Skipum Landhelgisgæzlunnar fækkað í tvö
Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum hyggjast stjórnvöld nú leggja einu af þremur varðskipum þjóðarinnar í sparnaðarskyni. Er þetta gert þrátt fyrir að ljóst þyki að tvö varðskip sé engan veginn nægur skipakostur til að verja landhelgi Íslands sem spannar 758 þúsund ferkílómetra eða sem nemur sjöföldu Íslandi sjálfu að flatarmáli.

Ásókn erlendra skipa í lögsöguna mun hafa aukist mjög með árunum og þörfin fyrir eflda gæzlu landhelginnar eykst því stöðugt. Einnig ber að hafa í huga það stóra hlutverk sem varðskipin skipa í öryggisneti landsins, en með skerðingu á skipastóli Gæzlunnar mun öryggi íslenzkra sjófarenda skerðast mjög. Hér er því ljóslega um að ræða mikla afturför fyrir öryggi Íslands og íslenzku þjóðarinnar.

Lengi hafa stjórnvöld viðrað hugmyndir um að byggja nýtt öflugt varðskip, enda þau sem fyrir eru öll komin vel til ára sinna þó þau standi enn fyrir sínu og vel það. Af því hefur hins vegar ekki orðið enn og hafa stjórnvöld lengi vel gert meira af því að skera Landhelgisgæzluna niður en byggja hana upp. Eru íslenzk stjórnvöld sennilega þau einu í Vestur-Evrópu sem eru að skera landhelgisgæzlu sína niður en öll önnur nágrannaríki okkar munu meira eða minna vera að efla sínar gæzlur, t.a.m. Danir, Færeyngar, Bretar, Spánverjar, Norðmenn o.s.frv. Engin af þessum þjóðum byggja efnahagslíf sitt þó eins mikið á sjávarútvegi og við Íslendingar.

Stefna Flokks framfarasinna

Af þessu tilefni er við hæfi að nefna það helzta af því sem Flokkur framfarasinna vill gera í málefnum Landhelgisgæzlunnar. Eitt af fjórum höfuðmálefnum flokksins eru öryggismál þjóðarinnar og vill flokkurinn efla löggæzlu og öryggi borgaranna í hvívetna og og þá ekki hvað sízt innan landhelginnar.

Að mati flokksins er brýn þörf á að móta heildstæða framtíðarstefnu fyrir Landhelgisgæzluna með það að markmiði að byggja hana upp í stað þess að skera hana niður eins og of lengi hefur verið raunin. Tryggja þarf að Landhelgisgæzlan geti sinnt að fullu því lögboðna hlutverki sem henni er ætlað, en ljóst er að til þess að svo geti orðið þarf að veita mun meiru fé til hennar en nú er raunin enda hefur gæzlan verið í fjársvelti til fjölda ára eins og eflaust flestir kannast við.

Það er mat flokksins að Landhelgisgæzlan þurfi a.m.k. að ráða yfir fjórum öflugum varðskipum, enda var til lítils barizt fyrir stækkun landhelginnar ef við reynumst síðan ekki fær um að standa vörð um það sem ávannst. Flokkurinn vill ennfremur að varðskipin verði staðsett eitt í hverjum landshluta, en með því má tryggja betri viðbragsflýti varðskipanna í neyð auk þess sem slíkt væri afar jákvætt frá byggðalegu sjónarmiði.

Að lokum má geta þess að flokkurinn hefur mikinn áhuga á að kannað verði með vilja danskra stjórnvalda fyrir því að íslenska Landhelgisgæslan taki að sér gæzlu með lögsögu Grænlands, að hluta eða í heild, í umboði Dana gegn umsömdum greiðslum, en fyrir liggur að Danir stefni að því að auka mjög á eftirlit með lögsögu landsins.

Að lokum má minna á heimasíðu flokksins á vefslóðinni www.framfarir.net.

Hjörtur J.
Með kveðju,