Ég er einn þeirra sem tel það vera fráleitt að Utanríkisráðuneytið skuli ætla að koma sér upp sendiráðsbyggingu í Japan fyrir 800 milljónir króna. Mér skilst að þegar Utanríkisráðuneytið ákvað að stofna sendiráð í Kína, nánar tiltekið í Peking, þá hafi sú röksemd verið notuð að hægt væri að samnýta það sendiráð vegna utanríkisþjónustu í Japan. Hvað varð um þá röksemd? Af hverju þurfum við sífellt að þola það að ráðamenn þessarar þjóðar sólundi skattpeningum að geðþótta? Er ekki full þörf á þessum peningum hér innanlands? Hvað með náttúrufræðahúsið í Vatnsmýrinni, væri ekki nær að nota þessa peninga til að klára það? Hvað með mislæg gatnamót á Kringlumýrarbraut/Miklabraut ? Þegar talsmaður Utanríkisráðuneytisins var spurður um þennan fyrirhugaða kostnað við sendiráðsbyggingu í Japan, svaraði hann bara “Húsnæði í Tókíó er bara svona dýrt”! Ég segi nú bara að einmitt þess vegna á ekki að fara útí að kaupa það.
Það er einnig spurning hvers vegna þurfa Íslendingar að halda úti sendiráði í Japan? Eru það viðskiptahagsmunir okkar Íslendinga sem á að tryggja? Á að gera átak í að kynna Japönum íslenska menningu? Hversu margir Íslendingar eru búsettir í Japan? Ég hef heyrt að það séu um 30 til 40, getur Utanríkisráðuneytið staðfest þá tölu eða þarf að kaupa byggingu uppá 800.000.000,- kr. til að nota undir talninguna? Ég krefst þess að Utanríkisráðuneytið opinberi þær röksemdir sem liggja til grundvallar þessari ákvörðun því ef sendiráðinu er bara ætlað að halda hanastél þá segi ég nei takk.