Feðgar dæmdir fyrir árás á níu ára dreng

Feðgar voru í gær dæmdir fyrir að hafa ráðist á níu ára dreng auk þess sem faðirinn var einnig dæmdur fyrir að hafa ráðist á móður drengsins. Faðirinn var dæmdur til að greiða 100.000 krónur í sekt til ríkissjóðs, greiða drengnum 150.000 krónur í miskabætur og móðurinni 75.000 í miskabætur. Ákvörðun um refsingu sonarins er frestað í tvö ár en hann var dæmdur til að greiða stráknum 50.000 krónur í miskabætur. Árásirnar áttu sér stað í desember 1999.

Feðgarnir réðust ekki á drenginn í sama skiptið heldur hafði sonurinn, sem er rúmlega tvítugur, ráðist á strákinn fyrr um daginn. Feðgarnir bjuggu í sama húsi og strákurinn og réðst sonurinn á strákinn á bílaplani nærri heimili þeirra í miðborg Reykajvíkur. Hann sparkaði í drenginn þar sem hann lá á bílaplaninu.

Faðirinn réðst á drenginn inni eftir að lögregla var farin en árásin átti sér stað í stigaganginum þar sem þeir búa. Hann hrinti stráknum og sparkaði í hann. Enn fremur sló hann móður drengsins og skellti henni upp við vegg er hún hugðist koma syni sínum til aðstoðar.

Fór aðalmeðferð í báðum málunum fram samhliða og voru skýrslur aðila og vitna teknar í einu lagi fyrir bæði málin. Fram kemur í dómi héraðsdóms yfir syninum að drengurinn hafi orðið viðkvæmur eftir árásina og að hann hafi verið hræddur um að það yrði aftur ráðist á hann. Í dómnum segir að árásin hafi verið hrottaleg og tilefnislaus.

Í dómnum yfir föðurnum segir að einsýnt þyki að hin síðari árás, vegi þyngra, “enda um endurtekið áreiti að ræða og ákærði fullorðinn maður en almennt eiga börn að geta treyst fullorðnum, þá átti síðara tilvikið sér stað á heimili brotaþola”. Drengurinn gat ekki komið einn heim eftir skóla eða farið einn út úr húsinu eftir árásina. Árásin hafði áhrif á líðan hans í skóla og námsárangur, segir í dómnum.

Feðgarnir voru báðir dæmdir til að greiða sakarkostnað í málunum.
Mbl.is

Ég er orðalaus, hvað er að fólki? tveir fullorðnir menn að ráðast á lítinn strák og móður hans! Það þarf að senda svona fólk í geðrannsókn!!
Just ask yourself: WWCD!