Þar sem að allt virðist ætla að koðna niður og íslenskum stjórnvöldum virðast hafa tekist að láta mótmæli margra sem vind um eyru þjóta, þá er málið að koma skipulagningu á hlutina þannig að hægt verði að setja bunka af málum undir nefið á “háttvirtum” embættismönnum og heimta svör.

Íslendingar eru frægir fyrir að vera einstaklega lélegir í mótmælaaðgerðum og íslensk stjórnvöld enn frægari í að hundsa mótmælaaðgerðir.

Því ætla ég nú að safna saman reynslusögum þeirra sem urðu vitni að mannréttindabrotum og yfirgangi í kringum heimsókn Kínaforseta (og þá líka forsætisráðherra fyrir ári síðan).

Frásögn af atburðinum má senda á brot@totw.org, gefa verður upp nafn, síma og kennitölu svo hægt sé að staðfesta sögurnar, það væri helvíti lítið sniðugt að fá bunka af sögum þar af helmingnum upplognum frá trúðum og ætla svo að slengja því framan í stjórnvöld.

Nöfnin, símarnir og kennitölurnar verða hins vegar ekki birt nema með leyfi viðkomandi sem farið verður sérstaklega fram á. Þessum upplýsingum verður haldið leyndum og Dabbi fær ekkert að vita hverjir sendu inn sögur svo hann geti ekki bætt á svarta listann sinn.

Ef við viljum ekki að svona atburðir endurtaki sig, tjáningarfrelsi fótum troðið með lagabrotum af hálfu laganna varða, þá verðum við að taka á þessum málum strax. Annars lendir þetta í vana hjá þeim sem troða á okkur, og þeim sem troðið er á.

Lentir þú í veseni? Sendu inn söguna (og merktu).
Lenti einhver sem þú þekkir í veseni? Fáðu viðkomandi til að senda söguna inn (og merkja).

Mér hefur heyrst að fjöldi fólks hafi lent í ýmsum misalvarlegum málum og því ætti að verða nóg um atvik sem hægt verður að krefjast skýringa á, og refsinga fyrir (lögreglumenn eru ekki skinhelgir, né yfirboðarar þeirra, það er reyndar enn alvarlegra þegar þeir brjóta lögin en aðrir).
Summum ius summa inuria