. Í mars ´97 var sent út kynningarbréf. „Við vorum dálítið að þreifa fyrir okkur og þurftum að kynna teymið fyrir nýjum meðlimum í teyminu. Við hinar vorum alltaf að gefa handleiðslu og ráðgjöf. Við boðuðum hina og þessa aðila til okkar á fund til að fá að heyra hvað aðilar sem störfuðu með nýbúum höfðu að segja“, segir Kristín.
Heilbrigðismálin brunnu mikið á teyminu og var ákveðið að kalla fyrst á fólk úr þeim geira.

„í mörgum tilfellum tók fólk ekki lyfin sín vegna þess að það skyldi ekki mikilvægi þess“
Gestur Pálsson barnalæknir kom á fund í desember ´96. Hann er sá læknir sem skoðar öll erlend börn sem koma til landsins ef frá eru talin þau fara beint út á land. Til fundarins mættu einnig Haraldur Briem smitsjúkdómalæknir eða aðstoðarlandlæknir sem hann var þá, Stefán Þorvaldsson læknir á lungna og berklavarnardeild og Anna Eyjólfsdóttir skólahjúkrunarfræðingur komu einnig. „Þetta var mjög gagnlegur fundur því við fengum mjög breiða mynd af þeirra reynslu og þeirra vandamálum. Þau voru að reyna að samræma sínar skoðanir“, segir Kristín. Þau greindu frá reynslu sinni af meðhöndlun og lyfjagjöf á fólki sem er með ákveðið smit, t.d. berkla, og ekki mætti brjóta upp lyfjagjöfina. Þau lentu oft í vandræðum með þetta vegna þess að það voru ekki notaðir túlkar við skoðun. Hins vegar voru túlkar til staðar þegar átti að segja fólki frá því að það væri smitað. „Þannig að í mörgum tilfellum tók fólk ekki lyfin sín vegna þess að það skyldi ekki miklvægi þess“. Að sögn Kristínar er kynninga þörf til að fólk skilji tilganginn með lyfjainntöku, þ.e. það er álit þeirra að þrátt fyrir túlka skyldi fólk ekki mikilvægi lyfjainntöku. Það þarf bæði bæklinga og túlka. Gestur ítrekaði að ástandið væri ekki svo slæmt í Reykjavík en á flestum stöðum utan höfuðborgasvæðisins væri ástandið ekki nógu gott. Fólk fær ekki nógu og góðar upplýsingar þegar það kemur til landsins.
Læknar í Reykjavík og úti á landi reyna að samræma aðgerðir sínar og skoðanir þannig að allt fólk sem kemur til landsins fari í samræmda læknisskoðun. Eftir skoðun er sent bréf til útlendingaeftirlitsins.




Fleiri heimsóknir
Félagsmálastjóri kom á fund teymisins , forstöðumaður Útlendingaeftirlitsins, Karl Sigurbjörnsson biskup og fræðslustjóri biskupsstofu, fulltrúi frá Vinnumálastofnun og ræddu þá hnökra sem við vorum búin að finna í atvinnuréttindum útlendinga. Teymið leit á það sem eitt af þeirra verkefnum að benda á þá hnökra sem þau sáu. Sr.Toshiki Toma prestur flóttamanna og innflytjenda (upphaflega prestur japanskrar kirkju) var boðin þátttaka í teyminu sem hann þáði. Hann var ráðinn til starfa á Íslandi af Biskupsstofu í samvinnu við Reykjavíkurborg og Rauða Kross Íslands til að starfa við Fræðslu – og þjónustudeild kirkjunnar. Tilgangur þeirrar þjónustu er í fyrsta lagi að aðstoða innflytjendur og flóttamenn sem búsettir eru á Íslandi, auðvelda þeim að byrja nýtt líf í ókunnugu landi og vernda mannréttindi. Í öðru lagi er tilgangur þjónustunnar að stuðla að gagnkvæmum skilningi milli mismunandi trúarbragða til að fyrirbyggja óþarfa fordóma sem upp geta komið gegn öðrum trúarbrögðum en kristni. Starf sr. Toshiki Toma er ekki trúboð heldur er hans hlutverk að hjálpa öðrum að stunda trú sína, hver sem hún er og til þess hefur þau rétt til samkvæmt lögum. Mikið af vinnu hans felst í því að aðstoða fólk sem á í vandræðum af ýmsum toga og hjálpa því við að finna rétta leið við að leysa mál sín s.s. félagslega aðstoð, atvinnumál, skilnaðarmál o.fl.
Hann segir að mikill skortur sé á upplýsingum um uppbyggingu og þjónustu samfélagsins og skort á tillitsemi gagnvart skoðunum og tilfinningum sem eru öðruvísi. Meðlimum teymisins fannst mikilvægt að hafa mann eins og Toshiki með í teyminu því hann er sjálfur innflytjandi og hefur betri skilningu á þörfum þeirra sem til hans leita . Ákveðið var að Toshiki hefði fastan viðtalstíma í Upplýsingarmiðstöðinni
Jóhann Jóhannsson kom frá Útlendingaeftirlitinu. Hann nefndi að víða væri pottur brotinn varðandi málefni kvenna frá Asíulöndunum. Sumar þeirra halda að þær verði að giftast til að fá framlengt dvalarleyfi. En aðrar leiðir eru þeim færar en konurnar vita ekki um þessar leiðir. Jóhann segir nauðsynlegt að gefnir verði út bæklingar til að upplýsa konur um réttindi þeirra og skyldur á Íslandi. Elfa Björk fulltrúi Kvennaathvarfsins bendir á að konurnar sem koma í athvarfið stoppi stutt við en starfsfólk athvarfsins verði að benda þeim á leiðir sem þær geta farið eins og þá aðstoð sem Félagsþjónustan býður upp á. Þetta á við konur sem vilja hverfa aftur til óbreytts ástands en hinar sem ekki gera það dvelja lengi í athvarfinu og er lengsta dvölin sjö mánuðir. Fram kemur í upplýsingum frá Kvennatkvarfinu að þessar konur lifi mjög einangruðu lífi og viti nær ekkert íslenskt samfélag eða um réttarstöðu sína. Þær þurfa oft mikinn stuðning varðandi einföldustu atriði daglegs lífs s.s. varðandi mataræði og umönnun barna sinna, hvernig farið er í pósthús, banka og búðir ofl. Þær geta ekki hugsað sér lífið án karlmanns og þær þekkja ekki annað lífsmynstur. Þær eru oft fullar af skömm þegar þær koma í athvarfið og þarf að vinna mjög varfærnislega að því að byggja upp sjálfstraust þessara kvenna og að þær verði færar um að takast á við lífið á sínum forsendum. Enn er komið inn á tungumálaerfiðleika í samskiptum við þessar konur.

… og vinnan heldur áfram
Vinnan í teyminu heldur áfram og er orðinn, að sögn Kristínar, mjög sterkur „reschours“ hópur sem leitað er til um ráðgjöf í málefnum nýbúa og nú þarf teymið að fara að útbúa einhvers konar gagnabanka sem að aðrir geta þá gengið í. Allar upplýsingar af fundum teymisns eru til. Þannig að það ætti ekki að vera svo mikið mál að útbúa gagnabanka sem er mjög nauðsynlegt. Þetta hefur gert það að verkum að félagsráðgjafar hjá Félagsþjónustunni geta leitað til teymisins ef að þeir finna fyrir vanmætti í sinni vinnu gagnvart útlendingum. „Það er svo margt sem þarf að taka til greina t.d. í barnaverndarmálum. Það eru mismunandi uppeldisaðferðir í heiminum og þegar fólk flytur á milli landa þá flytur það með sér sína siði og sínar hefðir og kunnáttu. Stundum samræmast uppeldisaðferðir þeirra ekki íslenskum lögum á þá þarf að taka á því. Það er bannað að slá börn á Íslandi. Gangandi vegfarandi getur kært ef það sést til einhvers slá barn. Lögin eru til þess að vernda börn. Þegar uppeldisaðferðir brjóta í bága við lög á Íslandi þá ber að taka á því. En það er mjög erfitt að taka á því vegna þess að maður þarf að setja sig inn í aðstæður, hvernig er þetta á Filipseyjum, hvernig er þetta á Taílandi, í Kína, í Bandaríkjunum, á Bretlandi. Það er ekki langt síðan að á Bretlandi voru börn slegin með priki. Þetta verðum við að kynna okkur. Tilgangurinn með teyminu var að breiða út þekkingu. Við vorum þarna fjóra mikið að basla.Við höfum haldið fyrirlestra og reynt að koma okkur á framfæri. Nú erum við orðin miklu fleiri og það er að tilstillan teymisins“, segir Kristín.
Barnaheill hélt upp á 10 ára afmæli sitt í lok október á þessu ári með ráðstefnu sem tileinkuð var Börnum af erlendum uppruna. Þar héldu fjórir nefndarmenn úr teyminu sem vorum með fyrirlestra. Óhætt er að fullyrða að teymið hafi vakið athygli og almenna umræðu á málefnum nýbúa á Íslandi.


Samstarfsnefnd verður til
Jón Björnsson yfirmaður fjölskyldu og þróunarsviðs Ráðhúsins kom á fund teymisins í október 1998 og má segja að þegar hann kom í heimsókn til teymisins hafi orðið svolítill vendipunktur í starfsemi þess „vegna þess að teymið hafði ekkert fjármagn á bak við sig áður en nú var kominn tími til að fara að framkvæma“, segir Kristín. Jón Björnsson lagði til að teyminu yrði breytt í samstarfsnefnd með ákveðna fjárveitingu og vænlegt væri að fá einhvern pólitíkus til samstarfs sem gæti haldið áfram með málið lengra upp stigann og farið fram á ákveðna fjárveitingu til þess að standa straum af rekstri samstarfsnefndarinnar með starfsmanni til ákveðins tíma. Nú eru Kristín, Kolbrún og Ingibjörg Hafstað farnar út úr teyminu vegna þess að þær voru skipaðar í þessa samstarfsnefnd sem á að vinna að stefnumótun Reykjavíkurborgar í málefnum nýbúa. Snjólaug Stefánsdóttir sem vinnur á fjölskyldu og þróunarsviði Ráðhússins hefur verið ráðinn starfsmaður samstarfsnefndarinnar.
Það skiptir mjög miklu máli, að sögn Kristínar, að geta leitað til teymisins og geta treyst fólkinu sem þar starfar og þurfa ekki alltaf að byrja á því að útskýra allt.
Nú hafa orðið miklar breytingar á teyminu. Í staðinn fyrir Kristínu í teyminu er Guðrún Pétursdóttir frá Upplýsingamiðstöðinni en hún og er að gefa út bók um fjölmenningarlega kennslu. Nýr fulltrúi kemur frá Leikskólum Reykjavíkur í staðinn fyrir Kolbrúnu. Sigríður Jóhannesdóttir, hjúkrunarfræðingur á barnadeildinni, kemur í staðinn fyrir Hjördísi, hún er. Einnig sitja áfram fulltrúar frá Kvennaathvarfinu.
Vegna þessa vendi punkts var teymið stækkað. Nú er búið að biðja um fulltrúa frá Biskupsstofu og það er Tohsiki Toma prestur innflytjenda og flóttamanna, fulltrúi frá Útlendingaeftirlitinu og það verður Jóhann Jóhannson. Útlendingaeftirlit á að heita útlendingastofa og verður sjálfstætt undir dómsmálaráðuneyti en ekki undir ríkislögreglustjóra. Sigríður Guðmundsdóttir kemur frá Rauða krossinum og einnig fulltrúi frá lögreglunni í Reykjavík.
Teymið er að verða breiður samstarfsvettvangur sem er mjög eðlileg þróun á svona samstarfi. Teymið mun aldrei koma til með að framkvæma neitt sem felur í sér kostnað nema í formi greina skrifa, bréfa til ráðamanna. Teymið heldur áfram að byggja upp þekkingu sem fólk getur leitað til en samstarfsnefndin sér um framkvæmdirnar. Það hefur verið leitað til teymisins frá öðrum sveitafélögum eins og t.d. Hafnarfirði og eru Hafnfirðingar að fara í sömu vinnu og hefur verið gerð hér í Reykjavík. Kópavogur hefur leitað til teymisins og Seltjarnarnes en hingað til hefur Reykjavíkurborg þjónað öllu þessu svæði. „Það er ýmislegt að gerast og það er vegna þess að það eru orðnir fleiri sem að láta sig málið varða“, segir Kristín.

Teymið hefur sannað gildi sitt
Það er ljóst að hér hefur verið unnið óeigingjarnt starf af fólki sem vildi sjá framfarir í málefnum nýbúa. En árangurs af þessu verkefni má fara að vænta fljótlega. Áþreifanlegur árangur verður sýnilegur þegar niðurstöður úr rannsóknum fara að verða jákvæðar fyrir íslenskt samfélag. Þegar nýbúum fer að fjölga í framhaldsnámi og fara að sjást í í ábyrgðarstöðum í samfélaginu. En til þess að það geti orðið þarf að lyfta grettistaki í menntun nýbúa því tölur sýna að yfir 90% brottfall sé meðal ungra nýbúa í framhaldsnámi. Fordómar gagnvart nýbúum virðast vera til staðar á Íslandi. Samkvæmt nýjustu fréttum fara ungir sjálfstæðismenn Akureyri fram á að ef nýbúi nái ekki grunnskólaprófi í íslensku fái hann ekki dvalarleyfi á Íslandi.
Starf nefndarinnar hefur verið aðilum sem koma að málefnum nýbúa mikil nauðsyn. Teymið þrýsti á og sýndi fram á nauðyn þess að reka Upplýsingamiðstöð nýbúa í Skerjafirði þar sem allar upplýsingar eru á einum stað. Teymið er fyrsta vænlega starfið í átt til þeirrar þróunnar og ráðamenn ættu að leggja áherslu á aðgerðir til langtíma sem eru vænlegar fyrir þjóðfélagið.
Kerfið getur verið þungt í vöfum fyrir þá sem þekkja ekki til. Tengiliðar borgarstofnannar hafa sýnt teyminu mikinn áhuga og greinilegt að fólk hefur verið að starfa hvert í sínu horninu. Borgarstjóri sannfærðist um nauðsyn aðgerðanna og veitti fé til að hrinda framkvæmdum af stað. Málefni nýbúa eru komin í góðan farveg á Íslandi og vonandi skilar það sér til þeirra sem þurfa á þessari aðstoð að halda. Ef vel er haldið um þessi málefni fara fordómar minnkandi og fólk fer að skilja það að á Íslandi býr fólk frá öllum heimsálfum sem eiga og mega lifa í sátt og samlyndi við nágranna sína og nánasta umhverfi. Íslendingar verða fara að átta sig á því að vænst er að leyfa menningarlegum fjölbreytileika að njóta sín þar sem mannlífið fær að blómstra í allri sinni bestu mynd.