____________________
Mbl.is…
Ariel Sharon, forsætisráðherra Ísrael, segir að Palestínumenn eigi rétt á sínu eigin ríki og að Ísraelsmenn hafi engan áhuga á að ráða yfir þeim með neinum hætti. Þetta sagði Sharon á leiðtogafundi aðildarríkja Sameinuðu þjóðanna í New York í dag. Sharon sagði að sættir yrðu að nást við Palestínumenn og að ákveðnar málamiðlanir yrðu að vera gerðar til að slík sátt muni nást.
Hann bætti því þó við að nú þegar brottflutningi Ísraelsmanna frá Gasasvæðinu er lokið sé það í höndum Palestínumanna að „sanna hversu mikið þeir þrá frið.“
„Palestínumenn verða alltaf nágrannar okkar, við virðum þá og við höfum engan áhuga á að ráða yfir þeim,“ sagði Sharon. „Þeir hafa einnig rétt á frelsi,“ bætti hann við.
Leiðtogarnir á fundinum klöppuðu fyrir Sharon þegar hann hafði lokið ræðunni, sem var mun lengri en þær 5 mínútur sem hún átti að vera. Nasser Al-Kidwa, utanríkisráðherra Palestínu, klappaði hins vegar ekki.