Jamm, smá innlegg hér, nenni ekki láta þetta fram hjá mér fara.
Það sem ég hef nokkrar áhyggjur af er það að fólk spáir ekki í rætur glæpanna, hvað fær morðingjana til að myrða. Hættulegasta einföldun sem mannkynið hefur flækt sig í á þessu efni er sú að manneskjan sé góð eða ill. Ég tel hugtök eins og gott og illt einfaldlega vera slappar einfaldanir á huga mannsins og viðbrögðum hans til samfélagsins.
Nú skulum við setja okkur í spor morðingjans. Afhverju þurfum við að stúta einhverjum? Margar ástæður kunna að liggja að baki, en þær er hægt að skipta í einhverja flokka. Fyrst má nefna geðveiki. Eitthvað er að í hausnum á manni sem fær mann til að halda að líf annarra skipti engu máli. Er rétt að taka svoleiðis fólk af lífi? Nei, segi ég. Svona fólk þarfnast lækningar sem ég tel sjálfsagt að því beri að veita.
Skylt geðklofanum er firringin. Þar eru ytri aðstæður sem fá mann til að halda því fram að það sé “í lagi” að drepa einhverja. Stríð eru dæmi um slík manndráp. Þar drepa hermenn andstæðinga sína vegna þess að þeim hefur verið kennt að allt sem þeir sjálfir standi fyrir sé gott og rétt, en andstæðingarnir séu illir og þeim beri að eyða. Fleiri dæmi má nefna. Fólk getur tildæmis haldið að gyðingar séu vondir og réttdræpir, eins og Hitleri tókst að sannfæra marga Þjóðverja um, eða þá bara það að kommúnistar, svertingjar, löggur, hommar, rauðhærðir eða hverjir sem er séu af hinu illa. Hér kemur inn í þessi einföldun sem ég minntist á fyrir ofan. Þetta er það sem hugtökin “gott” og “illt” geta leitt af sér, þ.e.a.s. tilgangslaus dráp. Dauðarefsing er engin lausn í þessum efnum, heldur menntun og skilningur.
Næst á dagskrá er örvæntingin. Þar er morðingin beinlínis fórnarlamb ytri aðstæðna. Skæruhernaður er dæmi um þetta. Minnihlutahópur hefur orðið fyrir barðinu á kúgun frá drottnurum sínum. Öll köll á hjálp hafa verið gagnslaus og ekkert annað lítur út fyrir að koma til greina en að stunda manndráp. Sjálfsvörn flokkast í sömu kategoríu, þar sem þetta snýst allt um að drepa eða vera drepinn.
Það sem margir telja vera fyrirlitslegustu tegund morða eru græðgis- og auðgunarmorð. Þar sjá morðingjarnir beinlínis hagnað í því að koma einhverjum fyrir kattarnef. Hér á fólk það á hættu að taka fljótfærnislegar ályktanir. Við verðum nefnilega að grafa að rótum vandans. Ég tel grunnþarfir mannskepnunnar vera þrjár: Sinna grunnþörfum (borða, sofa etc.), sinna sköpunarþörfum og sinna félagsþörfum. Hér vil ég fókusera smá á félagsþarfirnar. Maðurinn fæðist inn í samfélag þar sem félagsleg staða snýst um litla græna snepla sem kallast peningar. Félagslegt álit byggist að mestu á hversu mörgum litlum grænum blöðum maðurinn getur rakað saman. Ef maðurinn getur ekki rakað saman peningunum þá fær hann ekki að njóta sín félagslega. Þetta veldur því þráhyggju hjá mönnunum, og þeir fara að beita öllum tiltækum ráðum til að sölsa undir sig pening. Ef það veldur hagnaði að einhver manneskja taki upp á því að gefa upp öndina, þá verður maður víst að sjá til þess að það gerist. Þá er þetta farið að leiða út í sömu sálma og örvæntingin. Ef maðurinn fær ekki peningana, þá missir hann félagslegu stöðu sína, og hluta af sjálfum sér í leiðinni.
Ég er að spá í að hætta þessu núna.