Dæmdur í 5 ára fangelsi fyrir kynferðisbrot gegn dóttur sinni

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt karlmann í fimm ára fangelsi fyrir að beita dóttur sína ítrekað kynferðislegu ofbeldi á árunum 1998 til 2004 þegar stúlkan var á aldrinum 8 til 14 ára. Maðurinn var einnig dæmdur til að greiða stúlkunni 2 milljónir króna í bætur.

Maðurinn neitaði sök og hélt því fram fyrir dómnum að að ásakanir stúlkunnar væru að áeggjan fyrrum fósturföður hennar. Dómurinn, sem var fjölskipaður, taldi hins vegar þennan framburð fjarstæðukenndan og sagði rannsóknarniðurstöður frá Rettsmedisinsk institutt og neyðarmóttöku Landspítala og framburð vitna rennir traustum stoðum undir framburð stúlkunnar sjálfrar.

Var að mati dómsins hafið yfir skynsamlegan vafa, að maðurinn hafi gerst sekur um þá háttsemi að láta stúlkuna fróa sér, tvívegis látið hana sjúga getnaðarlim sinn, og haft samræði við hana í nokkur skipti.

Dómurinn segir, að brotin sem maðurinn sé sakfelldur fyrir séu mjög alvarleg og stóðu yfir í langan tíma. Þau hafi beinst gegn dóttur hans, sem hafi allt frá fæðingu búið við afar erfiðar uppeldisaðstæður. Af gögnum málsins verði ráðið að stúlkan hafi ekki notið umönnunar og uppeldis ættmenna sinna, nema í afar takmörkuðum mæli, og það hafi manninum verið fullkunnugt um. Í stað þess að vernda barn sitt og hjálpa því við þessar hörmulegu aðstæður, hafi hann beitt það grófu kynferðislegu ofbeldi og brugðist algerlega trausti þess og foreldraskyldum sínum gagnvart því. Er refsing mannsins ákveðin fangelsi í fimm ár.

Dómurinn segir síðan að í gögnum málsins komi glögglega fram, að stúlkan hafi allt frá fæðingu búið við afar erfiðar uppeldisaðstæður, sem án efa hafi sett mark sitt á sálarlíf hennar. Þótt erfitt sé í ljósi þess að meta umfang andlegs tjóns stúlkunnar, sé hið grófa kynferðislega ofbeldi, sem maðurinn beitti stúlkuna allt frá unga aldri, til þess fallið að skaða sjálfsmynd stúlkunnar og valda henni gríðarlegum andlegum erfiðleikum síðar meir. Voru miskabætur til handa stúlkunni ákveðnar 2 milljónir króna.



af mbl.is
afhverju bara 5 ár og að borga henni 2 millur hvar er réttlætið :(