Nú veit ég það fullvel að þetta er ekki fyrsta greinin og væntanlega ekki sú síðasta sem fjallar um þetta mál, en læt það engu að síður ekki stöðva mig.
Mig langar endilega til að þið, lesendur, veltið fyrir ykkur eftirfarandi spurningu:
Hafið þið einhvern tímann hlustað á Dani talað saman?
Af hverju spyr ég að þessu? Jú, vegna þess að ef þið hafið verið í ofannefndum aðstæðum og tekið eftir samtalinu, þá ættuð þið að hafa veitt ákveðnu atriði eftirtekt. Það eru enskuslettur.
Að hlusta á samtal á dönsku með enskuslettum er svo mikill brandari að það er bara fáránlegt! Og auðvitað líka á öðrum tungumálum…
Og hvernig haldið þið, kæru Íslendingar af okkar kynslóð sem slettum hvað mest, að við hljómum í augum annarra þjóða þegar við segjum: Þetta var svo crazy mynd og ótrúlega cool að ég var bara actually að blablabla…
Ég sjálf var nú lengi vel ekki barnanna best og sletti í nær hverri setningu, en eftir að hafa heyrt nokkur svona samtöl hef ég næstum því steinhætt því.
Pælið aðeins í þessu hvað þetta er ótrúlega hallærislegt.
Upp með hið ástkæra ylhýra!