Núna er ég alveg búinn að fá nóg af þessum bessevisserum sem þykjast vita allt. Í kjölfar slyssins í hringnum í Vestmannaeyjum hefur umræðan um ólympískt box sprottið upp aftur, nú tvíelfd vegna þess að einhver vesalingur var slegin rothöggi við keppni. Hvar á þetta að enda? Munum við banna feitan mat vegna þess að hinum almenna borgara er ekki treystandi að velja eigin fæði?
Hæstvirtum þingmönnum sýnist ef til vill að þeir verði að hafa vitið fyrir fólkinu í landinu. Fólk sem stundar box veit vel um þá hættu sem íþróttinni fylgir. Það sama gildir um aðrar íþróttir og mörg önnur áhugamál. Einstaklega er þetta eitthvað furðuleg hugsun, að ríkið skuli sjá um allt sem borgara taki sér fyrir höndum. Slík kommúnísk hugsun í kapítalistalandi er ámóta furðuleg og snjóbolti sem valsar um í hraunstreymi.
Og á meðan þingkosnir einstaklingar rífast um löggildi þess að leyfa fólki að berja hvort annað með púðum mun ég áfram styðja rétt einstaklingsins til að reykja úr sér lungun, drekka úr sér lifrina og berja úr sér vitið. Það er MÍN ákvörðun, og ég mun ekki láta ráfandi villisauði sem þurfa að réttlæta fjallhá laun sín á kostnað skattgreiðenda standa í vegi fyrir saurlífi mínu.