Stjórnarskrá landsins hefur verið samþykkt. Næst munu Írakar kjósa í þriðja skipti í desember en þá verður í fyrsta skipti kosið í hefðbundnum þingkosningum. Frábært hvað lýðræðisþróunin gengur vel þrátt fyrir svartsýnisspár friðarsinna.
__________________________
Stjórnarskrá Íraka var samþykkt
Yfirkjörstjórn Íraks segir að ný stjórnarskrá hafi verið samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu fyrir rúmri viku. Stjórnarskráin var felld með yfirgnæfandi meirihluta í tveimur héröðum af 16 en 2/3 kjósenda í þremur héröðum þurftu að greiða atkvæði gegn stjórnarskránni svo hún teldist vera felld.
Ljóst varð í gær, að mikill meirihluti íbúa í Al-Anbar héraði og Salaheddin héraði hefðu hafnað stjórnarskránni en súnní-múslimar eru í meirihluta í þessum héröðum báðum. Afdrif stjórnarskrárinnar ultu á úrslitum í Nineveh héraði, þar sem flestir íbúar eru einnig súnní-múslimar, en niðurstaðan þar varð ekki ljós fyrr en í morgun. Þar reyndust 55% þeirra sem greiddu atkvæði hafa hafnað stjórnarskránni en 45% samþykktu hana. Það var hins vegar ekki nóg til að stjórnarskráin teldist vera felld.
Að sögn Farids Ayyars, talsmann kjörstjórnarinnar, urðu kjörstjórnarmenn og embættismenn Sameinuðu þjóðanna, sem fylgdust með kosningunum og atkvæðatalningunni, ekki varir við nein slík brot á kosningareglum, að það gæti haft áhrif á niðurstöðuna.
Samþykkt stjórnarskrárinnar þýðir, að hægt verður að kjósa nýtt þing í desember. Samkvæmt stjórnarskránni fá héraðsstjórnir mikil völd og einnig er sjálfsstjórnarsvæði Kúrda í norðurhluta landsins staðfest. Gert er ráð fyrir að sjía-múslimar í suðurhluta Íraks stofni svipaða heimastjórn og Kúrdar í norðri.
Súnní-múslimar, sem réðu lögum og lofum í landinu meðan Saddam Hussein var forseti Íraks, eru almennt andvígir stjórnarskránni og óttast að hún feli það í sér að stærstur hluti olíulinda landsins komist í hendur sjía-múslima og Kúrda.