Björn í Undralandi
Einu sinni, í landi sem var langt, langt í burtu, var lítill strákur sem hét Björn. Hann var með gleraugu. Björn þessi bjó hjá frænda sínum og frænku og vann með þeim úti á ökrunum. Dag einn kom mikið óveður sem feykti Birni hátt upp í loftið og langt, langt í burtu. Hann lenti á stað sem hann hafði aldrei séð áður og var alveg gáttaður. Hann hafði nefnilega lent í Undralandi. Þar ríkir hin illa galdrakona Ingibjörg og á hún heima í risastórri höll sem heitir Reykjavík. En um þetta vissi Björn ekki neitt.
Hann sat aftur á móti í litlum lundi, inn milli fjólublárra og rauðra möpputrjáa, og hlustaði sæll og glaður á söng Davíðserlunnar. Allt í einu kom risastór héri gangandi inn í lundinn og var eitthvað annars hugar því hann tók ekki eftir Birni. Hann gekk fram og aftur og þuldi upp einhverjar stærðfræði- og hagfræðiformúlur. Björn sat og starði opinminntur á þetta furðuverk sem þessi gangandi og talandi héri var.
Loksins tók hérinn eftir Birni.
-Heyrðu, sagði hérinn. –Hver ert þú og hvað ert þú að gera hér?
-Ha, ég!?, svaraði Björn.
-Já, þú.
-Ég lenti nú bara hérna og ég veit eiginlega ekki hvernig. Veist þú hvar ég er?
-Já, svaraði hérinn. –Þú ert nefnilega í Undralandi. En hver ert þú eiginlega?
-Ég heiti nú bara Björn. Hvað heitir þú?
-Komdu sæll, Björn. Ég heiti Hannes!
Ég veit ekki um ykkur en einhvern veginn hljómar allt sem ég heyri koma úr smiðju Sjálfstæðismanna alltaf eins og ævintýri. Gull og grænir skógar er ekki óhugsandi draumur og ef að þei komast til valda munum við öll þramma syngjandi niður eftir Alsæluvegi, hæstánægð með að vera laus við ,,hinu illu galdrakonu Ingibjörgu”. Ég er kannski bara svo jarðbundinn að slíkar skýjaborgir hafa enginn áhrif á mig og ég tek ekki mark á þeim. Kannski hef ég bara ekkert gaman af ævintýrum.
Ég var rétt í þessu að fylgjast með annars ágætum þætti Egils Helgasonar, Silfur Egils, þar sem bæði Björn og Ingibjörg fóru hamförum. Ingibjörg annars vegar með endalaust spurningaregn og Björn hins vegar með ótrúlegar undankomur. Henni tókst að spyrja Björn út í flest það sem ég hefði spurt hann út í en hann, eins og útlagi vestursins, komst undan hverri kúlunni á fætur annarri.
Mig langar virkilega til að vita hvernig Björn ætlar að fjármagna td. bílastæðishúsið? Fékk ég svar? Nei! Mig langar til að vita hvernig Björn ætlar að leysa vandamál leigu-húsnæðismarkarðins(hræðilegt orð, ég veit það), en fékk ekkert svar. Honum tókst aftur á móti að kalla Ingibjörgu lygara að minnsta kosti 4 sinnum, að mig minnir.
Ég er ekki að reyna að mæla R-listanum neina bót. Aftur á móti finnst mér, og allir eiga rétt á sínum skoðunum ekki satt?, að Björn er ákaflega lélegur og óföngulegur kostur sem borgarstjóri. Af tvennu illu held ég að Ingibjörg sé skárri. Hún er þó að reyna að vera málefnaleg. Það skal tekið fram að ég tel ekki með F-ýluframboðið, því ég tel að með því að kjósa þann lista sé maður að kasta atkvæði sínu á glæ! Nei, ef að ég ætti að velja milli galdrakonunnar eða smástráksins, þá held ég að galdrakonan hafi vinninginn! Og hana nú!
PS. ég hef ekkert á móti fólki með gleraugu!!!:P