Var að lesa á vísi.is. Þar kemur fram að gagnrýni Sigursteins Mássonar, formanns Geðhjálpar, á starfsemi frjálsra trúsafnaða hafi vakið sterk viðbrögð.
Þeir hjá kristilegu sjónvarpsstöðinni Omega segja hann “útsendara hins illa” og Gunnar Þorsteinsson hjá Krossinum sakar Sigurstein um lygar og hatur í garð kristinna vegna “annarlegrar kynhegðan” sinnar.

Sigursteinn blandaði sér í fjölmiðlaumræðuna þegar í ljós kom að þingmenn höfðu fengið til sín fólk sem hafði skrifað undir samninga, m.a. við þá hjá Omega, um að greiða x marga þúsundkalla á mánuði og var komið í veruleg peningavandræði. Margir borga tíund og einhverjir miklu meira en það til sinna safnaða sem er nú bara slatti þegar um er að ræða öryrkja með kannski 70 þús. kall á mánuði. Svo kemur að því að fólk á í erfiðleikum við að standa við greiðslu þessara útgjalda og hvað gera söfnuðirnir þá?
Ég var nú að vinna í geðgeiranum og veit að það er sérlega auðvelt að fá fólk sem ekki er heilt á geði í söfnuðina, því þeim sem líður illa reyna að finna tilganginn og eru þá tilbúnir að leggja peninga í svona söfnuði.
Nú skal ég ekki mótmæla hinum kristnu gildum sem er fín en því miður hafa margir sem ekki hafa verið alveg heilir á sálinni orðið alvarlega brotnir á henni eftir svona safnaðastarf. Sérstaklega þegar fólki er sagt að guð lækni öll mein og fólk þurfi ekki að taka nein lyf- bara biðja.
Það kann nú ekki góðri lukku að stýra – ég þekki sjálfur svona dæmi -.

Það er alkunna að þeir sem eiga í vandræðum leita gjarna í trúarhópa og oft er það bara fínt, en þegar fólk með geðraskanir á hlut þarf að fara varlega, eins og Sigursteinn bendir á. Eitthvað leggjast menn í vörn eins og kemur fram á heimasíðu Gunnars;
“Menn eru að reyna að berja á öllu sem heitir kristinn dómur og rakka í svaðið það sem okkur er heilagt. Maður kemst ekki hjá því að spyrja sjálfan sig þeirrar spurningar hvort haturshugur þeirra sem búa við annarlega kynhegðan, sem við viljum ekki blessa, kunni að búa hér að baki. Það er a.m.k. dagljóst að menn eru ekki að leita sannleikans af sanngirni.” Gunnar ætti kannski að mannast til að taka til í sínum eigin garði áður en hann ætlar að hreinsa til hjá öðrum – ha?

Mér finnst svona athugasemdir benda til þess að einhverjir hafi ekki hreint mjöl í sínu pokahorni. En ykkur?

-gong-