Er mjög sammála eftirfarandi. En er hræddur um að stjórnvöld eigi eftir að eyða þessum peningum í einhverja vitleysu eins og ný sendiráð eða spítala.
__________________________________________
http://www.frjalshyggja.is/?gluggi=alyktun&id=57
Nú þegar íslenska ríkið hefur selt hlutabréf sín í Símanum vill Frjálshyggjufélagið benda á að réttast er að nota andvirði sölunnar til að lækka útgjöld ríkisins nú og í framtíðinni.
Upphæð sú sem ríkið hefur nú fengið til ráðstöfunar nemur um fjórðungi heildarskulda þess. Með því að greiða niður þessar skuldir má minnka vaxtagreiðslur umtalsvert og skapa þannig svigrúm til skattalækkana.
Önnur heppileg leið væri að útdeila söluandvirðinu strax til allrar þjóðarinnar með eingreiðslu. Ef söluandvirðinu, ásamt sérstakri greiðslu úr Símanum fyrir einkavæðingu, væri útdeilt til þjóðarinnar, myndi hver manneskja fá um 250 þúsund krónur í sinn hlut.
Að sama skapi leggst Frjálshyggjufélagið gegn öllum hugmyndum um ráðstöfun söluandvirðis Símans sem hafa í för með sér aukin útgjöld ríkisins til frambúðar. Bæði er hætta á því að miklar fjárfestingar nú hafi í för með sér aukinn rekstrarkostnað og að stjórnmálamenn ánetjist því að hafa úr miklum peningum að moða og eigi erfitt með að minnka eyðsluna þegar peningunum hefur verið eytt.