Athyglisverðar umræður!
Ég hef einmitt verið að velta fyrir mér dauðarefsingum, allt frá því að hann Timothy McVeigh var tekinn af lífi hérna um árið. Ég sjálf hef alltaf verið harðlega á móti hvers konar dauðarefsingum af mannúðarástæðum, og hef alltaf litið á þær sem morð ofan á morð. Ég viðurkenni hinsvegar að stundum eru framdir glæpir bæði hérlendis og erlendis, sem verða til þess að maður spyr sig (eins og þessar hrottalegu nauðganir t.d.)… Þannig að stundum hreinlega veit maður ekki hvað manni á að finnast…?
En hvað um það. Það er eitt sem hefur brunnið svolítið á mér varðandi þetta efni, og það er munurinn á hinum ýmsu menningarsamfélögum. Sjáið til, í Evrópu (þar á meðal Íslandi) og öllum hinum vestræna heimi (nema USA, kem að því síðar)eru dauðarefsingar eitthvað sem tilheyrir fortíðinni (síðasta dauðarefsing hér á Íslandi var framkvæmd árið 1830 þegar Agnes og Friðrik voru hálshöggvin), og fyrir okkur er þetta eitthvað sem siðmenntaðar þjóðir, sem vilja hafa mannréttindi að leiðarljósi, hreinlega gera ekki! En síðan í Bandaríkjunum eru dauðarefsingar til staðar, og það er litið á þær sem góðar, réttlátar og nauðsynlegar. Og Bandaríkin eru eina vestræna ríkið sem iðkar enn dauðarefsingar! Hmmmm… Já, og í þriðja heiminum eru dauðarefsingar enn framkvæmdar, en nú er ég fyrst og fremst að ræða um hinn vestræna heim.
En nú hef ég svolítið verið að velta Bandaríkjunum fyrir mér. Ég á eina netvinkonu í Cleveland í Ohio, sem ég spjalla stundum við gegnum Yahoogrúppu sem við erum í (ásamt fleirum, þetta er svona netsaumaklúbbur, he he), og einn daginn bar dauðarefsingar á góma. Mary (svo heitir hún) er alfarið með dauðarefsingum og ég á móti, þannig að þetta urðu svolítið heitar umræður. Mary finnst alveg út í hött að halda morðingjum í fínum fangelsum á kostnað skattgreiðenda (ég get sosum verið sammála því); frekar bara taka þá af lífi! Ég fann að það var mikil reiði í henni, sem er skiljanlegt því hún hefur átt vini sem hefur verið nauðgað og síðan myrtir. Ég ætla ekki að fara út í smáatriði um það hvað við ræddum um, en við ákváðum bara að vera sammála um það að vera ósammála. :)
En það sem ég fékk á tilfinninguna eftir þessar umræður, var það að Bandaríkjamenn virðast ekki alltaf sjá út fyrir sinn eigin hlaðvarpa í þessum málum. Sjáið til, þeir segja: “Já, ég er algjörlega hlynntur dauðarefsingum, þannig framfylgjum við réttlætinu”. En þeir átta sig ekki á því að restin af hinum vestræna heimi hefur fyrir löngu aflagt dauðarefsingar! Af hverju ættu Bandaríkjamenn eitthvað frekar að halda í dauðarefsingarnar? Eru glæpir í Bandaríkjunum eitthvað grófari en t.d. í Evrópu??? - Hey, bíðið við… jú, þeir ERU það reyndar!!! Þá spyr maður sig, af hverju??? Hvað er að í bandarísku þjóðfélagi, sem veldur því að þar eru framdir svo hræðilegir glæpir, að það er talin ástæða til að taka menn af lífi fyrir þá? Er ekki nærri lagi að líta á það sem er að í þjóðfélaginu og lagfæra það? Spyr sá sem ekki veit…
Annars eru glæpir í Evrópu líka að versna stöðugt, eins og dæmin með nauðganirnar & morðin hér, svo og morðin á stelpunum tveimur í Bretlandi sanna. Heimurinn virðist greinilega vera að fara fjandans til…
En eru dauðarefsingar lausnin? Nú er það svo að í Bandaríkjunum er farið að hreinlega svæfa menn með sprautu eins og hverja aðra ketti. Það er eins og það sé litið á þá eins og hver önnur meindýr. En eru þetta ekki menn? Áttu þeir ekki við einhver vandamál að stríða, sem ollu því að þeir fóru yfir á veg glæpanna? Er lausnin bara að útrýma öllum sem fremja morð? Er það ekki líka morð? (Hvenær drepur maður mann og hvenær drepur maður ekki mann…) Svo hef ég nú heyrt e-s staðar að dauðarefsingar dragi alls ekki úr glæpum nema síður sé… Og ég held að dauðarefsingar séu tæpast framkvæmdar í Bandaríkjunum út af e-i “guðdómlegri réttlætiskennd”, fremur af illri nauðsyn (ég meina, hvað eiga þeir að gera við alla morðingjana???)
En í sambandi við refsingar hér á landi, þá eru þær skammarlega vægar! 16 vesæl ár fyrir morð, og 3 enn vesælli ár fyrir nauðgun! Heh… Mér finnst að það eigi að vera lágmark 30 ár fyrir morð og 10 ár fyrir nauðgun. :(
Peace…