Miðja fellibylsins Rítu er komin á land á mörkum Texas og Louisiana. Óttast er að óveðrið valdi gífurlegu tjóni og að bensínskortur í landinu aukist því þarna eru nokkrar stærstu olíuhreinsistöðvar Bandaríkjanna. Ríta er núna 3.stigs fellibylur, veðurhæðin í miðjunni er um 55 sekúndumetrar og meira í kviðunum.

Gífurlegt úrhelli hefur verið við ströndina frá því í gær og sífellt bætt í vind frá því í gærkvöld. Íbúar eru flestir farnir frá ströndinni.

Svo virðist sem bæirnir Beaumont, Port Arthur og Lake Charles lendi í mesta veðurofsanum. Tré hafa fallið í öflugum vindhviðum og mikið af rusli fýkur um götur bæjanna.

Mikill eldsvoði varð í nótt í strandbænum Galveston í Texas, sem talinn er í mikilli hættu vegna óveðursins. 3 stór timburhús brunnu til kaldra kola. Slökkvilið fékk ekkert við ráðið enda vindur yfir 30 m/sek.

Rafmagn er farið af bænum og víðar meðfram ströndinni. Reiknað er með að ströndin fari að miklu leyti á kaf því talið er að áhlaðandinn, það er hækkun yfirborðs sjávar verði 5-6 metrar. Búist er við að úrhellið haldi áfram næstu daga.

Í Houston, þar sem stór hluti olíuvinnslu Bandaríkjanna fer fram, eru snarpar vindhviður og úrhelli með hléum. Líklegt þykir að borgin sleppi við fellibylinn að mestu.

Þrátt fyrir að Ríta hafi farið á land 320 kílómetrum vestur af New Orleans, finna íbúar borgarinnar fyrir áhrifum fellibylsins. Háar öldur sem fylgja óveðrinu flæða yfir flóðgarða borgarinnar.

Björn Malmquist,Fréttamaður útvarps, eyddi nóttinni á hóteli í miðbæ Houston, þar sem flestir hótelgestir sváfu í matsalnum. Hann sendi þennan pistil í nótt.

Ég er staddur á Westin hótelinu, sem er nokkuð fyrir vestan miðbæ Houston. Hér eru um 1.500 hótelgestir, íbúar í nágrenninu sem ákváðu að vera hér um helgina og reyndar hitti ég einnig fólk sem flúði New Orleans eftir fellibylinn Katrínu.

Hér hafa verið gerðar viðamiklar öryggisráðstafanir, í dag voru allir gestir beðnir að koma niður á 4. hæð, í ráðstefnusal þar öllum var boðið upp á kvöldmat, það voru skemmtiatriði, og bíómyndir fyrir börnin.

Hópur af fólki stóð þarna fyrir framan sjónvarpstæki og var að fylgjast með fréttaflutningi af Rítu meðal þeirra var Martin Harris, verkfræðingur sem býr í nágrenninu á svæði sem iðulega lendir undir vatni þegar svona viðrar. Hann kom með konu sinni á hótelið í dag og stóð þarna með hundinn sinn í fanginu.

Með kvöldinu var fólki leyft að fara aftur upp á herbergin sín. Martin ætlaði að bíða og sjá hvað yrði. Hann hefur búið hér í 35 ár, þannig að þetta er ekki í fyrsta sinn sem hann lendir í þessum aðstæðum en hann segir að þessi fellibylur sé einn af þeim verstu.


Vill nú bara seigja að ég er ekki til í að vera þarna!

Á
www.ruv.is