Ég er sammála. Eitthvað af þessum kærum er uppspuni. Svo eru líka margar sem eiga rétt á sér. Hins vegar er bara svo ofboðslega erfitt að bera sönnur á þessa hluti og dómstólar geta hreinlega ekki sakfellt menn án sannana. Þess vegna eru líka svo fá nauðgunarmál kærð. Af þeim sem koma til Stígamóta kærir ekki nema 10% og ekki nema lítill hluti af gerendum þeirra fórnarlamba er dæmdur. Auðvitað er það ósanngjarnt, en það er líka ósanngjarnt að vera dæmdur fyrir eitthvað sem maður hefur ekki gert.
Nauðganir eru óskaplega algengar hér á landi. Mér hefur sjálfri verið nauðgað og fjórum vinkonum mínum líka. Enginn okkar kærði. ENGIN! Fyrir utan skömmina yfir atvikinu og hræðsluna við gerandann og hversu erfitt var að sætta sig við að þetta hefði gerst og díla við það, þá vissum við það að sannanir voru ekki nægar. Áttum við að koma fyrir dómstóla og segja frá mjög neyðarlegu atviki þar sem var ráðist á miklu meira en bara líkama okkar, til þess eins að vera stimplaðar lygarar og horfa á gerendurna sleppa. Það væri eins og að vera nauðgað alveg upp á nýtt. Þá er betra að lifa í skömminni ein og reyna að koma sér upp úr þessu. Og segjum sem svo að viðkomandi sé dæmdur sekur. Þá er hann kannski bara dæmdur í 3ja mánaða skilorðsbundinn dóm, sem þýðir það að hann getur haldið þessu áfram eins og ekkert hafi í skorist, fyrir utan þessa þrjá mánuði þar sem hann er á skilorði og ekki einu sinni í fangelsi. Þær stúlkur eiga kannski von á því að rekast á þennan mann “næstu helgi” eða eitthvað.
Þú spyrð hvort við séum viss um að allir þeir sem eru ásakaðir um kynferðisafbrot séu sekir. Nei, ég get ekki sagt að ég sé viss um það. En ég get sagt þér að ég VEIT að miklu, miklu, miklu fleiri en þeir sem nokkurn tíma eru ákærðir sleppa frjálsir og fríir án nokkurrar kæru og halda áfram að misnota fleiri fórnarlömb. Ég kalla þær stelpur sem actually þora að ganga í gegnum þetta kæruvesen og ruglaða réttarkerfi HETJUR og mér finnst að fremur ætti að hvetja fólk sem í þessu hefur lent til að kæra í stað þess að vorkenna gerendunum sem, þó oft fáist ekki sannanir fyrir verknaðinum, eru sekir. Nauðgun er ekki eins og venjulegir glæpir. Hún þarf að vera nokkuð hrottaleg til að hægt sé að sanna hana. “Nei, hún var ekki með nógu mikla áverka til þess að hægt væri að sanna það að hann hefði neitt hana til kynferðismaka, hún gæti allt eins hafa viljað það og svo séð eftir því”. Þetta eru oftar en ekki skilaboðin sem fórnarlömb fá. Minn gerandi tók sér góðan tíma í að binda mig, hóta mér og margt fleira en það voru ekki nægar sannanir til að nokkurn tíma hefði verið hægt að sakfella þann mann.
Þetta er ekki jafn einfalt og þú heldur fram. Ég er ekki að segja að ekki séu svartir sauðir inni á milli. En sannleikurinn er bara sá að þær kærur sem þó koma fram (og ekki einu sinni allar þeirra ná að koma fyrir dómstóla) eru varla toppurinn á ísjakanum af þeim nauðgunum sem raunverulega hafa gerst. Og þá erum við bara að tala um þau fórnarlömb sem leita til Stígamóta. Hugsaðu þér öll fórnarlömbin sem gera það EKKI!!! Ég var sú eina okkar stelpnanna sem gerði það og ég gerði það ekki fyrr en ári seinna. Ef hlutföllin eru svipuð i þjóðfélaginu getum við gert ráð fyrir að ekki nema fjórðungur fórnarlamba leiti til Stígamóta, 10% af þeim kæra og álíka mörg prósent þeirra leiða til sakfellingar. Reiknaðu svo og finndu út hversu margir nauðgarar ganga lausir í þjóðfélaginu án þess að nokkur geri neitt.