Leitin að fullnægjandi kenningu sem gerir grein fyrir geðshræringum á sér lengri sögu en nútíma sálfræði. Spurningar eins og hvað þær séu og hvaða hlutverki þær gegni hafa verið í hugum manna allt frá fornöld. Höfundar ,,Cognition and Emotion” hafa tekið saman helstu spurningar sem menn leita svörum við í kenningum um geðshræringar og rakið sögu þeirra kenninga sem varpa ljósi á þessar spurningar. Áður en fjallað verður um hugrænu kenningar nútímasálfræði verður litið á upphaf og þróun tveggja helstu kenningaskólanna um geðshræringar í ljósi þeirra spurninga um geðshræringar sem sálfræðingar þurfa svör við. Að lokum er litið stutt á kenningar Becks og Clark um geðraskanir.
Svokölluð upplifunarkenning (feeling) um geðshræringar er helst kennd við Platon og Descartes. Megin stefið í upplifunarkenningunni er að geðshræringar séu skynjaðar/upplifaðar í hugrænni eða andlegri vídd. Annar mikilvægur kenningaskóli á einnig upphaf sitt að rekja til forngrikkja. Aristóteles er gjarnan litinn á sem upphafsmaður hugræna skólans. Í honum er lögð meiri áhersla á þátt vitsmuna eða mats (appraisal) í upplifun geðshræringa og gjarnan sem orsök líka.

Tveir kenningaskólar um geðshræringar

Aristóteles útlistaði nokkrar tilfinningar eins og ótta og gleða sem hann taldi vera grunntilfinningar. Hann gaf þó engin sérsök rök fyrir því að það væru einmitt þessar eða hvers vegna þær væru aðskiljanlegar. Enda er Aristóteles þekktari fyrir hugmyndir sínar um þátt vitsmuna í upplifun geðshræringa og hvernig ferli þess að upplifa geðshræringar er. Á tímum Aristótelesar voru kappræður og fyrirlestrar áberandi hlutir í menningarlífinu. Það er hugsanlega ástæðan fyrir því að Aristóteles og lærisveinar hans skoðuðu geðshræringar frá sjónarhorni ræðumannsins. Kenning hans er í megindráttum sú að fyrst komi frumáreiti sem svo séu metin vitrænt. Úrvinnslan, ef svo má kalla, felur í sér mat á hvaðan áreitið komi og hvað það þýði. Geðshræring eins og ótti kemur svo í kjölfarið. Dæmi er þegar áhorfendur bregðast við ræðu með lófaklappi (frumáreiti) sem fær ræðumann til þess að hugsa (úrvinnsla) og veldur gleði (geðshræring).
Hvað eru geðshræringar? Aristoteles setur tvö skilyrði fyrir því að ástand geti kallast geðshræring. Það eru líkamleg breyting og þáttur vitsmuna. Þegar Aristoteles svarar þessari spurningu sjáum við notagildishyggju (functionalism) hans skína í gegn því hann segir að annað skilyrði fyrir upplifun geðshræringa sé form. Form fyrir honum þýðir að ástandinu fylgi tilhneiging (propensity) til athafna. Hugfræðingar skiptast í tvo skóla; um sterka hugræna kenningu og veika hugræna kenningu. Sú fyrrnefnda segir að mat hafi líkamlegar breytingar í för með sér og geti þar með verið tilhneiging til athafna, semsagt að það séu orsakatengsl á milli hugsunar, líkamlegra breytinga og athafnar. Sterkari útgáfan á meira fylgi að fagna en sú veikari sem gerir ekki ráð fyrir slíkum orsakatengslum.
Descartes taldi að geðshræringar væru ekki upplifaðar í efnisheiminum heldur í sálarheiminum. Þessi tvískipting Descartes á veruleikanum hefur einkennt hann í sögu heimspekinnar og Descartes því talinn forsprakki tvíhyggju. Ferli upplifunar geðshræringa byrjar með áhrifum umhverfisins á líkamann. Upplifunin sjálf verður í gegnum heilaköngul þar sem hver geðshræring veldur ólíku flæði líkamsvessa um heilaköngul. Heilaköngull er punkturinn í líkamanum þar sem líkami og hugur mætast.
Samkvæmt Platóni eru geðshræringar álitnar vera órökréttar og það markmið mannsins að beisla þær með skynsemi. Þeir sem aðhyllast kenningar Platóns stilla geðshræringum gjarnan upp sem einhvers konar andstæðu skynseminnar. Freud til dæmis hélt því fram að karlar hefðu innbyggðan ótta við föður sinn, samanber ödipusar duld. Freud virðist því vera sama sinnis og þeir sem telja geðshræringar vera órökréttar. Freud hélt jafnframt að geðshræringar gegndu lykilhlutverki í átökum í sálarlífi.
Eitt sem er mikilvægt að vita í sambandi við geðshræringar er hvernig hægt sé að gera greinarmun á því og öðrum tilfinningum til dæmis eins og sársauka. Descartes sem fulltrúi upplifunarkenningarinnar gerir greinarmun á sársauka og geðshræringum eins og ótta, en sársauki er upplifaður í líkamanum en ótti í huganum. Hugræni skólinn telur muninn á geðshræringum og öðrum tilfinningum liggja í hlut vitsmunanna. Skynjun er líkamleg og er ólík geðshræringunum að því leiti að þær síðarnefndu hafa hugrænan þátt. Maður sem er í tjaldferð og finnur að eitthvað strýkur við hendina á honum upplifir ekki geðshræringu eins og ótta fyrr enn það rifjast upp fyrir honum að það séu ógeðfelld skordýr í grenndinni.
Ferli geðshræringa? Samkvæmt hugrænni kenningu leggur einstaklingur mat (appraisal) á aðstæður sem ræður því hvernig maður upplifi aðstæðurnar, hvaða geðshræringar verði upplifaðar.
Hvers vegna upplifum við geðshræringar? Eins og áður kom fram aðhyllist Aristoteles notagildishyggju (functionalism) um geðshræringar. Það þýðir að geðshræringar hafi notagildi vegna þess að þær knýji til verka. Það skiptir til dæmis máli í aðstæðum sem krefjast skjótrar svörunar. Power og Dalgleish telja að geðshræringar skipti einnig máli til þess að fólk tjái sig um líðan sína.
Önnur spurning sem Power og Dalgleish leggja fyrir er hvaða samband sé milli skapgerðar og geðshræringa. Hægt er að gera grein fyrir skapi (moods) einhvers, eða skýra hvers vegna einhver sé talinn reiður með því að segja að viðkomandi hafi tilhneigingu til þess að meta aðstæður með reiði (anger appraisal). Orsök skapgerðarinnar eru skoðanir hans og mat á aðstæðum.
Descartes reyndi að svara spurningunni um fjölda geðshræringa og sambandinu milli þeirra með því að leggja til að sumar væru frumstæðari en aðrar og að flóknari tilfinningar byggi á þeim frumstæðu. Samkvæmt Platoni getum við einnig upplifað fleiri geðsrhæringar í einu, sem gætu meira að segja verið andstæðar hvor annarri.

Hugrænar kenningar í nútímasálfræði

Hugrænar kenningar láta ekki nægja að gera grein fyrir geðshræringum á grunni líkamlegra svarana eingöngu. Skoðanir og úttekt á reynslu eru mikilvægur þáttur. Innan hugrænu kenninganna hafa verið deilur um hvort tilfinning eða hugur komi fyrst í úrvinnslu á skynreynslu. Zajonc telur að maðurinn greini á fyrstu millísekúndunum hvort skynáreitið sé jákvætt eða neikvætt og að tilfinningar komi ekki fyrr enn í kjölfarið á því. Lazarus gagnrýnir Zajonc fyrir viðhorf sitt, en á seinni tímum hafa viðhorf þeirra komist nær því að samræmast því að í grein sem Zajonc birti með Murphy árið (1993) kom fram að hugræn ferli gætu einnig átt sér stað utan meðvitundar. Zajonc heldur þó sinni upphaflegu skoðun um að fyrsta upplifunin (skynjunin) sé tilfinningalegs eðlis og greinir sig frá hugsuninni sem kemur á eftir. Power og Dalgleish eru á þeirri skoðun að hugræn ferli séu alltaf til staðar, jafnvel í upphafi þess ferlis að geðshræringar séu upplifaðar.
Shachter og Singer héldu því fram að geðshræringar fælu í sér hugrænt mat á líkamlegri örvun. (segja frá tilraun?) Mat á örvuninni er undir áhrifum fyrri þekkingar eins og þegar maður með hjartasjúkdóm verður óttasleginn því hann metur meiri virkni vegna líkamlegs álags vera hættuástand. Hugfræðingar hafa á síðari tímum fallið frá þeirri kenningu af ástæðum eins og að í henni felst að hin líkamlega örvun sé hin sama hverju sinni. Eins og Power og Dalgleish hafa bent á hafa rannsóknir sýnt að það sé að minnsta kosti hægt að greina á milli tveggja eða þriggja lífeðlislegrar örvunar samfara geðshræringum. Gott er til dæmis að greina á milli jákvæðra og neikvæðra geðshræringa. Einnig gerir kenning þeirra ráð fyrir frekar litlu hlutverki vitsmunanna. Samkvæmt Shachter og Singer gera þeir ekki meira en að skilgreina aðstæður (endurbætur Mandlers), en nýlegri kenningar gera ráð fyrir stærri hlut mats.
Einar af elstu kenningum um samspil hugsunar og tilfinninga eru netlíkönin. Sögu þeirra má rekja alla leið til Aristótelesar. Í kenningum Freuds koma einnig fyrir netlíkön. Sem dæmi á tilfinningalegt áfall snemma á ævinni að geta tengst við ýmiskonar reynslu sem kemur síðarmeir. Reynslan getur myndað einskonar net þannig að upprunalega áfallsins er minnst þegar hin reynslan er rifjuð upp. Þetta getur verið þó að reynslan tengist áfallinu ekki með neinum beinum hætti. Áhrifamesta kenningin um netlíkön er líklega komin frá Gordon Bower. Samkvæmt kenningu hans eru hugtök, geðshræringar og atburðir eins og hnúðar (nodes) í neti sem tengjast innbyrðis. Hnúðarnir eru mislangt frá hvor öðrum eftir því hvernig þeir tengjast. Til dæmis er einn hnúður fyrir þunglyndi sem virkjar reynslu sem tengist þeirri líðan, ásamt neikvæðum hugsunum og hegðun. Bower sýndi fram á tengsl þessara hnúða til dæmis með því að benda á að það hvernig fólki líður virðist hafa áhrif á hvernig minningar maður getur rifjað upp. Sá sem er niðurdreginn getur ekki rifjað upp jafn margar jákvæðar minningar og annar sem er í góðu skapi. Það er þó ekki jafn mikill munur á milli fjölda neikvæðra minninga ef þunglyndur maður er borinn saman við þann sem er í góðu skapi. Bower skýrir þetta með því að þunglyndið hafi virkjað nálæga hnúða sem lýsir sér í breytingum á hugsun, hegðun og í þessu tilviki minningum.
Eignunarkenning (attributional) Weiner um geðshræringar getur varla flokkast sem netlíkan, heldur gerir hún grein fyrir geðshræringum á grunni þeirra skýringa sem við notum á atburðum.

innri skýringar þar sem einstaklingurinn er orsakavaldur
ytri skýringar þar sem eitthvað utanaðkomandi orsakar og er ekki beint á valdi einstaklingsins.

Hvorutveggja geta verið stöðugar eða óstöðugar skýringar. Þær skiptast einnig í tvo flokka eftir því hvort þær séu undir stjórn viðkomandi eða ekki. Til dæmis væri það dæmi um stöðuga innri skýringu að segja að gengið hafi illa á prófi vegna þess að maður hafi ekki getu til þess að vera í námi. Slík eignun eða skýring er líkleg til þess að leiða til depurðar til dæmis, en reiði ef það væri vegna áfalls í einkalífinu sem setti mann úr skorðum fyrir mikilvægt próf. Það væri dæmi um tilviljunarkennda ytri skýringu. Kenning Weiner átti þó upphaflega ekki að vera kenning um geðshræringar heldur eignun og má þess vegna greina annmarka á henni sem kenning um geðshræringar.
Lazarus er talinn frumkvöðull fyrir kenningu sína um mat við upplifun geðshræringa. Samkvæmt honum gerist mat á atburði í tveimur þrepum. Í því fyrsta er aðeins athugað hvort það sem hafi gerst eigi við mann sjálfan, sé gott, jákvætt eða valdi streitu. Eftir það gerir einstaklingurinn upp við sig hvað sé hægt að gera til þess að vinna úr aðstæðum og hvaða möguleikar séu fyrir hendi. Annað stig byggir á fyrsta stigi og ræður styrkleika geðshræringarinnar. Það að sjá ákveðið skordýr getur valdið mikilli hræðslu og flóttaaðgerðum hjá þeim sem hefur heyrt að þau beri hættulega sjúkdóma, en aðeins vakið forvitni annars sem hefur heyrt að fólk á svæðinu noti kvikindið í matargerð. Lazarus gerði endurbætur á kenningu sinni til þess að hún gerði grein fyrir geðshræringum almennt og miðaðist við meira en streitu eins og hún gerði upphaflega. Því var bætt við að hver geðshræring hefði tengslaþema (relational theme). Samkvæmt því hefur hver geðshræring sérstakt mat á tengslum persónu og umhverfis. Þannig var hægt að setja fram einkenni geðshræringa og greina þær frá hvor annarri. Dæmi:

Stolt: Aukning sjálfmats með því að eigna sér hlut eða afrek sem hefur gildi. En það getur verið komið frá hópi sem við samsömum okkur eða okkur sjálfum.
Ótti: Að mæta óljósri ógn á tilveru okkar (existence)

Fræðimenn hafa bent á einhverja vankanta á kenningu Lazarus. Power og Dalgleish telja að nægjanleg gögn liggi fyrir hendi til þess að álykta að geðshræringar geti verið samsettar úr fleiri en tveimur geðshræringum á yfirlitslista Lazaraus andstætt því sem Lazarus heldur sjálfur fram. Það verði með úrvinnslu sjálfsins og sambandi þess við aðra. Auk þess er sami vandi á greiningu Lazarus og er á mörgum öðrum útlistunum sem þessari. Það er óljóst á hvaða grunni Lazarus hefur greint á milli geðshræringanna. Það má því gagnrýna til dæmis fyrir að skipta geðshræringum eins og kvíða og ótta sem gætu eins verið ein og hin sama.

Umræða um grunntilfinningar:
Spurningin um hvort til séu grunntilfinningar hefur verið áberandi í rannsóknarsviði sálfræðinnar á geðshræringum. Slíkar tilfinningar þurfa að vera algildar hjá öllum mönnum, til dæmis á milli menningarsamfélaga. Þær meiga ekki vera samsettar úr hvor annarri og þurfa að vera aðgreinanlegar með einhverjum aðferðum. Power og Dalgleish kjósa að taka undir með þeim sem hlynntir eru kenningunni um grunntilfinningar. Vegna rannsókna á lífeðlislegum grundvelli tilfinninga, rannsóknum Ekmans á svipbrigðum tengdum geðshræringum á menningarsvæðum víðs vegar, auk athugunar á tungumálanotkun hafa Power og Dalgleish ákveðið að aðhyllast kenningu um fimm grunngeðshræringar:

-Gleði
-Ótti
-Andstyggð
-Reiði
-Sorg

Eðlilegt er á grunni nýrri rannsókna að draga þá ályktun að þessar grunntilfinningar geti blandast og myndað flóknari geðshræringar.

Hugrænar kenningar um tilfinningaraskanir

Beck tilheyrir hugfræðiskóla sálfræðinnar sem gerir ráð fyrir því að skoðanir (beliefs) geti orsakað geðshræringar. Beck segir til dæmis að órökréttar hugmyndir, sem hafi upprunalega myndast vegna fyrri reynslu, geti valdið þunglyndi þegar þær herji á viðkomandi vegna streitu.
Hugrænar kenningar um geðraskanir viðurkenna almennt að atburðir í lífi fólks geti gegnt mikilvægu hlutverki í þróun geðröskunar. Það geta verið ástvinamissir, áföll eða mikil streita til dæmis. Það má því segja að hugrænu kenningarnar byggi almennt á ,,diathesis-stress” líkaninu. Það segir að geðraskanir verði vegna samspils streituþátta og mats.
Aron Beck hefur verið mjög áhrifamikill innan hugrænnar meðferðarsálfræði. Kenning hans byggir á þeirri hugmynd að fólk hafi hugræn skemu. Skemun einkenna hugsun hvers og eins og eru tiltölulega varanleg. Einskonar hugsanakerfi. Skemun eru tilkomin vegna fyrri reynslu, til dæmis samskipta milli barns og foreldra. Ef neikvæð skemu eru virkjuð getur það komið af stað sjálfvirkum hugsunum til dæmis um það hvað viðkomandi sé gagnslaus. Af kenningu Becks leiðir að þeir sem eru þunglyndir hugsi órökrétt en að menn hugsi yfirleitt rökrétt. Power og Dalgleish vilja ekki fullyrða það heldur telja þeir líklegra að viðhorf fólks séu að jafnaði jákvætt skekkt en að þau séu neikvætt skekkt hjá þunglyndum. Þeir byggja afstöðu sína á nýlegum rannsóknum sem hafa verið gerðar.
Hugrænar kenningar um geðraskanir takmarkast ekki bara við þunglyndi. Clark hefur birt kenningu sem gerir grein fyrir kvíðaröskunum. Clark er sammála Beck í því að þeir sem þjást af kvíðaröskunum og þunglyndi eru næmari fyrir vísbendingum um ógn bæði frá umvherfi og frá líkamanum. Samkvæmt Clark getur felmtursröskun komið vegna þess að líkamlegar breytingar samfara áreynslu til dæmis, eru rangtúlkaðar sem einkenni einhvers alvarlegs ástands eins og hjartaáfalls. Viðkomandi getur meira að segja brugðist við með óttaviðbrögðum þrátt fyrir að búið sé að sannfæra hann um að hraður hjartsláttur sem hann finni sé vegna líkamlegrar áreynslu en ekki neitt áfall.



Sæll Jakob!

Þorsteinn hér sem vinnur að leseiningunni um huga og tilfinningar. Ritgerðin mín er að taka á sig mynd. Stundum er ég ekki allskostar ánægður með röklegan þráð og skýrleika í umfjöllun minni en ég vil að hluta til kenna textanum um það. Hann er ekki alltaf eins greiður og aðrar góðar kennslubækur og skilur mann stundum eftir með spurningar.
Í bókinni er mikið fjallað um ,,appraisal” sem hlutverk hugans í upplifun geðshræringa ef ég skil það rétt. Það er í orðabók þýtt mat og ég hef því notað það. Ég er stundum smeykur um að ég sé að setja of mikla vinnu í verkið ef ég met það út frá einingum. Geturðu nokkuð rifjað upp fyrir mér hvað ein eining felur mikla vinnu í sér? Ef ég er kominn mikið út fyrir kvarðann þá datt mér í hug að biðja um að fá að sleppa fjórða kafla eða kannski skrifa með 14 punkta letri í stað 12. Hvernig heldur þú að við ættum að haga því?

Kveðja,

Þorsteinn