“Ef það væri ekki fyrir Ómar Ragnarsson sem er einn versti fréttamaður landsins þá væri öllum sama.” - Ég svara með sama bragði: Vert þú ekki að blanda “öllum” við þitt álit.
Auðvitað er þetta bara mitt álit, ég veit það fullvel. Rétt eins og það er bara þitt álit að vera sama, og þú hefur fullan rétt á því áliti. Í nýlegri könnun kemur fram að 60% þjóðarinnar er hlynnt stofnunar þjóðgarðs norðan Vatnajökuls. Þess vegna talaði ég um álit almennings. Mér finnst einfaldlega lélegt af stjórnvöldum að ákveða svona án þess að þjóðin sé spurð álits og þrátt fyrir að skipulagsstofnun hafi lagst gegn þessum framkvæmdum.
Álpappír… Þessi virkjun verður ekki byggð nema álver verði byggt þannig að mótmæli gegn álveri og virkjun haldast í hendur.
Þú segir að við þurfum peninga… er það virkilega? Höfum við það svo slæmt? Það er ekki mikið atvinnuleysi á íslandi og fyrirhugaðar framkvæmdir eru frekar líklegar til að valda óþarfa spennu á atvinnumarkaði (sjá:
http://www.natturuverndarsamtok.is/news.asp?ID=62 ). Það á að byggja þetta álver til að forða bruttfluttningi frá Austfjörðunum, en af hverju þetta? Af hverju ekki að stokka upp í kvótakerfinu? Eða leggja pening í að efla tæknifyrirtæki á þessu svæði? Hvert fer svo gróðinn af þessu álveri? Álverið er í eigu bandaríkjamanna.. hirða þeir ekki gróðann? Þetta skapar að vísu störf en heldur þú að fólkið þarna fyrir austan vilji eitthvað vinna í álveri… það vill það enginn nema honum bjóðist ekkert annað. Austfirðingum hefur ekki verið boðið neitt annað. Ég held því fram að það verði erfitt að fá starfsfólk í fyrirhugað álver, og ýmsir austfirðingar sem ég þekki eru á sama máli. Ég er ættaður að austan en mér finnst í sannleika sagt ekki þess virði að fara út í þessar framkvæmdir til að forða fólksflutningum þaðan. Einnig má benda á það að Reyðarfjörður er einn lygnasti staður á landinu og því ekki hentug staðsetning fyrir álver. Það þarf ekki nema nokkra daga logn til að mengunin frá álveri verði óbærileg. Er það ástæðan fyrir því að fólk býr við lygnan fjörð?
En að virkjuninni sjálfri… hér eru nokkur neikvæð áhrif hennar:
-Hreint og ómengað land og ósnortin náttúra er og á að vera ímynd Íslands. Virkjunin hefur mjög neikvæð áhrif á ferðamannaiðnað á svæðinu. Þarna hefur verið byggt upp öflugt starf og er grundvöllur fyrir mun meira starfi í framtíðinni.
-Sjónræn mengun verður gífurleg. 190 metra há stífla og 57 ferkílómetra uppistöðulón, vegir og námur blasa við öllum sem koma á svæðið í stað fallegs landslags, gróðurs og fossa. Rennsli minnkar í ám, Dimmugljúfur þorna upp o.s.frv. Víðerni skerðast um 925 ferkílómetra. Það vilja fáir ferðamenn sjá risavaxna stíflu.
-Tugir fossa og vatnsfalla eyðileggjast eða skerðast.
-Fornminjar og merkar jarðfræðilegar myndanir fara undir vatn.
-Beitiland hreindýra og varpstöðvar heiðargæsa skerðast mikið. Einnig mun áhrifa gæta við ósa jökulsár þar sem aðstæður fyrir seli verða lakari en áður. Skilyrði fyrir vatnalíf í Lagarfljóti versna og skerðast mikið í Folavatni.
-Mikið sandfok og rof sem er þegar stórt vandamál á hálendinu. Gróður mun skaðast.
-Aurframburður hverfur, ströndin hopar um 200 metra á 100 árum.
-Friðlandið Kringilsárrani skerðist um fjórðung.
-Þjóðarskuldir aukast um 10-12% við lok framkæmda og verðbólga um 2%
-Mikilvægast er þó að umhverfisspjöll þessi eru óafturkræf!
-Uppistöðulónið mun að lokum fyllast af aurframburði Jökulsár á Dal og þá verður virkjunin ónothæf. Þannig uppfyllir ekki virkjunin skilyrði um sjálfbæra nýtingu. Gróðinn (ef einhver) verður aðeins til skamms tíma og komandi kynslóðir græða ekkert á þessu nema margra ferkílómetra drullusvað á hálendinu þar sem áður var fallegt landslag, fossar og gróður. Komandi kynslóðir eiga betra skilið.
Hvað með peningalegu hliðina á þessu. Landsvirkjun hefur ekki enn fengist til að svara útreikningum sem gerðir voru af sérfræðingum og sýna fram á að orkuverð til álversins þarf að hækka um helming frá því sem venjulegt er til þess að virkjunin skili sér á núlli eftir 50 ár. Annars verður þetta í tapi. Þeir hafa ekki getað komið með nein rök á móti þessum útreikningum. Hvað á að gera.. nú auðvitað niðurgreiða rafmagnið til álversins til þess að þeir vilji byggja hérna.. og á hverjum lendir það? Skattgreiðendum!
Hvað annað getum við gert? Eins og ég sagði áður þá finnst mér frekar að það ætti að taka þessa gífurlegu fjármuni sem í þetta eiga að fara og nota í aðra uppbyggingu, stokka upp í kvótakerfinu, styrkja tæknifyrirtæki o.s.frv. Ég held að við þurfum ekkert álver. En ef menn vilja endilega byggja álver og það strax finnst mér í alvöru að það ætti jafnvel að skoða aðrar orkulausnir eins og að kaupa eða leigja kjarnorkukafbát frá rússum og nota hann sem fljótandi orkuver fyrir þetta í nokkur ár þangað til betri kostir bjóðast s.s. samrunaver.
Ég hef ekkert á móti framförum! Hef ekkert á móti Decode… það eru mörg fyrirtæki og aðilar sem eru að gera góða hluti. En ég er á móti skammsýni og heimskulegum ákvörðunum og að menn skuli ekki bera meiri virðingu fyrir náttúrunni en raun ber vitni!