Nú hafa hvalveiðar ekki verið stundaðar við Ísland í um 15 ár (ekki með rétt ártal á hrein), og höfum við komist ágætlega af án þess, þó svo að ég vilji ekki taka neina afstöðu gagnvart hvalveiðum.
Mikil barátta hefur verið í gangi síðustu daga í Japan um hvort Ísland kæmist aftur inn í alþjóða hvalveiðiráðið, en hvalfriðunarþjóðir, Svíþjóð, Bandaríkin, Bretland o.s.frv. komu í veg fyrir inngöngu Íslands með “fantabrögðum” sem íslenska sendinefndin kallar.
Hver er ávinningurinn ef við komumst aftur þarna inn? Jú, við megum selja hvalakjöt, sem við myndum hvort sem er ekki mega þótt við kæmumst aftur þarna inn…því ég efast um að hvalveiðar yrðu leyfðar á ný ef svo yrði. Þannig að við höfum litlu á að tapa hvort við komumst inn eður ei, fyrir utan einhver áhrif á kosningar um hvort hvalveiðar yrðu leyfðar á ný.
Ég lít hinsvegar á þetta sem “prinsipp” mál, það skiptir ekki máli hvort við ætlum að veiða hvali eða ekki, við eigum rétt á að vera þarna. Og mér finnst ömurlegt af þjóðum eins og Svíþjóð að “svíkja” okkur með þessum hætti.
Persónulega er ég hvorki með eða á móti hvalveiðum, mér finnst hinsvegar að við ættum ekki að hefja hvalveiðar aftur ef Ísland bíði álitshnekkur og e.t.v. einhverjar viðskiptahömlur (t.d. fisk?).
Hvalaskoðanir gefa sitt í þjóðarbúið, og er talið að þær gefi meira af sér en hvalveiðar. Spurning hvort það eigi að styrkja þann atvinnuveg eða hefja hvalveiðar, eða bara bæði?
Annars er ég ekki of fróður um þessi hvalveiðimál, enda man ég varla eftir mér þegar hvalveiðar voru stundaðar. Gaman væri að fá skoðanir ykkar lesenda á þessum málum.