Þessi grein er á www.mbl.is
Hæstiréttur sýknaði í dag rúmlega fertugan karlmann sem dæmdur var í Héraðsdómi Reykjavíkur í desember sl. fyrir að draga upp eftirlíkingu af skammbyssu og hóta dyraverði veitingahúss í Reykjavík með henni er honum var synjað um inngöngu.
Maðurinn var dæmdur fyrir vopnalagabrot og hótun í desember með því að hafa borið eftirlíkingu af skammbyssu á almannafæri fyrir utan Kaffi Stíg að Rauðarárstíg 33 í Reykjavík og þar við dyrnar, er honum hafði verið synjað um inngöngu af dyraverði, dregið hana upp og ógnað honum með henni.
Vitni voru ekki til frásagnar um hvort maðurinn hefði hótað dyraverðinum. Gegn eindreginni neitun hans þótti ósannað að hann hefði gerst sekur um brot gegn hegningarlögum.
Þá komst Hæstiréttur að þeirri niðurstöðu að með hliðsjón af þeim kafla vopnalaga, sem fjallar um meðferð skotvopna og skotfæra, geti umrædd eftirlíking eðli máls samkvæmt ekki talist falla undir ákvæði þess kafla. Var hann því einnig sýknaður af ákæru um brot gegn lögunum, en á grundvelli þeirra laga dæmdi héraðsdómur vopn hans upptækt til ríkissjóðs.
Hæstiréttur felldi allan sakarkostnað málsins á ríkissjóð, þar með talin 150.000 króna málsvarnarlaun verjanda ákærða í héraði og fyrir Hæstarétti.
Er þetta réttur dómur? Má ég semsagt fara inn í banka og heimta peninga svo lengi sem það er gervibyssa. sjáið þið fáránleikann í þessu. En þrátt fyrir allt er þetta hárréttur dómur, því engin vitni voru að “viðburðinum” og maðurinn harðneitaði öllum sakargiftum, og því er ekki hægt að úrskurða hann sekan.