Halló kæru hugarar :)
Nú er ég snúinn aftur í nám eftir 3ja ára hlé, ætla ég mér að klára stúdentsprófið.
Velti ég því fyrir mér stöðu námsmanna, þar sem 1 af 3 hröklast úr námi vegna ýmissa ástæðna, aðallega fjárhagsástæðna.
Maður eins og ég sem er orðinn 22 ára gamall getur nú varla lifað á foreldrum sínum. Síðan ég “hröklaðist” úr námi þá hef ég verið að vinna, hef ég fengið mín laun mánaðarlega og séð um mig sjálfan, fætt og klætt mig.
En já, nú er skólinn hafinn, er hann að mínu mati full vinna. Tíminn minn leyfir ekki meira, ég er í skólanum frá 08:10 til 16:00, eftir skóla fer ég í líkamsrækt og er ekki kominn heim til mín fyrr en um 18:00. Tekur þá við kvöldmatur, og heimalærdómurinn sem er mikill flest kvöld. Er ég búinn að ganga frá flestöllum mínum málum um 22 leytið og þá fer ég að huga að svefni.
Ekki bættist fjárhagur minn þegar ég þurfti að kaupa bækur fyrir á annan tug þúsunda krónna og kaup á grafískri reiknivél á um 10þús krónur. Þar fyrir utan eru skólagjöldin sem eru um 10þús. Já, samtals um 40þús krónur kostaði þessi munaður.
Nú er ég ekki að segja að aðstæður mínar séu slæmar, ég hef það alveg ágætt. En þegar ég er ekki að vinna þá finn ég virkilega fyrir því að gengið sé á budduna mína. Maður þarf jú að brauðfæða sig. Ekki hjálpar LÍN, þeir lána ekki þeim sem eru á bóknámsbraut til stúdentsprófs (eða hvað?), svo ómerkilegt er nám mitt, a.m.k. skildi ég lögin þeirra svo.
Í löndunum í kringum okkur, sem við berum okkur svo gjarnan saman við, sérstaklega þá í danmörku, fær námsfólk svokallaðan S.U. ríkisstyrk (um 30þús á mánuði). Þar að auki eru engin skólagjöld og allar námsbækur ókeypis. Í svíþjóð fær námsfólk miklar upphæðir mánaðarlega.
Velti ég því fyrir mér hvort það komi ráðamönnum þessarar þjóðar eitthvað á óvart að námsfólk hröklist í stórum stíl úr námi hér? Sérstaklega þegar við berum okkur saman við lönd eins og þessi.
Ríkisútgjöld til menntamála hér á landi er um 5,4% af þjóðarframleiðslu, en öll hin fjögur norðurlöndin (svíþjóð, danmörk, finnland og noregur) eru langt yfir 7%, þar af eru svíþjóð og danmörk með yfir 8%!!
Ég hef reiknað það út að um 30þús styrkur á mánuði til um 10þús framhaldsskólanema kosti ríkið um 1,2 milljarða á hverja önn (4 mán), eða um 2,4 milljarða á ári.
Ég veit ekki hver fjárlög íslenska ríkisins eru til menntamála, en ég þori að veðja að þessi prósentutala (5,4%) eigi eftir að hækka mikið af svona styrktarkerfi yrði komið á. A.m.k. myndu 30þús kr. á mánuði gera margt fyrir mig.
ÞETTA ER EKKI NÖLDURS-GREIN, ÉG ER EKKI AÐ VÆLA. Staðan mín er alveg ágæt. Þeir sem eru ekki sammála mér geta snúið sér eitthvað annað :) Eða sleppt a.m.k. ummælum um aumingjaskap að geta ekki unnið með skóla.