„Alda skall á skútunni og lagði hana á hliðina“
„Það skall alda á skútunni og lagði hana á hliðina, og við það brotnaði mastrið,“ sagði Adam Lalich þegar hann steig út úr þyrlu Landhelgisgæslunnar í Reykjavík, en honum var í morgun bjargað af skútu sinni sem stödd var um 90 mílur norðvestur af Straumsnesi við Ísafjarðardjúp. Lalich, sem er Bandaríkjamaður á fimmtugsaldri, og eigandi skútunnar sagði að skoskur félagi sinn hafi farið fyrir borð um miðnætti og síðan hafi ekkert til hans spurst. Ekkert amaði að Lalich og þurfti hann ekki að gangast undir læknisskoðun.
Aðspurður um björgunina sagði hann: „Þeir létu vírinn síga og ég setti lykkjuna utan um mig. Þetta var auðvelt.“ Flugstjóri þyrlunnar sagði að ekki hafi þurft að senda sigmann niður, enda reynt að forðast að láta menn síga í skútur þar sem mastrið getur skapað mikla hættu fyrir sigmann þar sem það sveiflast til í miklum sjó. Lalich er þaulreyndur skútusjómaður frá Alaska, sem siglt hefur um heimsins höf, m.a. til Suðurskautsins, og átti því ekki í erfiðleikum með að koma sér í lykkjuna og um borð í TF-LIF.
Þyrlan lenti á Reykjavíkurflugvelli um ellefuleytið í morgun með Lalich. Þyrlan og TF-SYN, Fokker-flugvél Landhelgisgæslunnar voru sendar á staðinn snemma í morgun, en neyðarbauja úr skútunni sendi neyðarkall í nótt.
Þyrlan kom við á Rifi til að taka eldsneyti í bakaleiðinni og lenti við flugskýli Landhelgisgæslunnar kl. 11:09. Flugvélin Syn hafði lent á Reykjavíkurflugvelli kl. 10:24.
Í tilkynningu frá Landhelgisgæslunni vegna málsins segir að neyðarkall hafi borist klukkan 2:17 í nótt um gervihnött frá neyðarsendi til stjórnstöðvar Landhelgisgæslunnar/vaktstöðvar siglinga. Samkvæmt neyðarkallinu var neyðarsendirinn staðsettur rúmlega 90 sjómílur norðvestur af Straumnesi við Ísafjarðardjúp. Í framhaldi af því var farið að kanna skipaferðir á svæðinu og athuga hvort þau væru í nauðum. Einnig var haft samband við björgunarstjórnstöðvar í nágrannalöndunum til að spyrjast fyrir um uppruna neyðarbaujunnar og skipaferðir.
Þær upplýsingar fengust að lokum frá björgunarstjórnstöðinni í Norfolk í Bandaríkjunum að umrædd neyðarbauja tilheyrði bandarískri skútu sem heitir Vamos og að vitað væri að skútan væri á þessu hafsvæði með tvo menn um borð. Í framhaldi af því náðist samband við norskan línuveiðara sem hélt sjó um fjórtán sjómílum frá þeim stað er neyðarbaujan var á. Vegna veðurs treysti skipstjórinn sér ekki til að athuga með skútuna enda var fárviðri á svæðinu, vindur um 30 metrar á sekúndu. Sagðist hann hafa nóg með að halda skipinu til. Að hans sögn var 10-15 metra ölduhæð á svæðinu og lélegt skyggni.
Líf, stærri þyrla Landhelgisgæslunnar, fór frá Reykjavík kl. 5:40 og Syn, flugvél Landhelgisgæslunnar kl. 6:13. Nauðsynlegt var að senda flugvélina auk þyrlunnar til að leita að skútunni fyrir þyrluna og jafnframt til öryggis fyrir þyrluáhöfnina. Áhöfn Synjar fann skútuna kl. 8:07 og gat því leiðbeint þyrlunni á réttan stað. Líf kom að skútunni um kl. 8:30 og var einn maður um borð. Honum var bjargað um borð í þyrluna og lenti hún á Reykjavíkurflugvelli um kl. 11. Samkvæmt upplýsingum skipverjans fékk skútan á sig brot um kl. 00:15. Skútan lagðist þá á hliðina, mastrið brotnaði og annar skipverjinn féll fyrir borð.
Myndir af skútunni sem TF-Líf tók í morgun.
Landhelgisgæslan/Páll Geirdal
Í tilkynningu Landhelgisgæslunnar er haft eftir Birni Brekkan Björnssyni þyrluflugmanni, að mótvindur hafi verið alla leiðina og vindhraði um 20-30 metrar á sekúndu. Þegar komið var á svæðið var áhöfn Synjar, flugvélar Landhelgisgæslunnar, búin að finna skútuna og kom það sér mjög vel enda hafði þyrlan takmarkað flugþol á svæðinu. Þegar Líf kom að skútunni var hún á flatreki og mastrið brotið. Áhöfn Synjar hafði þá náð sambandi við skipverjann um borð og fengið upplýsingar um ástand hans.
Hann kom því strax til skila að hann væri í góðu ásigkomulagi og sáu áhafnir flugvélanna hann aftur í skut skútunnar. Hann treysti sér til að koma sér sjálfur í björgunarlykkju og kom það sér vel því þá þurfti sigmaður ekki að fara niður til hans enda getur verið erfitt að athafna sig í kringum víra og möstur við svona aðstæður. Hífingin gekk mjög vel og tók aðeins 5 mínútur.
Eftir að maðurinn var kominn um borð var hafin leit að týnda félaga hans en sökum takmarkaðs flugþols þyrlunnar var aðeins hægt að leita í skamma stund á þyrlunni. Syn hélt leit áfram í rúma klukkustund. Leitin bar ekki árangur.
Samkvæmt upplýsingum frá Landhelgisgæslunni voru aðstæður til leitar afar erfiðar. Vitað var til þess að maðurinn fór í sjóinn í óvatnsþéttum galla.
Ég tók þessa frétt af mbl.is
Ég hef verið aðeins að ræða við hann og, og er ég var að ræða við hann var ég næstum búin að brotna niður og gráta mér fannst þetta svo hræðilegt atvik.
Það er bara ótrúlegt hvað maður er máttlaus gagnvart máttum móður náttúru, hann segist hafa virkilega fundið fyrir því er vinur hans fór út í sjó! Það er alveg ótrúlegt að á einni nóttu getur allt breyst, þú veist aldrei hvenær þú deyrð eða einhver náin þér eða hvort einhverjar náttúruhamfarir taki heimili þitt!