Mikið er búið að ganga á þar westra undanfarið og mykjuhaugurinn í bakgarði Bush verður æ sýnilegri almenningi þar í landi. RÚV gerði hér á þessu prýðileg skil sem er þó alls ekki tæmandi.

Háttsettir repúblikanar í Bandaríkjunum skora á George Bush forseta að ráða nýtt fólk til ábyrgðarstarfa í Hvíta húsinu eftir erfiðustu viku forsetans í embætti til þessa.

Samkvæmt nýrri könnun telja 58% Bandaríkjamanna að Bush standi sig illa í embætti. Margt leggst þar á eitt. Á þriðja þúsund bandarískir hermenn liggja í valnum í Írak, þar er ekkert lát á skærum og sprengjutilræðum.

Þá þótti Bush bregðast seint og illa við náttúruhamförunum í suðurríkjunum þar sem fellibylurinn Katrín olli dauða og skelfingu. Svo fór tilnefning Harriet Miers, lögmanns forsetans, í embætti hæstaréttardómara í handaskolum og loks sætir háttsettur skjólstæðingur Bush og Dicks Cheneys varaforseta, Lewis Libby fyrrverandi starfsmannastjóri varaforsetans, ákæru fyrir þær fáheyrðu sakir að hafa afhjúpað erindreka sinnar eigin leyniþjónustu, CIA, en margir líta á það sem landráð.

Fréttaskýrendur segja Íraksþráteflið, viðbrögðin við fellibylnum og hæstaréttarmál Miers bera vott um dómgreindarskort Bush, almenningur sé farinn að efast um skynsemi hans. Síðan bendi svo mál Libbys til þess að forsetinn sé í ofanálag umkringdur siðlausum og spilltum stríðsæsingamönnum.

Ýmsir viðmælendur Washington Post, bæði repúblikanar og demókratar, efast um að Bush nái að endurheimta fyrra traust og vinsældir, til þess sé vandi hans of margþættur og flókinn.

Ef blessaður sauðurinn ætlar að halda haus þarf hann að henda út þessu rusli og hyski í kringum sig , s.s. Rove, Rumsfeld og Cheney. Hvort það dugi svo er spurning. Ætli þyrlan góða og einhver skemmtileg lokaorð verði ekki endirinn á þessu úr því sem komið er..