Eftirfarandi er tekið af mbl.is
Hlutafélagið Norðurvegur ehf. var stofnað á Akureyri í dag en tilgangur félagsins er að vinna að því að lagður verði vegur úr Skagafirði um Stórasand, Arnarvatnsheiði og Kaldadal sem stytti umrædda leið um 81 kílómetra. Hlutafé er 11 milljónir króna og hefur stjórn heimild til að hækka það í 15 milljónir. Fram kom að kostnaður við slíkan veg gæti verið 4,4-6,8 milljarðar króna, en ef miðað væri við að 700 bílum yrði ekið eftir veginum daglega gæti stytting leiðarinnar sparað vel á annan milljarð króna á ári.
Fréttamynd 185116
Á kortinu sést hvar gert er ráð fyrir að Norðurvegur muni liggja.
mbl.is/GÓI
Stofnendur félagsins eru KEA sem leggur fram 5 milljónir, Akureyrarbær, 3 milljónir; Hagar, 2 milljónir; Kjarnafæði, hálfa milljón; Gúmmívinnslan, 200 þúsund, og Brauðgerð Kr. Jónssonar, Norðlenska matborðið og Trésmiðjan Börkur með 100 þúsund krónur en að auki hefur Norðurmjólk ákveðið að taka þátt í stofnun félagsins þannig að hluthafar eru þegar orðnir 9 talsins. Í stjórn félagsins voru kjörnir þeir Andri Teitsson formaður og Eiður Gunnlaugsson og Jóhannes Jónsson meðstjórnendur.
Fram kom í ávarpi Halldórs Blöndals, forseta Alþingis, sem lengi hefur hvatt til að slíkur vegur verði lagður, að nú þegar félagið hefði verið stofnað yrði hafist handa við að vinna að því að vegurinn yrði lagður og nefndi hann að bændur frammi í Skagafirði og í Borgarfirði væru jákvæðir í garð hugmyndarinnar. Halldór sagði styttingu vegarins milli Akureyrar og Reykjavíkur geta skipt sköpum varðandi vöxt og viðgang Akureyrar.
Birgir Guðmundsson, umdæmisstjóri Vegagerðarinnar á Akureyri, nefndi í erindi sínu á stofnfundinum að ef miðað væri við að 700 bílum yrði ekið eftir veginum daglega gæti stytting leiðarinnar sparað vel á annan milljarð króna á ári. Fór hann yfir helstu hugmyndir manna um hálendisveg, en fjórar slíkar hafa verið til athugunar og nemur kostnaður við vegagerð frá 4,4 til 6,8 milljörðum króna eftir því hver yrði fyrir valinu. Birgir kynnti einnig þær hugmyndir sem verið hafa í umræðunni varðandi styttingu hringvegarins á þjóðvegi 1 milli Akureyrar og Reykjavíkur, m.a. um Svínavatn, sunnan Blönduóss og að fara sunnan Varmahlíðar í Skagafirði en um yrði að ræða um 19 kílómetra styttingu. Kostnaður er áætlaður 1,4 milljarðar króna en sparnaður við þessa styttingu gæti numið á annan milljarð króna á ári.
Hápunktur leiðarinnar er á Stórasandi, 798 metrar, en um 15 kílómetrar af hálendisveginum yrðu í yfir 700 metra hæð. Til samanburðar má nefna að um Öxnadalsheiði er farið í 540 metra hæð og rúmlega 400 á Holtavörðuheiði.