Mig langaði bara að koma þessu frá mér.

————-

Eitt árið enn liðið hjá í snatri. Tíminn líður hratt, alveg örugglega hraðar en nokkurtíman fyrr. Enda þýðir ekkert annað í samfélagi sem byggist upp af fólki sem er á sífelldum hlaupum og trúir því statt og stöðugt að það sé alltaf að missa af lestinni.

Ég sjálfur er hluti af þessu samfélagi og á sjálfsagt minn skerf af áhrifum á hröðun tímans. Já ég vill meina að nútímaþjóðfélagið sé að ýta undir hve tíminn líður hratt. Ekki misskilja mig samt og taka mig fyrir sturlaðan mann, ég er ekki að halda því fram að tíminn sé í rauninni að geysast hraðar áfram. Ég er bara að segja – og trúi því frá botni hjarta míns – að við gætum öll nýtt tíman betur og lifað svo miklu miklu meira á okkar hraða.

Auðvitað er þetta bara barnsleg trú og óskhyggja sem ég á sjálfsagt eftir að yfirgefa þegar ég nálgast það að verða fullorðinn. Við virðumst allavega öll gleyma því þegar blákaldur veruleikinn kemur í ljós þegar við klárum skólann og þurfum að bjarga okkur upp á eigin spítur. Græðgin sem einkennir vestræn ríki heltekur alla, bara í mismunandi myndum. Sum okkar dreymir um frægð og athygli sem við trúum að færi okkur eilífa hamingju, aðra dreymir um peninga og völd sem við trúum að færi okkur líka eilífa hamingju.

Því miður virðist veraldleg gæði vera að heltaka heiminn allan og oft gleymast þau huglegu málefni og líðan sem ættu í rauninni að skipta okkur meigin máli. Enginn virðist beita sér af fullum krafti til að koma hjálparhönd til þeirra sem hafa það verr en við. Það virðist ekki einu sinni vera til margir hérna sem vilja berjast fyrir eigin landi, náttúru og þjóð.

En er eitthvað sem við getum gert… er eitthvað sem við smælingjarnir getum gert til að hafa áhrif á auðvaldið sem stjórnar þeim heimi sem við lifum í? Ef að allir segja nei við þessu, sem virðist vera að lang flestir gera, ættum við kannski ekki að furða okkur á því að þeir ríku verða ríkari og fá vilja sínum framgengt hver sem hann er. Það kemur enginn fram sem getur breytt heiminum nema að hann trúi á að hann geti það. Það gerir það heldur enginn einn. Þessvegna þurfum við öll að standa saman í því að breyta heiminum. Við þurfum öll að hugsa þannig að við getum breytt heiminum til hins betra, því ef allir sameinast í því að breyta heiminum sjáum við fyrst fram á það að geta breytt honum.

Fyrirfram þökk fyrir sama og ekkert skítkast og gleðilegt ár.

Fenrir Greyback