Ég vil að þetta verði það síðast sem þið lesið áður en þið
standið upp frá tölvunni og pælið í því hvað þið getið gert til að
koma í veg fyrir árás á Írak eða að minnsta kosti sýna fram á
að hún er ekki gerð í ykkar nafni.
Írak er langt frá okkur, Bandaríkin líka, hvernig kemur þetta
okkur við? Er þetta okkar mál, friðsamra borgara?
Í fyrsta lagi er grunnsiðferði það að láta sig velferð annarra
sig varða, hversu langt í burtu sem þeir kunna að vera;
heimurinn er ekki svo stór. Í öðru lagi gerði Davíð Oddsson
Íraksmálið að okkar máli í dag þegar hann gerði öllum
algjörlega ljóst að Bandaríkjamenn mættu nota Ísland eins og
þeir vildu við að millilenda flugvélum, flytja hergögn og
hermenn sem síðan drepa litla krakka með því að ýta á takka.
Við öðru var ekki að búast þar sem Bandaríkjamenn hafa
nauðgað Íslandi í mörg ár með herstöð og áróðri í
kvikmyndum, sjónvarpi og fréttaflutningi öllum. Ekki hefur
heldur lág siðferðiskennd hins ágæta forsætisráðherra okkar
farið hækkandi síðan hann jók á mannréttindabrot með því að
meina Falun Gong (yndislegu, friðsömu fólki) að koma inn í
landið á sínum tíma og gerði síðan lítið úr lýðræðinu með
skítkasti á friðsama mótmælendur.
Finnst ykkur þetta óréttlátt? Bíðið bara. Síðan
viðskiptabannið var sett á Írak höfum við lagt hönd á plóg við
að drepa um 10.000 lítil börn og aðra borgara Írak úr hungri
(tölur sem Madelaine Albright sagði „þess virði"). Hins vegar
hef ég ekki séð merki þess að Saddam Hussein hröklist frá
völdum vegna hungurs enda í góðu yfirlæti í 8 höllum. Við
getum sem sagt verið sammála um að þar séu
Bandaríkjamenn að gera stór mistök. Árás verður 1000
sinnum verri og það er ALGJÖR HEIMSKA að halda að hún
eigi ekki eftir að teygja áhrif sín til Íslands, til ykkar.
Bandaríkjamenn eru eina þjóðin sem hefur beitt
kjarnorkuvopnum gegn annarri þjóð og á núna nóg til að gera
Ísland að sandi í sjónum og meira til. Írak á KANNSKI
kjarnorkuvopn, mun færri ef einhver og hafa aldrei beitt þeim
né hótað því. Dæmið þið nú um hvora þjóðina ætti að afvopna.
Auðvitað ætti að afvopna allan heiminn, en það gerist ekki
fyrir framan tölvuna svo standið upp og takið frumkvæði.
Sendið mér póst á finnursamur@hotmail.com ef þið hafið
áhuga á að fylgjast með fjöldamótmælum og öðrum
atburðum.

Fylgist með!
F. Trotteville