Tröll.

Þetta eru ýmist goðsagnaverur sem koma stundum til mannheima til að brjóta allt og bramla (eða stela fólki), eða fólk sem dundar sér við það að kíkja á spjallþæði (eins og huga.is) og hleypa öllu í bál og brand.

Maður hefði haldið að eitthvað hefði lærst á öllu þessu peace4all kjaftæði. Að maður hefði lært að stilla sig um að svara þegar augljóst var orðið að maðurinn var aðeins að gera að gamni sínu.

En svo var ekki. Fleiri hafa leikið þennan leik (og hver var aftur fyrstur á Huga til að gera þetta? Kallaði hann sig ekki Vilmar eða eitthvað álíka?), og aftur fellur maður í þá gildru að svara og svara og svara. Oftar en ekki lendir maður í því að endurtaka sig, þar sem að menn eru bara að gera að gamni sínu og sjá því enga sérstaka ástæðu til að lesa svörin. Þetta er ekkert nema tímasóun.

Fyrst er þetta svo sem ágætt. Það kemur einhver með fáránlegar fullyrðingar, algerlega út í bláinn. Fyrst í stað hugsar maður með sér ‘Gí dádda mæja!’ og tekur svo til við að svara. Það er svo sem gott og blessað - mikið væri Hugi leiðinlegur ef menn svöruðu aldrei neinu. En síðan fær maður svör sem eru alveg út í bláinn - jafn langt út úr heiminum og upphaflega fullyrðingin. Fyrst í stað hugsar maður aftur ‘Gí-dádda mæja’ og heldur þessu áfram. Það hvarflar jafnvel ekki að manni að manninum sé eitthvað annað en full alvara með því sem hann segir (ég segi mína meiningu en er ekki að bulla eitthvað til þess eins að hissa fólk upp - og sé enga ástæðu til að ætla annað en að a.m.k. 97% huganotenda geri það líka). Og jafnvel þótt fólk taki engum rökum eða neinu slíku, þá skiptir það engu máli. Rasistar og heitttrúað/ofsatrúað/bókstafstrúað fólk tekur heldur engum rökum og er sannfært um réttmæti síns málstaðar.

En, eins og allir vita, þá eru tröll ekki raunveruleg, og ekki risar heldur. Þeir sem eyða öllum sínum tíma í að berjast við tröll eru bara eins og Don Kíkóti að berjast við vindmyllur. Fyrr eða síðar verður maður sjálfum sér til skammar (hvað þætti ykkur annars um mann sem dveldi vikum saman uppi á hálendi að berja tröll og þættist mikill maður fyrir vikið - mynduð þið lofa hann fyrir hugrekki eða lasta hann fyrir fávitaskap?). Annars vegar verður maður sjálfum sér til skammar og háðungar vegna þess að maður var ginntur út í svona vitleysu til að byrja með, hins vegar vegna þess að maður áttaði sig ekki fyrr á stöðunni.
All we need is just a little patience.