Það vakti ekki litla athygli nú á dögunum þegar Hollywood leikarinn John Malkovich hótaði tveimur mönnum lífláti á málfundi í Cambridge háskóla. Hann útskýrði ekki hvers vegna hann vildi gjarnan myrða þessa tvo menn. Þessir menn eru annarsvegar skoski þingmaðurinn George Galloway sem hefur verið ákaflega gagnrýninn á stefnu Ísraelsstjórnar en hinn er Robert Fisk blaðamaður á The Independent sem hefur lengi skrifað um þennan heimshluta. Fisk sagði umheiminum frá atburðum eins og fjöldamorðunum í Sabra og Shatilla 1982 og Qana 1996 þegar heimurinn vildi ekkert af þessu vita.

Blaðamennska Fisks hefur vakið upp miklar tilfinningar meðal allskonar fólks og um þverbak keyrði skömmu eftir ellefta september þegar Fisk leyfði sér að spyrja hvað það var sem rak þessa 19 menn til þess að fremja þennan viðurstyggilega glæp. Viðbrögðin við þessari sjálfsögðu spurningu voru allt frá því að vera nafnlaus illa stafsettur tölvupóstur sem var borinn uppi af fuck, shit og andstyggilegum athugasemdum um móðir Fisks og upp í það að Harvard prófessorar létu frá sér eitthvað sem frekar væri vænst af leikskólabörnum.

Þetta vekur óneitanlega upp spurningar um stöðu fjölmiðla í dag, erum við á leið inní þjóðfélag þar sem gefin verða út veiðileyfi á allt sem gæti minnt á gagnrýna blaðamennsku? Æsingurinn og lágkúran er með slíkum hætti að maður getur varla leyft sér að vera bjartsýnn. Þó að það sé kannski ekki beinlínis hætta á því að við séum á leið inní þriðja ríki Hitlers hérna þá megum við aldrei sofna á verðinum. Sú samfélagsskipan sem við búum við er svo langt frá því að vera sjálfsagt ástand, það verður að vinna að því með hörku að viðhalda henni ef ekki á allt að fara til andskotans.

Hér fylgir grein eftir Robert Fisk um morðhótunina:
http://argument.independent.co.uk/commentators/story.jsp?story=294787
如果你不同意我, 你是减速