tekið eftir ók Eyþór Arnalds, fyrsti maður á lista Sjálfstæðisflokksins í Árborg, ölvaður á ljósastaur í gær. Hann kemur auðvitað illa út úr þessu máli, en mér finnst viðbrögð tveggja aðila eiginlega vera verri:
Geir H. Haarde sagði þetta eftir fund um málið:
„Ég held að sá manndómur sem hann sýnir í þessu máli og tekur á sig, sem hlýtur að vera honum persónulega mjög þungbært, eigi að sýna að Sjálfstæðisflokkurinn víkur sér ekki undan ábyrgð."
Það eru greinilega fleiri en Eyþór Arnalds úti að aka. Er Geir í einhverjum öðrum heimi? Málsatvik:
1. Eyþór Arnalds ekur fullur á staur
2. Eyþór Arnalds flýr af vettvangi
3. Eyþór Arnalds ákveður að halda áfram í framboði
Hvernig er mögulega hægt að túlka þetta sem manndóm og hvað þá að þetta sýni að Sjálfstæðisflokkurinn víki sér ekki undan ábyrgð!? Ég skil ekki í herra Haarde að rýra trúverðurleika sinn með svona bulli og vitleysu.
Annar aðili sem bregst kjánalega við þessu máli er Morgunblaðið. Í baksíðufrétt um málið er fyrirsögnin „Eyþór Arnalds dregur sig í hlé“. Hvaða frétt er það? Hann er ekki einu sinni hættur við framboðið. Fréttin er samt verri. Þar er birt yfirlýsing Eyþórs óslitin og ekki einu orði minnst á að hann hafi flúið af vettvangi. Að lokum er vitnað í þessi fáranlegu orð Geirs. Gegnumgangandi alla fréttina er að þetta sé rosalegt „áfall” fyrir Eyþór og að hann sé í raun sönn hetja. Þetta sýnir mjög skýrt hversu bláeygt Morgunblaðið getur oft verið.
Eyþór Arnalds getur alveg haldið áfram í framboði fyrst meðframbjóðendur hans vilja „halda ótrauðir áfram" með hann í fyrsta sæti. En að segja að hann sé að sýna manndóm og axla ábyrgð með því að keyra fullur og flýja af vettvangi er hrein geðveiki.