Þetta er tekið af www.mbl.is í dag - það eina sem mér dettur í hug í þessu samhengi er “heil Hitler”



Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra, hvetur í viðtali við AP fréttastofuna til þess að Íslendingar komi sér upp eigin varnarsveitum fari svo að Bandaríkjamenn standi við þá ákvörðun að flytja herflugvélar frá Keflavíkurflugvelli. Segir Björn að Íslendingar ættu að stofna 500-1000 manna varnarsveit sem muni síðan sjá um að þjálfa um 21 þúsund manna varalið. Björn hefur áður komið fram með þessar hugmyndir, fyrst árið 1995 þegar hann var menntamálaráðherra.
„Án bandarísks herliðs og án varnarskuldbindinganna í varnarsáttmálanum frá 1951 væri þetta land varnarlaust gegn hverskonar glæpaflokkum, málaliðum eða herflokkum sem kysu að ráðast á eða hernema Ísland,“ sagði Björn við AP.

Þá segir Björn að íslensk stjórnvöld, stjórnmálamenn og almenningur hafi alltaf talið að vinaþjóðir á borð við Bandaríkin muni tryggja öryggi landsins til frambúðar. „Þessu getum við ekki og megum ekki gera ráð fyrir,” segir Björn. „Myndun varnarsveitar … myndi vera ákveðið skref fyrir Íslendinga í átt að þeirri hugsun að varnir landsins séu nauðsynlegar til að tryggja sjálfstæðið.“

Haft er eftir Halldóri Árnasyni, skrifstofustjóra í forsætisráðuneytinu, að ekki séu á döfinni fundir íslenskra og bandarískra embættismanna um þá kröfu Bandaríkjamanna að herflugvélarnar verði fluttar frá Íslandi. „Við vonumst eftir viðunandi niðurstöðu en nú er ekkert nýtt af málinu að frétta,” segir hann.