Hvað er neytendavæn blaðamennska?
Civic journalism eða sem á íslensku má kalla „neytendavæna blaðamennsku“ er ekki þekkt fyrirbæri hér á landi. Í Bandaríkjunum er þetta orðinn alþekktur fréttastíll og talin góð viðbót við hefðbundna blaðamennsku eins og almenningur hefur fengið að kynnast.
Hópur blaðamanna í Bandaríkjunum hafa orðið varir við áhugaleysi almennings gagnvart fréttablöðum og einnig fréttum í sjónvarpi. Á undanförnum fimm árum hafa kannanir sýnt minnkandi áhorf á fréttatíma og minnkandi áhuga almennings á því sem er að gerast í stjórnmálum og öðru hefðbundu fréttaefni. Fólk var spurt í þessum könnunum af hverju það væri hætt að horfa á fréttir og lesa blöðin var það afgerandi svar að fólki þætti umræðan ávallt of neikvæð of dapurleg sýn á alla hluti. Fólk var orðið þreytt á því að horfa upp á þetta allt vitandi það að það gæti ekkert gert í málinu. Almenningi fannst hann vera óþarfur í umræðunni og á síðum blaðanna væri einungis skrifað um þref stjórnmálamanna á milli eða fréttir af stórkostlegum slysum og öðrum hörmungum. Þessu tengdist minnkandi áhugi á kosningaþátttöku sem einnig var mikið áhyggjuefni blaðamanna.Tengist þetta líka einkavæðingu fréttastofa og samkeppninni um markaðinn þar sem markmiðið er að ná til sín sem flestum áheyrendum og lesendum. En fyrst almenningur er búinn að missa áhugann verður að breyta aðferðunum.
Blaðamenn í Bandaríkjunum tóku til sinna ráða og ákváðu að reyna færa fréttirnar nær almenningi til að auka áhuga fólks á málefnum líðandi stundar. Hin dæmigerða skýring á þessu er að fólk í dag sé einfaldlega of upptekið til að eyða tíma sínum í að horfa á sjónvarp en það reyndist ekki vera rétt. Fólk valdi frekar að eyða tíma sínum í að gera eitthvað gagnlegt og innihaldsríkt við tíma sinn. En að mati blaðamannanna fylgist ábyrgur þjóðfélagsþegn með fréttum og helstu þjóðfélagslegu umræðunum. Þarna fannst fjölmiðlafólkinu það standa frammi fyrir því að sú aðferð sem var við lýði skilaði ekki árangri.
Í forsetakosningunum 1996 var almenningi gefinn kostur á að taka þátt í umræðunni með öðrum þætti en oft áður. Fólk fékk nákvæma leiðsögn um hvernig það gæti fengið upplýsingar um það sem það hefði áhuga á í kosningunum, fékk að vera með í umræðunni og tilvonandi stjórnmálamenn beðnir um að sýna borgurunum áhuga eins og öðrum málefnum. Það kom í ljós að þegnar þjóðfélagsins vilja fá að gegna skyldu sinni en ekki vera óþarfir áhorfendur á gang mála.
Þetta sama ár var sett á laggirnar upplýsingamiðstöð eða miðlun á Internetinu á vegum bandarískra blaðamanna um neytendavæna blaðamennsku sem kallað er The Pew Center. Þar fer fram mikil umræða um blaðamennsku af þessu tagi. Margar greinar hafa verið skrifaðar um þetta efni á þessum stutta tíma sem liðinn er og áhuginn á upplýsingamiðstöðinni ávallt að aukast. Þar skiptast blaðamenn á skrifum um blaðamennsku af þessu tagi og gefa hvorum öðrum ráð. En aðalstefna blaðamanna sem eru fylgjandi þessari tegund af fréttamensku er að láta þegnana vita að skoðanir þeirra eru virtar og að finna farveg fyrir gagnvirk skoðanaskipti. Að blaðamaðurinn hafi áhuga á stjórnmálamönnunum, elítunni og þegnunum. Fólk vill að blaðamaðurinn spyrji sjálfan sig; hvað ætli náunganum á götunni þyki um þetta mál? Ekki alltaf að spyrja stjórnmálamennina eða „snillingana“sem hafa vit á öllu.
Neytendavæn blaðamennska snýst um að gefa borgurunum þær upplýsingar sem sem þeir þarfnast til að geta verið góðir og gildir þegnar frekar en neytendur þeirrar vöru sem blaðamaðurinn framleiðir. Blaðamaðurinn á ekki að spyrja hvað fólk vill lesa eða hvað það vill sjá í dagblöðunum heldur að spyrja; hvað veldur fólki áhyggjum? Hvað reitir það til reiði? Hverjar eru vonir þeirra og væntingar? Blaðamenn verða að gefa fólki ákveðna leiðsögn um hvernig á að nálgast kerfið og hvert þeirra hlutverk er í kerfinu. T.d. auglýsti eitt dagblaðið í Bandaríkjunum myndband þar sem fólki var sýnt hvernig það átti að verjast glæpum í nágrenni sínu. Eftir eitt og hálft ár höfðu eitt þúsund manns nálgast myndbandið. Blöðin eiga að gera borgurunum gagn, styðja þá í hlutverki sínu sem þegnum og í lífi sínu í þjóðfélaginu í heild. Að hafa blöðin á mannlegri nótum og þjónusta almenning er það takmark sem blaðamennirnir settu sér.
Að gera umræðuna meira lifandi
Neytendavæn blaðamennska er meira víxlverkandi fréttamennska en sú hefðbundna. Meira pláss er fyrir fólk sem vill láta skoðanir sínar í ljós, hringborðsumræður í sjónvarpi og sýnt er frá borgaralegum fundum. Umræðan verður þannig meira lifandi og áhugaverðari fyrir vikið. Borgararnir eiga að finna fyrir einhvers konar “feedback” frá fjölmiðlunum og að fjölmiðlar eigi hjálpa fólki við að taka ákvarðanir í veigamiklum þjóðfélagsmálum.
Einhver kynni nú að spyrja sig hvort ekki væri fulllangt gengið um hvert hlutverk fréttamanna er. Þjóðfélagið kallar á þessar breytingar. Þróunin hefur aldrei verið meiri í t.d. tæknimálum og þjóðfélagið breytist í takt við tímann en það er ekki víst að allir þegnar landsins viti hver takturinn er. Það er auðvelt að láta sér fátt um finnast og láta aðra um málið. Það er einmitt vandamálið að firringin er orðin svo mikil og fólki langar ekki lengur að taka þátt í dansinum. En þessi tegund af blaðamennsku er tilraun til að gera hin dæmigerða stórborgarbúa ábyrgari og taka þátt í þjóðfélagsumræðunni. Blaðamennirnir hvetja fólk til að vera með í staðinn fyrir að fólki finnist alltaf að einhverjir aðrir eigi að taka ákvörðun um öll mál. Að málinu sé öllum viðkomandi en ekki bara fáum útvöldum. Einnig fær almenningur tækifæri á að skipuleggja sína eigin dagskrá og velja það sem því þykir nauðsynlegt og gagnlegt fyrir almenning að hafa í fjölmiðlinum. Fólk verður að finna sjálft hjá sér þörfina til að vilja koma fram og taka þátt og leysa þau vandamál sem eru á fyrir hendi en ekki láta fjölmiðlana stýra ferðinni.
Hlutleysis verður áfram gætt
Hlutleysi er eitt af þeim vandamálum sem koma upp hjá blaðamönnum sem stunda neytendavæna blaðamennsku. Með því að láta fólk sjá sjálft um málin og gefa því aðeins rými og tíma í fjölmiðlum getur blaðamaðurinn haldið sínu hlutleysi (ef hann hefur áhuga á því). Blaðamaðurinn á ekki að teyma lestina heldur aðeins að vera n.k. umsjónarmaður þess sem fer fram. Blaðamaðurinn á einnig að vera milliliður á milli fólks til að koma á víxlverkandi samskiptum á meðal almennings á sviði fjölmiðlanna. Almenningur og blaðamenn vinna saman að því að gera fréttirnar gagnlegri fyrir alla. Lou Ureneck ritstjóri á Portland, Me,. Dagblaðinu líkir þessu saman við að prjóna peysu og segir að blaðamenn séu góðir í að lýsa garninu eða lykkjunum en almenningur í að lýsa allri peysunni. Sem þýðir að saman vinnur þessi hópur að góðri uppbyggingu að gagnlegum fréttum.Sem dæmi um gagnlegar fréttir eða upplýsingar fyrir fólk er t.d. ef fólk lendir í kasti við lögin þá getur fólk fengið upplýsingar í blöðunum, ef það vill, hvernig það á að snúa sér.
Þessi tegund af blaða – og fréttamennsku hefur verið mjög vel tekið í Bandaríkjunum bæði af lesendum og blaðamönnunum sjálfum. En það er ekki verið að tala um að hætta allri hefðbundnri blaða- og fréttamennsku heldur er þetta viðbót við daglega umræðu um efnahag, stjórnmál og slysafréttir. Það er verið að draga almenning betur inn í umræðuna um þessi mál. Blaðamaðurinn rammar fréttina öðruvísi inn og gerir hana aðgengilegri fyrir lesandann.
Umræðan á gráa svæðinu
Í neytendavænni blaðamennsku er mikið verið að skrifa um hin gráu svæði. Það er umræða um eitthvað sem hægt er að deila um endalaust eins og t.d. um fóstureyðingu, hækkun skatta og skólagjalda og lagningu nýrra vega. Annað dæmi er um rannsóknir nokkurra blaðamanna á ástæðunni fyrir því að fleiri skólastyrkir færu til hvítra nemenda en svartra nemanda. Þessi skrif í blöðunum hefðu getað kostað miklar ritdeilur og illindi en það gerðist ekki. Blaðamönnunum sem skrifuðu um málið tókst að koma þessu þannig frá sér á prent að fólk fór að hugsa og leita leiða til að leiðrétta þetta mál. Þeir römmuðu málið þannig inn og enginn var kallaður kynþáttahatari í það sinnið. Þetta eru viðkvæm mál fyrir blaðamenn að skrifa um þannig að með hjálp lesenda er hægt að koma af stað gagnlegri umræðu á síðum blaðanna. Í staðinn fyrir að skella málunum fram í einhverjum æsifréttastíl er reynt að nálgast viðfangsefnið á faglegri hátt. En það reynir á gæði blaðamannanna og hversu vönduð þeirra vinnubrögð eru. Einnig þurfa blaðamenn að sýna kjark til að fara út á þessar brautir. Hagsmunatengsl er væntanlega eitthvað sem ekki þekkist innan þessarar blaðamennsku. Það félli um sjálft sig ef blaðamaðurinn þyrfti að hafa í áhyggjur af við hvern hann mætti tala og hvern hann mætti ekki tala við. Blaðamanninum á að vera allt leyfilegt innan siðferðismarka og reyna að velta upp öllum hliðum málanna. Blaðamenn verða að kunna að setja sér mörk því auðvelt er að verða hlutdrægur þegar fjallað er um mál sem blaðamaðurinn hefur brennandi áhuga á. En er ekki góður blaðamaður sem hefur brennandi áhuga á starfi sínu alltaf ómeðvitað að feta í spor neytendavænrar blaðamennsku?
Einkenni vandaðra dagblaða
En það eru ekki allir sammála því að þetta sé ný tegund af blaðamennsku. Inn á upplýsingamiðli The Pew Center er að finna greinar eftir blaðamenn með áralanga reynslu sem telja að þessi tegund af blaðamennsku sé ekki ný og alls ekki sérstök tegund af blaðamennsku. Þeir telja að góð fréttablöð hafi starfað á þennan hátt í óralangan tíma. Að þetta sé einkenni vandaðra fjölmiðla. Þeir segja að þessi aðferð geti aldrei hjálpað fólki að lifa í samfélaginu og gera það að góðum þjóðfélagsþegnum. Blöðin verði alltaf að sýna stóru myndina af öllum málum og láta lesandann sjálfan dæma um hvernig tekst til. Ef þegnar samfélagsins hafi ekki áhuga þá sé það þeirra vandamál. Fjölmiðlarnir eru ekki í hlutverki björgunarbáta í samfélaginu heldur grimmir varðhundar sem eiga að sjá til þess að lýðræðinu sé framfylgt og að stjórnmálamenn komist ekki upp með spillingu. Þeir segja að blaðamenn séu ekki ábyrgir fyrir hamingju almennings heldur á fólk að fá þá vitneskju í uppvextinum hvað sé að vera góður og gagnlegur þegn í samfélaginu. Auðvitað eiga blaðamenn að hlusta á almenning en þetta er okkar vettvangur, segja þeir, og það eru blaðamennirnir sem ráða ferðinni. Almenningur á ekki að stjórna dagskrá blaðanna en það er sjálfsagt að segja frá borgarafundum eða sýna þá í beinni útsendingu eins og frá öðrum málefnum líðandi stundar. Þeir segja að dagblöðin séu skrifuð jafnt fyrir almenning sem og aðra.
Í neytendavænni blaðamennsku á að gera almenningi það ljóst að hagsmunir hans séu hafðir í fyrirrúmi. Það er eflaust hægt að rökræða lengi um hvað sé neytendavæn blaðamennska og hvað ekki. Ef venjulegur blaðamaður yrði spurður að fyrir hvern hann væri að skrifa sína frétt myndi hann örugglega svara að hann væri að skrifa fyrir hinn almenna lesanda. Þetta er eflaust spurning um hversu meðvitaðir blaðamenn eru í starfi sínu. Hversu tilbúinn er blaðamaðurinn til að fara út á mannlegu nóturnar og hætta ferli sínum með því að taka ekki viðtal við einhvern „snilling“ um ákveðið mál heldur við manninn eða konuna á götunni og spyrja þau hvað þeim finnist eigi að gera í málinu. En það er greinilega óþarfi fyri blaðamenn að hafa áhyggjur af þessu miðað við þær móttökur sem neytendavæn blaðamennska hefur fengið.
Það má segja að hér á Íslandi sé Morgunblaðið sá fjölmiðill sem hefur komist næst þessari tegund að blaðamennsku. Þar á bæ hafa menn kjarkinn og mannskapinn sem þorir að fara út á þessar brautir. Sunnudagsviðtalið við hvunndagshetjuna er afar vinsælt lesefni sem og öll viðtölin við „venjulegt“ fólk sem er að segja frá lífi sínu og starfi. Hinn almenni lesandi hefur augljóslega áhuga á þessu efni. Þáttur Stöðvar 2 Ísland í dag hefur einnig farið út á þessar brautir og gert þáttinn mjög vinsælan meðal áhorfenda. Áhorfendur vilja vita hvað hinn venjulegi maður er að gera en ekki endalaus viðtöl við fólk sem er talið eitthvað merkilegra en annað. Áhorfendur hafa ekki lengur áhuga á að dást af „hetjunum“ heldur vill það bera sig saman við fólkið sem fylgir hinni venjulegu lífslínu.
Þetta er ástæðan fyrir vinsældum neytendavænu blaðamennskunnar. Fólk er orðið þreytt á að dagblöðin séu endalaust að rífa niður og vill fá að sjá eitthvað jákvætt og gott við lífið í samfélaginu. Hlutverk blaðanna hefur ekki breyst heldur er þetta viðbót við allt hitt og fær hvoru tveggja að njóta sín með hinu. Ef að árangurinn er virkilega sá að þjóðfélagsþegnar verða ábyrgari þá er það takmark sem er verðugt að fylgja.
Heimildir:
Safn greina sem tekið er af upplýsingamiðlunum the Pew center.