Dóttir vinkonu mömmu minnar gerði sér það til gamans að skreppa í bíó á föstudagskvöldið. Hún lagði bílnum sínum fyrir utan Háskólabíó rétt fyrir kl. 10 og fór síðan inn. Myndin var síðan búin rétt um 12 leytið og fór hún því líkt og allir aðrir gestirnir út úr salnum og út í bílana.

Nema hvað, þegar hún kemur að bílnum er búið að brjótast inn í hann og geislaspilarinn og hátalararnir horfnir. Þetta er kannski ekki frásögum færandi nema hvað að það hafði verið brotist inn í 6 bíla í viðbót. Alls voru bílarnir því sjö talsins. Hún hringdi á lögregluna, en fékk þau svör frá lögreglunni að því miður væru allir lögreglubílar uppteknir og hún þyrfti því að bíða, eða þá taka mynd af vettvangi og kæra daginn eftir. Hún ákvað að bíða, en klukkan 2 gafst hún upp á biðinni og fór heim.

Mig minnir glögglega að hafa lesið á mbl.is að lögreglan í Reykjavík hafi frá 23:30-2:00 á föstudagskvöldinu stöðvað hvorki fleiri né færri en 700 bíla í umferðareftirliti og til að dreifa forvarnarbæklingum um ölvunarakstur.

Finnst ykkur það ekki ótrúlegt að eigendur yfir 7 bíla hafi lent í því að brotist var inn í þá en þau gátu ekki fengið lögregluaðstoð vegna þess að allt tiltækt lögreglulið var að angra ökumenn um alla borgina með “niðurlægjandi” sírenublikki og tilheyrandi látum og vesen???

Segið endilega hvað ykkur finnst…

Kveðja,
Nonni