Sæl öll,

Össur Skarphéðinsson er ekki sáttur við afstöðu Davíðs Oddssonar í málefnum Evrópusambandsins eins og menn þekkja enda á öndverðri skoðun í þeim málum. Nýjasta útspil Össurar í þeim efnum verður þó að teljast með eindæmum fáránlegt en það gengur út á það að saka Davíð um að vera með fordóma gagnvart sambandinu, sbr. m.a. eftirfarandi frétt af Vísi.is:

————————————————-

Vísir, Lau. 13. apr. 19:24

Davíð fordómafullur í garð ESB

Össur Skarphéðinsson, formaður Samfylkingarinnar, segir Davíð Oddsson, forsætisráðherra, stjórnast af fordómum þegar hann bannfæri umræðu um hugsanlega aðild Íslands að Evrópusambandinu. Þá telur Össur þá Davíð og Kjell Magne Bondevik, kollega hans í Noregi, baáð vera úr sambandi við þróun umræðuunar í ríkjum sínum.

Össur lét þessi ummæli falla í ræðu á flokksstjórnarfundi Samfylkingarinnar á Akureyri á laugardag og gat þess jafnframt að tengsl Íslands við Evrópu yrðu langmesta hagsmunamál þjóðarinnar á næstu árum.

RÚV greindi frá.

—————————————————

Já, Össur hefur verið að slá í gegn hvað eftir annað undanfarið eins og menn eflaust kannast við. Það er annars oft haft á orði að fordómar sé ofnotað hugtak og það ekki að undra eins og menn þekkja sjálfsagt. Það versta við þetta ferli er þó það að með ofnotkun slíkra hugtaka, um hluti sem þau eiga lítið eða ekkert erindi við, dregur það úr vægi hugtakanna og getur hæglega leitt til þess að fólk verði hreinlega ónæmt fyrir því þegar þær aðstæður skapast að hugtökin eiga raunverulega erindi.

Hjörtur J.
Með kveðju,