Ég var að horfa á borgarmálin á skjá einum hér um daginn þegar ungur maður frá R-listanum átti orðið. Hann talaði um að Ingibjörg Sólrún setji börnin í fyrsta sæti og tók allskyns dæmi um hvernig hún hefur gert það hingað til. Þessi orð hans vöktu hjá mér talsverða gremju og get ég ekki lengur orða bundist. Ég er kennaranemi en vinn samhliða námi mínu á leikskóla og er auk þess móðir.

Þessi ungi maður sagði Ingibjörgu Sólrúnu vinna fyrir börn því að hún hafi fækkað biðlistum hjá leikskólum Reykjavíkur með því að fjölga leikskólum. Já hún hefur fjölgað leikskólum og fækkað biðlistum, en hvernig sinnir hún öllum þessum leikskólum? Ekki vel.
Leikskólastjórar fá núna ákveðinn kvóta til að reka sinn leikskóla. Úr þessum kvóta á að borga laun starfsmanna, mat handa börnunum, leikföng, efnivið til að föndra úr, hreinsiefni fyrir ræstingu og allt annað sem þarf fyrir daglegan rekstur leikskóla. Þessi kvóti er skorinn svo við nögl að það er sorglegt að horfa uppá rekstur sumra leikskóla. Sumir leikskólastjórar láta þennan kvóta ekki stjórna sér og gera það sem þeir þurfa til að börnunum og starfsfólki leikskólans líði vel. Þessir leikskólastjórar fá líka skammir í hattinn og fyrir hverja milljón sem þeir fara yfir kvótann er milljón tekin af kvóta næsta árs. Þetta þýðir að fyrir rest er leikskólinn orðinn stórskuldugur, hótanir eru um að reka leikskólastjórana en enginn nýr leikskólastjóri er tilbúinn til að taka við svo illa stöddum leikskóla.
Aðrir leikskólastjórar eru hræddari við þennan kvóta og reyna allt til að standast hann. Í sumum leikskólum er ekki lengur keyptir inn ávextir handa börnunum til að minnka kostnað við matvæli, annarsstaðar er ekki lengur keypt kjöt, ég veit um leikskóla þar sem matur er skafinn af diskum þeirra sem leifa til að gefa þeim sem enn eru svangir því að meiri matur er ekki til. Á öðrum leikskólum er ekki til efniviður til að börnin geti föndrað. Litirnir (bæði trélitir og vaxlitir) eru orðnir svo gamlir og lélegir að fæstir þeirra eru stærri tveir til þrír cm og tússlitirnir eru flestir orðnir þurrir og lélegir. Þar fyrir utan eru starfsmennirnir svo illa launaðir að erfitt er að halda þeim í vinnu og á mörgum leikskólum eru mannaskipti svo tíð að þegar barn hefur verið í leikskólanum í tvö ár hafa jafnvel 10 starfsmenn séð um hans hóp í leikskólanum og allir hafa þeir hætt. Við slíkar aðstæður verða börnin óróleg, þau vita aldrei hver kemur til með að vera hjá þeim í dag, þau þurfa að læra að þekkja nýjan starfsmann jafnvel í hverjum mánuði og kveðja annan á sama tíma.
Eru þetta aðstæðurnar sem við viljum að börnin okkar alist upp við? Leikskólinn á að vera staður þar sem barnið okkar hlýtur sína fyrstu menntun. Þetta á ekki að vera barnageymsla.

Og ekki tekur betra við þegar barnið okkar kemur í grunnskólann. Þar segist Ingibjörg setja barnið í fyrsta sæti því að hún berst fyrir Heildtækri skólastefnu, getublönduðum bekkjum. Heildtæk skólastefna er frábært hugtak og hugmyndafræðin á bak við hana er mjög skemmtileg. Það er bara einn galli á, í grunnskólum Reykjavíkurborgar eru alltof margir nemendur í bekk og alltof lítil aðstoð fyrir kennarana til að Heildtæk skólastefna virki. Þessi stefna byggir á því að í bekknum séu nemendur af öllum getustigum, allt frá mikið greindarskertum nemendum til þeirra sem teljast afburðagreindir. Til að allir þessir nemendur njóti sín sem best og fái sem mest út úr náminu þarf kennarinn að gera einstaklingsbundnar kennsluáætlanir og miða námið út frá hverjum og einum. Í mikið getublönduðum bekk þýðir ekki að setja sömu bókina og sama námsefnið fyrir alla. Þegar tuttugu nemendur eru saman í bekk hjá einum kennara sem fær litla sem enga hjálp inn í bekkinn er þetta mjög erfitt, ofboðslega tímafrekt og nánast ómögulegt. Þar sem aðstæður fyrir heildtæka skólastefnu eru ekki til staðar í grunnskólum Reykjavíkur er kennslan þannig að allt er miðað út frá meðal nemandanum og þeir sem slakari eru fá örlitla aðstoð ef þeir dragast aftur úr, þ.e.a.s. ef kennarinn tekur eftir því, en þeir er klárari eru fá ekkert aukalega, þeir vinna verkefnin sín á skotstundu og fá ekkert við sitt hæfi, þeim fer að leiðast í skólanum og þeir kunna ekki að læra. Þegar komið er í framhaldsskóla eða í háskóla lenda þeir svo í vandræðum af þessum sökum og hætta námi. Þegar reynt er að koma af stað heildtækri skólastefnu án þess að búa svo um að hægt sé að gera það almennilega endar það á því að enginn fær nám við hæfi. Slöku nemendurnir fá ekki þá hjálp og þann stuðning sem þeir þurfa á að halda og ekki er hlúð nægilega að þeim sem skara fram úr.

Ingibjörg Sólrún segist vera að setja börnin í fyrsta sæti og á blaði lítur það vel út, en þegar betur er að gáð er hún ekki að gera neitt fyrir börnin okkar og aðstæðurnar sem hún lætur þau alast upp í eru til skammar.

Í lokin vil ég taka það fram að ég er ekki stuðningsmaður Sjálfstæðisflokksins enda finnst mér að Björn Bjarnason hefði átt að geta gripið í taumana þegar hann var í menntamálaráðuneitinu.

Það er kominn tími til að breyta til og senda þetta pakk út í hafsauga, fáum nýtt blóð í borgarstjórn.

Tzipporah