Sæll,
Já hún er málefnaleg og góð þessi grein, annað en ofstækisgreinin eftir lækninn þarna um daginn sem heit eitthvað “Gyðingar gyðinganna” eða eitthvað í þá áttina.
En hvað um það, mér fannst vanta greinina í heild sinni hér og birti hana því hér með svona til að menn sjái sjálfir hvað um ræðir.
—-
Gyðingahatur og gagnrýni á Ísrael
ÞAÐ er stríð milli Ísraela og Palestínumanna með tortímingu og manndrápum sem upp vekja reiði og fordæmingu út um heim svo sem eðlilegt er. Ísraelar hafa hernaðarlega yfirburði og því er vart við öðru að búast en yfir þá komi drýgstur hluti mótmæla og gagnrýni. Svokallaðir “haukar” sem nú eru oddvitar Ísraels hafa fyrr og síðar vísað gagnrýni frá sér á þeim forsendum, að hún byggði á gömlu og nýju gyðingahatri sem löng hefð er fyrir, ekki síst í Evrópu. Því miður er nú svo komið að sá sem með fylgist neyðist til að spyrja sig hvort þeir hafi ekki alltof mikið til síns máls.
Rétt er að slá því föstu strax, að það er eðlilegt og sjálfsagt að gagnrýna Sharon, Netjanahu og fleiri slíka sem lengst af hafa sem minnst viljað af réttindum Palestínuaraba vita. Og þá er ærin ástæða til að taka mark einmitt á þeim sem næstir eru vettvangi: andstæðingum stefnu Sharons meðal Ísraela sjálfra. Það er ekki síst rétt að leggja eyru við röksemdum þeirra sem hafa árum saman haldið uppi gagnrýni á það sem verst hefur verið í stefnu ráðamanna í Ísrael: á landtökubyggðir. Sem þeir telja allt í senn: ofríki gagnvart Palestínumönnum og hættulegar ísraelsku samfélagi sjálfu í bráð og lengd. Og hlusta á menn eins og rithöfundinn Amos Oz sem segir í sem stystu máli: Hvorki Ísraelar né Palestínumenn eru á förum. Það er aðeins einn kostur til annar en allsherjar uppgjör með miklu blóðbaði: skipta landinu. Stofna Palestínuríki - um leið og öryggi Ísraels og tilveruréttur er tryggður. Og til að eitthvað jákvætt gerist verður að gera kröfur um tilslakanir bæði til Ísraela, Palestínumanna og hins arabíska heims sem þeir eru hluti af. Við mætti bæta: skilningur og afskipti umheimsins skipta hér líka máli. Og þá ber nauðsyn til að menn falli ekki í þá freistingu að veita einhverjum málsaðila fyrirvaralausan stuðning og taka í einu og öllu undir hans túlkun mála.
Friðarsinnar og sjálfsmorðsárásir
Það finnst einmitt mörgum friðarsinnum í Ísrael að nú sé gert. Þeim finnst til dæmis, sem og mörgum gyðingum víða um lönd, bæði undarlegt og ískyggilegt þegar hver Palestínumaður sem deyr er í fjölmiðlum úti um heim meiriháttar stríðsglæpur meðan þeir Ísraelar sem farast í sjálfsmorðsárásum eru afskrifaðir sem einskonar minniháttar slys í göfugri þjóðfrelsisbaráttu. Eins þótt þeir séu 20 einstaklingar úr stórfjölskyldu sem kom saman til páskamáltíðar. Í nýlegu samtali við danskan fréttaritara segja nokkrir ísraelskir andstæðingar Sharons sem svo: Ef ekki væru sjálfsmorðsárásirnar þá væru miljón manns komnir út á göturnar til að andmæla Sharon. En nú getum við ekki einu sinni lagt til að hernáminu verði tafarlaust aflétt, vegna þess að þá mundu hermdarverkamenn telja sig hafa unnið sigur. Og þeir mundu ekki hætta sjálfsmorðssprengingum að heldur - því að baki þeim standa menn sem ekki vilja neinskonar samkomulag við Ísrael um nokkurn skapaðan hlut.
Hér er vikið að því sem margir átta sig ekki á. Það er misskilningur að sjálfsmorðsárásirnar séu framdar af örvæntingarfullum unglingum sem hafa ákveðið “að taka nokkra gyðinga með sér” með heimatilbúnum sprengjum. Þær eru undirbúnar af sérfróðum mönnum og skipulagðar af samtökum á borð við Hamas og Al Aqsa, sem kannast vel við þær og eru stolt af þeim. Slík hermdarverk eru heldur ekki nýmæli. Sprengjukast á gyðingabyggðir í Palestínu var stundað óspart á fjórða áratugnum þegar í landinu fjölgaði flóttamönnum undan ofsóknum Hitlers, og sprengjukast og tímasprengjur sem komið var fyrir hér og þar kostuðu um 1300 Ísraela lífið á fyrstu árum ríkisins. Það sem er nýtt er að tilræðismennirnir farist sjálfir - og það eru nýmæli sem víðar segja til sín, samanber árás Al Quedamanna á New York í september í fyrra.
Þjóðarmorð?
En þá er það ótalið sem flestum gyðingum í Ísrael og um heim allan, hvort þeir eru trúaðir eða vantrúaðir, gagnrýnir á stjórnvöld í Ísrael eða samherjar þeirra, finnst bera með ótvíræðum hætti vitni um endurkomu öflugra fordóma og haturs í garð gyðinga. Og það er sú árátta sem mikið ber á í mótmælaaðgerðum og í fjölmiðlum í Evrópu, að líkja því mannfalli sem Palestínumenn verða fyrir við þjóðarmorð og bera það saman við útrýmingarherferð nasista sem kostaði sex miljónir gyðinga lífið. Þetta er mikill söngur og öflugur og reyndar ótrúlegur.
Það er líklega heimskulegt að telja lík: langflestir þeirra sem falla í stríði eru með nokkrum hætti fórnarlömb glæps. En hvað um það - þjóðarmorð er eitt og manndráp í stríði er annað. Þjóðarmorð er framið þegar í orði og verki er gengið fram í að drepa hvert mannsbarn af tiltekinni þjóð. Tölur um mannfall í um 20 mánaða átökum nú eru um 500 Ísraelar og 1.500 Palestínumenn að því er mér sýnist. Til að kalla slíkt mannfall þjóðarmorð þarf mjög undarlegt ímyndunarafl. Því er heldur ekki að heilsa að Palestínumenn séu vopnlaust fólk, þótt þeir hafi ekki þungavopn. Það hefur víða verið barist í byggðum þeirra. Vopnaðar sveitir veittu harða mótspyrnu í Jenínbúðunum þar sem Ísraelar töldu að mikill hluti sjálfsmorðsárásanna væri skipulagður.
Atburðir í Jenín eru reyndar dæmigerðir um það sem hér um ræðir: meðan á þeim stóð voru mörg orð og stór höfð um að þar færu fram svívirðileg fjöldamorð, útrýming á fólki í stórum stíl, gott ef ekki sambærileg við örlög gyðingahverfisins í Varsjá á dögum nasista. Þegar upp er staðið kemur svo í ljós að áliti Mannréttindasamtakanna Human Rights Watch að þar hafi fallið 48 Palestínumenn og 23 ísraelskir hermenn. Engar vísbendingar finnist um að “Ísraelsher hafi fjarlægt lík úr búðunum og grafið í fjöldagröfum”. Ekkert bendi til þess að “mörg hundruð óbreyttir borgarar hafi fallið”. ( sbr Morgunblaðið 21. maí sl.) Samtökin saka Ísraelsher um að hafa haft óbreytta borgara sem skjöld fyrir sér þegar farið var inn í búðirnar, en svipaðar ásakanir hafa reyndar verið fram bornar á hendur palestínskum skyttum, sem feli sig á bak við börn og unglinga.
Hvað er annars á bak við þessar tölur: 23 ísraelskir hermenn og 48 Palestínumenn? Aldrei hefðu slíkar tölur komið út úr árásum Rússa á höfuðborg Tsjetsjena, Groznij eða hernaði Bandaríkjamanna í Afganistan. Vegna þess að þau stórveldi spara líf sinna hermanna með því að varpa sprengjum úr lofti á þá sem andóf veita og senda helst ekki menn sína á vettvang fyrr en þaggað hefur verið niður í vopnum með gífurlegu sprengjuregni sem enginn veit hve marga hæfir. Ísraelsher hefur vafalaust gert margt af sér í Jenín og víðar - en hann beitti ekki lofthernum, heldur barðist hús úr húsi. Engu að síður hafa menn hátt um að annan eins glæp hafi heimurinn ekki séð lengi. Franskir hershöfðingjar sögðu það við fréttaritara Le Monde fyrir skömmu, að það sem Ísraelsmenn gerðu í Jenin hefði verið verra en nokkuð sem Frakkar gerðu í Alsír meðan þar var barist. Fréttaritarinn var víst nokkuð hissa á þeim samanburði, því í því stríði voru um miljón Alsírmenn drepnir.
Víða um Evrópu er semsagt látið eins og Ísraelar séu að gera eitthvað hliðstætt og Þjóðverjar gerðu Gyðingum eða Frakkar Alsírbúum og haldi svo hver áfram. Menn spyrja sig hvernig á þessu stendur. Sum svör athyglisverð eru á þessa leið: Margir Evrópumenn finna til ónota í sálinni vegna útrýmingar evrópskra gyðinga í heimsstyrjöldinni síðari. Vegna þess að margir urðu með nokkrum hætti meðsekir: menn horfðu í aðra átt, lokuðu landamærum fyrir flóttafólki, aðstoðuðu þýska hernámsliðið beint og óbeint. Þá kemur upp einskonar þörf fyrir að menn teygi sig út fyrir alla skynsemi og réttsýni í dómum sínum um Ísraela til að segja: sjáiði bara, gyðingar geta líka drepið fólk. Þeir eru engu betri en við. Og þá sýnist það sem við Evrópumenn gerðum, kristnir og siðaðir, einhvern veginn ekki alveg eins skelfilegt og einstakt. Það er eftir því tekið, að hinn nýi gyðingafjandskapur (með hatursskrifum og hermdarverkum á samkomuhúsum, grafreitum og víðar) er sérlega útbreiddur í Frakklandi (samanber einnig orð frönsku hershöfðingjanna sem áður var vitnað til). Og einmitt í Frakklandi hafa menn verið mjög seinir til að fjalla um ýmsar smánarhliðar furðu náinnar samvinnu franskrar lögreglu, íhaldsmanna og fleiri aðila við þýskt hernámslið á stríðsárunum - og þá ekki síst við framkvæmd Helfarar.
Að hafa rétt fyrir sér
Grein um þessi efni getur orðið óendanlega löng, ekki síst ef rekja ætti sögu einstakra þátta málsins. Látum nægja að geta þess hér, að hver sá sem les sér af þolinmæði til um sögu átaka í Miðjarðarhafsbotnum á von á mörgu óvæntu - og kemst helst að þeirri niðurstöðu að þau séu á margan hátt engum öðrum deilum og stríðum lík. Ekkert er sem sýnist. Allan málflutning verður að taka með fyrirvara. Og í því ástandi sem nú ríkir skiptir mestu að hver og einn fylli sína litlu teskeið með vatni til að stökkva á ófriðarbál eins og sá ágæti höfundur Amos Oz kemst að orði. Og þá er ekki ráðlegt að láta þá sem fylgja fram sínum málstað af mestri hörku halda að þeir einir hafi rétt fyrir sér. Þeir sem Ísraelar hlusta á þurfa að brýna það sem rækilegast fyrir ráðamönnum að Palestínuríki hljóti að verða til og landtökubyggðir að víkja. Þeir sem Arafat og hans menn hlusta á þurfa að vita að sættir munu aldrei takast nema hægt sé að kveða niður í raun og veru þau samtök, herská og vopnuð, sem ekki vilja unna sér hvíldar fyrr en búið er að tortíma Ísrael. Yezid Sayigh, fyrrum einn af samningamönnum Palestínumanna, segir í nýlegri grein, að þeir Sharon og Arafat hafi hvorugir til að bera hugrekki eða pólitíska framsýni til að fást við þá menn í sínum eigin röðum sem berjast gegn hverri málamiðlun af mestri hörku. Þeir haldi því áfram að treysta á vopnaðan þrýsting í von um að einhver ófyrirséð framvinda mála verði til þess að skera þá niður úr þeirri snöru sem þeir hafa flækt sig í. Mestu varðar að hafa slíka hluti til hliðsjónar - en taka ekki hugsunarlaust undir einföld heróp þeirra sem eru strax búnir að finna sér sökudólg í hverju máli. Heróp sem í þessu dæmi hér bera sorglega sterkan keim af gyðingahatri sem er sterkari þáttur í evrópskum hugsunarhætti en flestir kæra sig um að viðurkenna.
Árni Bergmann.
Höfundur er rithöfundur.
http://www.mbl.is/frettir-ifx/morgunbladid/adsend_grein?nid=10898—
Kv.
Hjörtu