Margir segja að Íranir eigi að hafa rétt til þess að nýta kjarnorku eins og önnur ríki. Mörgum finnst það jafnvel fáránlegt að ríki eins og Bandaríkin og Ísrael mótmæli því þar sem þau sjálf hafa mikið af kjarnorkuvopnum. Ég var fyrst á báðum áttum með þetta, getur verið að þeir vilja bara nota kjarnorkuna sem orkugjafa? Eða vilja þeir kjarnorkuvopn til þess að ráðast á Ísrael?

Mbl.is “Forseti Írans, Mahmoud Ahmadinejad, sagði í dag að þurrka bæri Ísrael út af kortinu”. Ég veit að það eru ekki margir Íslendingar sem eru aðdáendur Ísraelsmanna en samt sem áður þá hafa þeir aldrei talað um að þurrka út heilt ríki. Það er ekkert leyndarmál að það hefur verið samstaða á milli margra ríkja í miðausturlöndum um að það eigi að útrýma Ísrael. Er slíkum ríkjum treystandi fyrir kjarnorku?

Árið 1981 stöðvuðu Ísraelsmenn kjarnorkuáætlanir Saddams í Írak með loftárásum. Maður þorir varla að hugsa út í hvað hefði gerst ef Saddam hefði haft slík vopn, en talið var á þeim tíma að Írakar væru aðeins nokkrum árum frá því að koma sér upp kjarnorkuvopnum. Ef slíkar aðgerðir hefðu ekki verið gerðar, þá hefði Saddam líklega haft kjarnorkuvopn árið 1991 þegar hann sendi tugi flugskeyta á Ísrael.

Jafnvel þó þið séuð á móti Ísrael þá verður maður að sjá heildarmyndina. Kjarnorkuárás á Ísrael er eitthvað sem margar þjóðir vilja sjá verða að veruleika, en slík árás myndi mjög líklega koma á heimstyrjöld og útrýma þeim lífsgæðum sem við höfum í dag.