Eftirfarandi grein birtist í Morgunblaðinu í dag, 12. júní, eftir Hrein Loftsson hæstaréttarlögmann. Hún er að mínu mati a.m.k. þarft innlegg í umræðuna um ESB og þá auðvitað einkum um það hvernig Halldór Ásgrímsson hefur nálgast þau mál eftir að skýrzla hagfræðistofnunar Háskóla Íslands var gerð lýðum ljós fyrir skemmstu.
Ein gagnrýni Halldórs sneri að því að skýrzla hagfræðistofnunar væri ekki engan veginn nákvæm þar sem hún byggði að stóru leyti á efnahagsmati einhvers banka í fyrrverandi Austur-Þýzkalandi og verður ekki betur séð en mað því hafi hann hugsað sér að gera lítið úr bankanum og grafa þannig undan undirstöðum skýrzlunnar á fölskum forsendum. Grein Hreins varpar svo um munar ljósi á það hver þessi “ómarktæka” þýzka bankastofnun raunverulega er.
Það verður annars að segja eins og er að þetta lúalega útspil Halldórs segir sennilega meira en margt annað um hvaða örþrifaráða menn grípa þegar þeir hafa slæman málstað að verja.
————————-
Innlent | 12. 06. 2002 | Evrópusambandið
Allt á hvolfi hjá Halldóri
ÞÝSKA tryggingafélagið Allianz keypti 97% hlutafjár í Dresdner bankanum um mitt ár 2001. Á aðalfundi bankans nú í vor kom fram, að Allianz muni innleysa þrjú prósentin sem á vantar og verða eini hluthafi bankans. Eftir kaupin á sl. ári varð Dresdner hluti af Allianz samstæðunni. Allianz er ein stærsta ef ekki stærsta tryggingasamsteypa veraldar og hafa höfuðstöðvar fyrirtækisins verið í München um langan aldur. Dresdner bankinn var stofnaður í Dresden 1872 og hefur um áratugaskeið verið annar af tveimur stærstu bönkum Þýskalands með eignir metnar á yfir 500 milljarða evra,1170 útibú, yfir 50 þúsund starfsmenn og starfsemi í um 70 löndum. Höfuðstöðvar bankans hafa verið í Frankfurt frá skiptingu Þýskalands í kjölfar síðari heimsstyrjaldarinnar. Eftir fall Berlínarmúrsins 1989 varð bankinn fyrstur vestur-þýskra banka til að opna útibú í borginni þar sem hann var stofnaður og hefur ásamt fleiri fyrrum vestur-þýskum stórfyrirtækjum tekið virkan þátt í uppbyggingu austurhluta landsins eftir sameiningu þýsku ríkjanna.
Þeir sem fylgst hafa með alþjóðastjórnmálum síðustu 2-3 áratugi og þekkja eitthvað til sögu Þýskalands muna að á áttunda áratugnum beindu Rauðu herdeildirnar svokölluðu eða Baader-Meinhof gengið, spjótum sínum að vestur-þýskum fjármálamönnum og iðnjöfrum. Markmið þeirra var að vega að undirstöðum Vestur-Þýskalands með því að vega málsmetandi kaupsýslumenn. Vitað er að þeir nutu stuðnings og samúðar skæruliðahreyfinga fyrir botni Miðjarðarhafsins, þ.á m. öfgahópa innan PLO og áttu einnig stuðning vísan hjá ógnarstjórninni í Austur-Þýskalandi. Einn þeirra vestur-þýsku frammámanna sem féllu fyrir hendi Rauðu herdeildanna var Jurgen Ponto, stjórnarformaður Dresdner bankans. Hann var myrtur fyrir aldarfjórðungi um það bil sem aðalfundur bankans var haldinn 1977, líklega vegna þess að bankinn var eitt helsta tákn efnahagsveldis Vestur-Þýskalands.
Hvers vegna er þetta dregið saman hér með þessum hætti? Jú, Halldór Ásgrímsson, utanríkisráðherra, hefur á opinberum vettvangi gert tilraun til að vega að Hagfræðistofnun Háskóla Íslands með því að reyna að gera lítið úr Dresdner bankanum. Hagfræðistofnun byggði á upplýsingum frá bankanum við gerð skýrslu sinnar um verð hugsanlegs aðgöngumiða Íslands að Evrópusambandinu. Sagði Halldór í viðtali við Ríkisútvarpið í síðustu viku, að um væri að ræða banka úr fyrrum Austur-Þýskalandi. Var helst á honum að skilja að þetta gætu þá ekki verið áreiðanlegar upplýsingar. Ummælin eru stórundarleg enda er staðreyndum snúið á hvolf. Þá eru ummæli Halldórs honum til skammar jafnvel þó að um slíkan banka væri að ræða. Verður hann ekki fyrst að skoða og meta upplýsingarnar áður en hann hallmælir þeim sem leggur þær fram? Hvaða tilgangi þjónuðu viðbrögð hans öðrum en þeim að koma ódýru höggi á Hagfræðistofnun Háskóla Íslands?
Hitt er svo annað mál, sem einnig er vert umhugsunar. Hvers vegna bregst Halldór Ásgrímsson ókvæða við þegar hann fær upplýsingar um kostnaðinn fyrir íslenska ríkið af hugsanlegri aðild að ESB? Nauðsynlegt er að réttar upplýsingar um þann kostnað liggi fyrir þannig að upplýst umræða geti farið fram. Í stað þess að fagna skýrslunni og fara í saumana á forsendum hennar ræðst ráðherrann á háskólastofnunina sem annast útreikninginn og þýska bankann sem upplýsingar eru fengnar frá og segir að ef þessir aðilar hafi rétt fyrir sér hafi hann og starfsmenn hans í utanríkisráðuneytinu haft rangt fyrir sér hingað til. Það geti naumast verið og þá er reynt að grafa unda trúverðugleika beggja þessara aðila. Hefur Halldór höndlað hinn eina stóra sannleika í málinu? Einkennilegt er síðan að kalla til endurskoðunarskrifstofuna Deloitte&Touche og ætla henni dómarahlutverk í þessu efni. Hvaðan kemur sú speki endurskoðendanna sem landsmenn eiga að taka trúanlega umfram Hagfræðistofnun Háskóla Íslands og Dresdner bankann? Skyldi vera að þær upplýsingar eigi að koma frá Halldóri sjálfum og starfsmönnum hans? Málatilbúnaður þessi einkennist af fumi og fáti og ber alls ekki einkenni þeirrar yfirveguðu og upplýstu umræðu sem stuðningsmenn ESB-aðildar hafa verið að kalla eftir um nokkurt skeið.
Hreinn Loftsson
Höfundur er hæstaréttarlögmaður.
———————–
Heimild: “Allt á hvolfi hjá Halldóri” - Morgunblaðið 12. júní 2002. Einnig: http://www.mbl.is/frettir-ifx/morgunbladid/adsend_grein?nid=11048
Hjö rtur J.
Með kveðju,