Upptaka evrunnar gæti þýtt hærri vaxtakostnað
www.framfarir.net

Sérfræðingar Landsbanka Íslands telja að ef Ísland gengi í Evrópusambandið, og tæki upp evruna, gæti það leitt til hærri vaxta á íbúðalánum og jafnvel þýtt í heildina litið að vextir hér á landi myndu almennt hækka. Þetta gengur þvert á yfirlýsingar ESB-sinna sem iðulega slá hafa slegið því föstu að aðild að sambandinu og upptaka evrunnar myndi þýða almennar vaxtalækkanir hér á landi. Þetta mat Landsbankans er hins vegar í samræmi við hliðstæðar skýrslur sérfræðinganefnda, bæði í Svíþjóð og Danmörku, sem hafa komist að sömu niðurstöðum. Í Markaðsyfirliti Landsbankans segir:

“Það má velta vöngum yfir því hvort upptaka evrunnar muni hafa minni áhrif á vaxtakjör heimilanna en hnattvæðingarnefnd heldur fram. Ástæða þessa er sú að upptaka evrunnar mun hugsanlega hafa lítil áhrif á kjör íbúðalána sem eru nú um 50% af heildarskuldum einstaklinga. Við inngöngu í Evrópusambandið er líklegt að afnema yrði ríkisábyrgð á Íbúðalánasjóði og gera arðsemiskröfu til þess fjármagns sem bundið er í þeirri útlánastarfsemi. Þetta gæti leitt til þess að dýrara yrði að fjármagna kaup á íbúðarhúsnæði og er hugsanlegt að þessi hækkun vegi upp þá vaxtalækkun sem gæti átt sér stað við upptöku evru. Ef þessi röksemdafærsla stenst gætu áhrif upptöku evru á þannan þátt vaxtakostnaðar heimilanna orðið lítil sem engin, í versta falli til hækkunar á vaxtakostnaði heimilanna.”

Heimild:
“Innganga í ESB gæti leitt af sér vaxtahækkun á íbúðarlánum” - Morgunblaðið, 11. maí 2002.

Hjörtur J.
Með kveðju,