Það hefur víst ekki farið framhjá neinum kosningasigur hægrimannsins Jean-Marie Le Pens í forsetakosningunum í Frakklandi. Mikið moldviðri hefur skapast út af þeim atburði sem þó verður ekki betur séð en að sé mun umfangsmeira í fjölmiðlum en í raunveruleikanum. Dagblöð og ljósvakamiðlar eru uppfullir af upphrópunum og ábyrgðarlausum fullyrðingum sem eiga gjarnan lítið erindi við raunveruleikann eða innihalda skrumskælda útgáfu af sannleikanum.
Talað er um reiðarslag í frönskum stjórnmálum og hneyksli. Já, það er víst hneyksli nú orðið að menn skuli voga sér að kjósa samkvæmt sinni eigin sannfæringu. Það má víst ekki lengur. Maður sér varla frétt um þennan atburð þar sem því er ekki haldið fram að með þessu sé lýðræðinu í Frakklandi að hnigna og að helst eigi að banna Flokk Le Pens. Samt hefur Le Pen ekki nein stefnumál uppi um afnám lýðræðis í Frakklandi eða nokkuð slíkt. Hvað skyldi hafa gerst ef kommúnistar hefðu náð þessum árangri?
Svokallaðir lýðræðissinnar hópast á götum Parísar og mótmæla kosningum sem þó voru í alla staði lýðræðislegar. Það virðist því sem að fyrir slíkum aðilum gildi lýðræðið einungis þegar það hentar þeim en annars ekki. Banna á stjórnmálaflokka sem ekki eru “æskilegir” að mati þessara aðila og einungis að leyfa “viðurkennda” flokka sem hljóta náð fyrir augum valdhafanna. Stjórnarfar í ríkjum eins og Hitlers-Þýskalandi og Sovétríkjunum kemur óþægilega fljótt upp í hugann…
Þessi atburður ætti annars að vekja ráðamenn í Frakklandi úr dvala hvað varðar innflytjendamál landsins. Um fimmtungur franskra kjósenda, sem tóku þátt í þessum kosningum, eru með þessu að senda augljós skilaboð um að þeir vilji að tekið sé á málaflokknum í stað þess að neita stöðugt að horfast í augu við vandmálin og láta þau þess í stað krauma og vaxa undir yfirborði sem reynt er að halda sléttu og felldu. Fyrr eða síðar flýtur upp úr pottunum og þá verður æði erfitt, ef ekki útilokað, að rétta við það sem menn hafa fram að því vanrækt. Menn uppskera eins og þeir sá í þessu eins og öðru.
Að lokum skal tekið fram, til að forðast sleggjudóma sem ákveðnir aðilar hafa víst stundum þörf fyrir að fella, að þessi grein er ekki rituð til varnar Jean-Marie Le Pen heldur til varnar lýðræðinu.
Hjörtur J.
Með kveðju,