Flórídaþing velur kjörmenn meðan enn er beðið eftir úrskurði Hæstaréttar
Þingmenn neðri deildar Flórídaþings hafa samþykkt að 25 kjörmenn ríkisins fari til repúblikanans George W. Bush með 79 atkvæðum gegn 41, þrátt fyrir mótmæli demókrata. Enn er beðið úrskurðar Hæstaréttar Bandaríkjanna varðandi endurtalningu vafaatkvæða í Flórída og er hans að vænta á hverri stundu. Öldungadeild Flórídaþings á þó eftir að staðfesta valið á kjörmönnum ríkisins en hún kemur ekki saman fyrr en á morgun. Repúblikanar eru með meirihluta í báðum deildum þingsins.
Úrskurður Hæstaréttar er þó það sem allt snýst um á þessari stundu og er hans beðið með eftirvæntingu víða um heim. Ef Hæstiréttur segir svo til að handtalning verði stöðvuð með öllu þá er næsta víst að Bush verði 43. forseti Bandaríkjanna. Ef ekki þá á demókratinn Al Gore ennþá möguleika.
Al Gore sækist eftir áframhaldandi handtalningu vafaatkvæða en Hæstiréttur Flórída leyfði handtalninguna sl. föstudag. Hæstiréttur Bandaríkjanna stöðvaði síðan handtalninguna tímabundið á laugardaginn en þar er lokaúrskurðarins í þessu máli nú beðið. Bush er því hins vegar andsnúinn að 40.000 vafaatkvæði í Flórída verið endurtalin.