Sælt veri fólkið. Nú er ég á öðru ári í sálfræði og stefni á að taka master í klínískri sálfræði (klínískur sálfræðingur er sumsé það sem almenningur kallar einfaldlega “sálfræðingur”). Og mig langaði að ræða þetta undarlega fyrirkomulag á niðurgreiðslum frá ríkinu.

Hvernig stendur á því að skjólstæðingur sem þarfnast aðstoðar fær 0% niðurgreiðslu fyrir að hitta klínískan sálfræðing, 50% niðurgreiðslu fyrir að hitta geðlækni (þeir beita bæði lyfjum og klínískri sálfræði), en 100% niðurgreiðslu fyrir að hitta lútersk-evangelískan prest (Þjóðkirkjan er sumsé lútersk-evangelísk kirkja)?

Þjóðkirkjuprestar taka skilst mér einn áfanga af svokallaðri “sálargæslu” í sínu námi, meðan klínískir sálfræðingar taka 5 ár af sálfræði, þar af 2 ár í sérhæfingu, og geðlæknar taka 6 ár í almennu læknanámi og síðan einhver X ár af sálfræði og geðlækningum.

Finnst einhverjum þetta eðlilegt? Af hverju eru peningar skattgreiðenda ekki frekar settir í fagfólk sem hefur bæði lengri og betri menntun í að aðstoða fólk með sín andlegu vandamál?

Og ef einhver ætlar að segja að yfirgnæfandi meirihluti kristni meðal íslensku þjóðarinnar réttlæti núverandi fyrirkomulag, þá vil ég benda á að kristnir eru ekki nema 53% af þjóðinni samkvæmt stórri könnun sem Þjóðkirkjan pantaði af Gallup árið 2004.


HEIMILDIR:

“Trúarlíf Íslendinga” - Könnun:

http://www2.kirkjan.is/skjol/truarlif_islendinga_2004.pdf

ATH að fyrst var fólk spurt “telur þú þig vera trúaða(n) eða ekki?” og um 69% svöruðu játandi. Síðan voru þessi 69% spurð aftur “hver af eftirfarandi fullyrðingum kemst næst trúarafstöðu þinni?” og um 76% af áður umræddum 69% svöruðu “ég játa kristna trú”. Því þarf að margfalda 0,76*0,69 til að fá áður umrædd 53% sem hlutfall Íslendinga sem játa kristna trú.