Frétt í Fréttablaðinu í dag segir að með 170
til 216 milljarða íslenskra króna sé hægt að bjarga 1,7 milljónum HIV-smitaðra í S-Afríku.

Er það ekki svipuð upphæð og 1 forstjóri í stóru merkjafyrirtækjanna eru með í laun á 5 árum eða svo ?

En samkvæmt fréttinni er ekki mikill vilji til að gera þetta.

Hér er fréttin:

HÖFÐABORG, AP Hægt er að bjarga lífi yfir 1,7 milljóna HIV-smitaðra Suður-Afríkumanna fyrir árið 2010 ef ríkisstjórn landsins útvegar þeim alnæmislyf nú þegar, ef marka má nýja skýrslu frá hinu opinbera.

Skýrslan er byggð á rannsókn sem unnin var fyrir heilbrigðisyfirvöld og fjármálaráðuneytið fyrr á þessu ári.
Þó niðurstöðurnar liggi fyrir hafa þær ekki verið gerðar opinberar.
Yfir fimm milljónir Suður-Afríkumanna eru smitaðar af
HIV-veirunni og er áætlað að um 1,8 milljónir barna muni
missa foreldra sína fyrir árið 2010 ef ekkert verður að gert.

Engu að síður hefur ríkisstjórnin hingað til ekki viljað hefja dreifingu alnæmislyfja til smitaðra.

Í skýrslunni kemur fram að hægt væri að bjarga um 1,7 milljónum mannslífa fyrir árið 2010 ef komið yrði til móts við þá sem
þurfa á lyfjagjöf að halda.

Suðurafrísk stjórnvöld segja að skýrslan sé ekki fullunnin og því hafi hún ekki verið gerð opinber.
Samkvæmt skýrslunni mun það kosta sem svarar á bilinu 170 til 216 milljarða íslenskra króna að dreifa alnæmislyfjum fram til
ársins 2010.