Í dag fordæmdi utanríkisráðuneyti Íslands sprengjuárás Ísraelsmanna á Gazasvæðinu sem átti sér stað þ. 22/7 og var ætluð til þess að ráða af dögum háttsettan liðsmann í Hamassamtökunum.
Fordæming þessi ætti varla að koma á óvart m.v. hvernig að árásinni var staðið en ísraelsk F-16 orustuþota varpaði eins tonns sprengju á blokk í þéttbýlu íbúðarhverfi. Í árásinni lést Hamasforinginn Salah Shelade, lífvörður hans og 13 óbreyttir borgarar, þar á meðal mörg börn. Fyrstu yfirlýsingar frá Ariel Sharon fögnuðu árásinni en seinna breyttist hljóðið frá Ísrael og er árásinni nú lýst sem mistökum af Moshe Katav forseta.
Hvaða skoðun sem menn hafa á baráttuaðferðum gegn hryðjuverkum er annað vart hægt en að fordæma hvernig þetta tilræði fór fram. Í sjálfu sér er þetta ekkert annað en hryðjuverk ef árásin var samþykkt af ráðamönnum, vitandi hvaða hættu almennir borgarar væru settir í.
Hvað um það, ástæðan fyrir skrifum þessa pistils er orðalag í fordæmingu utanríkisráðuneytisins. Svo vitnað sé í frétt í dag á mbl.is er þessa klausu að finna þar: "…ekki réttlætanlegt að beita til þess aðferðum á borð við aftökur án tóms [sic] og laga".
Spurningin sem kveiknar í mínum huga útfrá þessu er hvernig má berjast gegn hryðjuverkum? Vandamálið er það að það er ekki til nein opinber, alþjóðleg skilgreining á hryðjuverkum. Það er augljóst að slíkt vantar til þess að hægt sé að ákveða hvaða aðferðir séu ásættanlegar til að berjast gegn hryðjuverkum.
Í fyrsta lagi þarf að spyrja hvort koma skuli fram við hryðjuverkamenn sem almenna borgara eða sem hermenn. Ég veit ekki betur en ætlast sé til þess, á alþjóðlegum vettvangi, að komið sé fram við skæruliða eins og hermenn. Hví þá ekki hryðjuverkamenn?
Ef við samþykkjum að sömu aðferðum sé beytt gagnvart hryðjuverkamönnum og hermönnum þá eru tilræði Ísraela gagnvart palestínskum hryðjuverkamönnum algerlega ásættanleg, að því gefnu að eðlileg varúð sé sýnd gagnvart óbreyttum borgurum.
Ef þessar aðferðir eru ásættanlegar þarf þó að sína mestu varkárni til að ekki sé brotið á frelsi saklausra borgara eða þeir jafnvel líflátnir fyrir mistök. Hin hliðin á peningnum er sú að ef við ætlum hryðjuverkamönnum sömu réttindi og óbreyttum borgurum sem hafa framið lögbrot þá er í mörgum ríkjum ekki annað löglegt en að beyta gegn þeim lögregluaðgerðum. Ég held að flestir sjái í hendi sér hvert myndi stefna í baráttu gegn hryðjuverkamönnum ef sú leið er farin.
Ég hef ekki handbæra skilgreiningu á hryðjuverkum en ein sem ég fann við leit mína að samþykktri skilgreiningu er eftirfarandi og er tekin af síðu United Nations Office for Drug Control and Crime Prevention (http://www.undcp.org/terrorism_definitions.html):
3. Short legal definition proposed by A. P. Schmid to United Nations Crime Branch (1992):
Act of Terrorism = Peacetime Equivalent of War Crime
Það vaknar strax upp sú spurning hver skilgreininingin á friðartíma sé? Hefur verið friður á N-Írlandi megnið af síðustu öld? Hvað um síðustu rúma hálfu öld í Palestínu og Ísrael?
Í staðin fyrir að sjá málið skýrar virðist það bara enn flæktara fyrir mér. En eitt er víst: ef orðalag það sem ég vísa í fyrr er almenn skoðun íslenskra ráðamanna þá getum við farið að fordæma ansi mörg lönd, þ.m.t. ýmis bandalagslönd okkar, fyrir baráttuaðferðir gegn hryðjuverkum.