Skýrsla rannsóknarnefndar breska heilbrigðisráðuneytisins um umfang ólöglegs líffæranáms úr börnum á breskum sjúkrahúsum hefur vakið mikinn óhug og reiði meðal þingmanna og almennings.
Skýrslan var kynnt á breska þinginu í dag og er óhætt að segja að niðurstöður rannsóknarnefndarinanr séu hræðilegri en nokkurn hafði órað fyrir. Rannsóknin var gríðarlega umfangsmikil og ítarleg og leiddi meðal annars í ljós að yfir 100.000 líffæri, fóstur og vefjasýni voru tekin úr látnum börnum án tilskilinna leyfa frá foreldrum vítt og breitt um Bretland.
Öll líffæri fjarlægð úr 850 börnum
Grófust og tíðust voru brotin á Alder Hey sjúkrahúsinu í Liverpool. Þar voru 1500 fóstur tekin og notuð til vísindarannsókna að foreldrum eða móður fornspurðum, 2000 hjörtu úr andvana fæddum börnum auk þúsunda annarra líffæra. Prófessor Dick van Velzen, sérfræðingur í barnasjúkdómum, sem stundaði meðal annars umfangsmiklar rannsóknir á ungbarnadauða, er helsti sökudólgurinn, en langt í frá sá eini, eins og ítrekað er í skýrslunni og mikil áhersla hefur verið lögð á þá staðreynd í kynningunni á henni.
Öll líffæri tekin úr 850 börnum
Frá því van Velzen tók við prófessorsstöðunni 1988 fram til ársins 1995, lét hann fjarlægja öll líffæri úr öllum börnum sem krufin voru á spítalanum, en þau voru 850 talsins. Hann hafði ekki fyrir því að leita samþykkis foreldranna á þessum aðförum. Þvert á móti laug hann því vísvitandi að foreldrunum, þegar hann skilaði þeim líkum barna sinna að krufningu lokinni, að allt væri á sínum stað. Ýmist laug hann því óbeint, með því einfaldlega að greina ekki frá því sem hann hafði gert, eða hreint út, en fjölmörg dæmi eru um að hann hafi fjarlægt líffæri úr látnum börnum til frekari rannsókna í trássi við óskir foreldra um að það yrði ekki gert.
Van Velzen hefur þegar verið kærður til lögreglu fyrir glæpsamleg afglöp í embætti. Brottnám líffæra úr líkum án upplýsts samþykkis aðstandenda var bannað með lögum í Bretlandi árið 1961, en engin viðurlög eru við broti á þessum lögum. Umfang líffæranámsins og hvernig að því var staðið þykir hins vegar nægt tilefni til að sækja van Velzen til saka. Hann er sá eini sem sérstaklega er ákærður fyrir glæpi sína í skýrslu nefndarinnar. Michael Redfern, formaður rannsóknarnefndarinnar, sagði það ekki hlutverk nefndarinnar að dæma einstaka menn eða ákæra þá fyrir glæpi. Van Velzen væri hins vegar sá eini hinna fjölmörgu sem nefndin hefði rætt við á meðan á rannsókn málsins stóð sem hefði beinlínis viðurkennt að hann hefði brotið af sér í starfi og í raun framið glæp með framferði sínu. Það væri hins vegar lögregluyfirvalda að rannsaka málið frekar, og dómstólanna að komast að niðurstöðu um sekt eða sakleysi einstakra manna.
Alan Milburn heilbrigðisráðherra sagði á þinginu í dag, þegar hann kynnti þingheimi helstu niðurstöður skýrslunnar, að menn yrðu dregnir til ábyrgðar fyrir verk sín og látnir svara til saka. Um van Velzen sagði hann meðal annars að hann hefði logið að foreldrum, logið að öðrum læknum, stolið sjúkraskýrslum, falsað tölfræðiupplýsingar, og hvatt kollega sína til að gera slíkt hið sama.
Bæði Milburn og Redfern lögðu áherslu á að rannsóknir van Velzens á ungbarnadauða hefðu nákvæmlega engum árangri skilað.
Mikill óhugur í fólki
Niðurstöður rannsóknarnefndarinnar hafa vakið mikinn óhug og reiði, jafnt meðal þingmanna sem almennings. Farið er ítarlega ofan í málið í skýrslunni og mörg einstök atriði hafa vakið meiri óhug en önnur. Van Velzen átti til dæmis stórt safn líkamshluta á skrifstofu sinni og rannsóknastofu. Þá hafa heilu höfuðin verið fjarlægð af látnum börnum og geymd í formalíni. Óhugnanlegasta dæmið er líklega höfuðið af ellefu ára gömlum dreng, sem rannsóknarnefndin fann á Alder Hey sjúkrahúsinu. Það var reyndar fjarlægt fyrir tíð van Velzens, seint á sjöunda áratugnum.
Stjórn og yfirmenn á Alder Hey sjúkrahúsinu eru harðlega gagnrýnd í skýrslunni, sem og stjórn og yfirmenn Liverpool-háskóla. Fullyrt er að stjórn háskólans hafi lokað augunum vísvitandi fyrir því sem van Velzen og félagar voru að gera, þrátt fyrir að þeim væri ljóst að það bryti í bága við lög. Sama gilti um stjórn spítalans. Allt hefði þetta verið gert undir því yfirskini að um væri að ræða rannsóknir í þágu læknavísindanna og almannaheilla, og með þá afsökun á bak við eyrað að þetta væri gert alls staðar annars staðar. Þetta er kannski að einhverju leyti skýring á því sem fram fór, en ekki afsökun, sagði formaður nefndarinnar á blaðamannafundi í dag. Fjórir hátt settir embættismenn heilbrigðisþjónustunnar, þar á meðal forstjóri Alder Hey sjúkrahússins, hafa verið reknir úr starfi, formaður stjórnar spítalans hefur sagt af sér og tveir yfirmenn spítalans að auki.
Minnst 100.000 líffæri
Rannsóknarnefndin fann yfir 100.000 líffæri í ýmsu ástandi við misgóð geymsluskilyrði á sjúkrahúsum vítt og breitt um Bretland. Talið er víst að allt að því annar eins fjöldi líffæra hafi verið numinn á brott að auki en hafi ýmist verið eytt eða sé enn ófundinn.
Lögð er áhersla á að þótt læknanemar hafi haft aðgang að stórum hluta þessara líffæra í námi sínu hafi brottnám líffæranna í yfirgnæfandi meirihluta tilfella verið algjörlega tilgangslaust og engum að gagni.
Óttast afleiðingarnar fyrir líffæraflutninga
Skýrsla nefndarinnar hefur vakið nokkrar áhyggjur meðal hjartaskurðlækna og annarra sem stunda líffæraflutninga. Óttast þeir að sú reiði og sá ótti sem nú mun grípa um sig meðal almennings, í kjölfar opinberunar þeirra hryllingssagna sem skýrslan hefur að geyma, geti orðið til þess að erfitt verði að fá fólk til að samþykkja að líffæri verði fjarlægð úr börnum þeirra með löglegum hætti, til að bjarga öðrum sem þurfa á þeim að halda.
Mikil áhersla er því lögð á það að reyna að greina vandlega þarna á milli, en í ljósi sögunnar eru menn svartsýnir á að það takist með fullnægjandi hætti.
Málið rétt að byrja
Þótt van Velzen hafi játað á sig sök þá á enn eftir að rétta yfir honum. Bæði heilbrigðisráðherrann, formaður rannsóknarnefndarinnar og aðrir nefndarmenn hafa bent á að hann sé hins vegar langt í frá sá eini sem brotið hefur af sér. Auk sjúkrahússtjórna víða um landið og annarra lækna sem hafa stundað sömu iðju og van Velzen í gegnum árin, þótt í minna mæli sé, er talið víst að þáttur dánardómara í Liverpool, Bristol og víðar verði rannsakaður ofan í kjölinn. Talið er líklegt að hægt verði að hanka þá fyrir glæpsamlega vanrækslu í starfi, þótt ekki sé annað.
Því hefur þegar verið lýst yfir að allt útlit sé fyrir að saksóknarar hefji rannsókn á hinu ólöglega líffæranámi sem sakamáli, með það fyrir augum að sækja hina seku til saka og draga þá fyrir dóm.
Það getur þó reynst hægara ort en gjört, því sem fyrr segir eru engin viðurlög við því að brjóta lögin um brottnám líffæra úr líkum.
Lagasérfræðingar ríkisstjórnarinnar og saksóknaraembættisins eru hins vegar að kanna til hvaða aðgerða hægt er að grípa til að tryggja að hinir seku verði látnir axla ábyrgð gerða sinna. Verið er að íhuga lagabreytingu sem gerir yfirvöldum kleift að sækja menn til saka fyrir þessi brot og refsa þeim svo undan svíði.
þess skal getið að þetta er tekið af visi.is