Copy/paste af vísindavefnum. Staðreyndirnar tala sínu máli, þetta er fín grein eftir Jón Orm Halldórsson.
Hvaða yfirráðarétt hafa Ísraelar á hernumdusvæðum Palestínu?
Spurningunni er í raun fljótsvarað því að Ísraelsmenn hafa
nákvæmlega engan rétt til yfirráða á hernámssvæðunum í Palestínu. Til þess að skilja betur um hvað málið snýst er hins vegar nauðsynlegt að líta nokkuð aftur í tímann.
Ísraelsmenn lögðu svæðin undir sig í stríði sem þeir hófu gegn nágrannaríkjum sínum árið 1967. Þótt Ísraelsmenn hafi verið árásaraðilar í því stríði er rétt að hafa í huga að nágrannaríki Ísraels höfðu haft í alvarlegum hótunum gegn ríkinu um langt skeið. Herseta Ísraelsmanna á herteknu svæðunum brýtur hins vegar greinilega í bága við alþjóðalög. Hersetan er einnig í trássi við ályktanir öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna eins og nánar verður vikið að hér á eftir.
Fyrst er hins vegar rétt að líta enn lengra aftur í tímann. Ísraelsríki varð til eftir að Sameinuðu þjóðirnar undir forustu Bandaríkjanna, Sovétríkjanna og Breta skiptu Palestínu, sem áður var undir stjórn Breta, milli Gyðinga og Palestínumanna árið 1947. Hvor aðilinn um sig fékk um helming landsins.
Palestínumenn sættu sig ekki við þessa niðurstöðu enda voru þeir í miklum meirihluta í landinu og voru afkomendur fólks sem hafði búið þar um aldir og árþúsundir. Fáum áratugum áður höfðu Gyðingar líka verið aðeins örlítill minnihluti í landinu en með ofsóknum og fjöldamorðum nasista á Gyðingum í Evrópu fluttu stórir hópar þeirra frá Evrópu, einkum til Bandaríkjanna og Ísraels. Land í eigu Gyðinga í Palestínu var á þessum tíma um það bil 7% alls lands.
Ríki Palestínumanna var ekki stofnað á sama tíma og Ísraelsríki þar sem Palestínumen sættu sig ekki við þau málalok að halda aðeins helmingi lands síns. Í stríði sem braust út náðu Gyðingar hins vegar undir sig helmingi þess lands sem Palestínumönnum hafði verið úthlutað og réðu eftir það 78% af Palestínu. Það sem á vantaði var Vesturbakki Jórdanárinnar og Gazaströndin. Þau svæði lögðu Ísraelsmenn síðan undir sig árið 1967 og réðu þá allri Palestínu. Það eru einungis þessi síðast herteknu 22% af Palestínu sem nú eru nefnd herteknu svæðin, þótt stór hluti Ísraelsríkis standi í reynd á herteknum svæðum frá 1948.
Vandi flóttamanna sem er einn erfiðasti hluti þessarar deilu snýr hins vegar beint að þessari fyrri stækkun Ísraels. Nær ein milljón manna flúði af heimilum sínum við fæðingu og stækkun Ísraelsríkis 1947-1948. Fólkið var ýmist flutt burt með nauðungarflutningum á vegum ísraelskra hersveita, eða þá hrakið af heimilum sínum með ógnunum. Þar áttu ekki síst í hlut hryðjuverkasamtök Gyðinga undir stjórn Begins, fyrrum forsætisráðherra Ísraels, sem frömdu fjöldamorð í byggðum Palestínumanna og hótuðu fólki í þorpum og bæjum landsins áframhaldandi fjöldamorðum ef fólkið kæmi sér ekki á brott. Þetta fólk og afkomendur þess búa nú í flóttamannabúðum.
Annars vegar er þar um að ræða flóttamannabúðir á herteknu svæðunum, sem komust mjög í fréttir á vordögum 2002, og hins vegar búðir flóttamanna í löndunum í kring. Alls eru um það bil 5 milljónir Palestínumanna flóttamenn en Palestínumenn eru alls tæplega 8 milljónir talsins.
Samkvæmt alþjóðalögum og samþykktum hafa flóttamenn fullan rétt til þess að snúa aftur til heimkynna sinna. Ákvæði þessa efnis er meðal annars að finna í Mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna, í alþjóðasáttmálanum um borgaraleg og pólitísk réttindi, í Genfarsáttmálanum og í ítrekuðum ályktunum allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna. Einnig halda sumir því fram að sú stefna Ísraelsmanna að banna arabískum flóttamönnum að snúa til heimila sinna á sama tíma og Gyðingar frá öðrum heimsálfum eru hvattir til að flytja til landsins og setjast að á herteknum svæðum sé brot á alþjóðasáttmála um bann við kynþáttamisrétti.
Fyrsta ályktun öryggisráðsins um að Ísraelsmenn skuli hverfa af öllum herteknu svæðunum frá 1967, ályktun 242, var gerð árið 1967, en ályktanir öryggisráðsins eiga að vera bindandi fyrir ríki heims. Að auki brýtur stefna og framferði Ísraelsmanna á herteknum svæðunum í bága við fjölda alþjóðalaga og alþjóðlegra samþykkta.
Þar má nefna Genfarsáttmálann en í 49. grein hans er bannað með skýrum hætti að þegnar hernámsveldis setjist að á herteknum svæðum. Um það bil 400 þúsund Ísraelsmenn hafa sest að í svokölluðum landnemabyggðum á herteknu svæðunum, um helmingur þeirra í kringum Jerúsalem en þá borg hafa Ísraelsmenn þanið út yfir hertekin landsvæði í trássi við ákvæði Genfarsáttmálans. Flestar þessara ólöglegu byggða eru á Vesturbakkanum en þær eru þó einnig á Gazaströndinni þar sem 360 ferkílómetrum lands er skipt þannig að á einum þriðja búa fimm þúsund Ísraelsmenn en á tveimur þriðju ein milljón Palestínumanna.
Í 46. grein Haag-sáttmálans er eignaupptaka hernámsveldis á landi og öðru í einkaeign á hernumdum svæðum með öllu bönnuð. Landnemabyggðirnar, eða byggðir landtökumanna eins og þær eru líka stundum kallaðar, eru þó margar reistar á landi sem Ísraelsmenn hafa beitt valdi til að gera upptækt. Á hernámssvæðunum á Vesturbakkanum hafa Ísraelsmenn einnig lagt vegi á milli landnemabyggða á landi sem Ísraelsmenn hafa gert upptækt úr einkaeign Palestínumanna. Vegirnir kljúfa byggðir Palestínumanna í sundur en Palestínumönnum er bannað að nota þá. Vegirnir eru beinlínis lagðir með það í huga að skipta landi Palestínumanna niður í tugi eða jafnvel hundruð einangraða skika eins og augljóst verður af athugunum á kortum að þessum svæðum, en bæði byggðirnar og framkvæmdir við vegina eru augljós brot á alþjóðasamþykktum.
Í ályktun öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna númer 465 segir líka að flutningur Ísraelsmanna á eigin þegnum til hernámssvæðanna sé “alvarleg hindrun” í vegi friðar og í ályktuninni er þess krafist að Ísraelar hverfi frá landnemabyggðum á herteknu svæðunum. Vatn er af skornum skammti í Palestínu og notkun Ísraelsmanna á vatni af svæðum Palestínumanna brýtur einnig í bága við alþjóðasamþykktir, enda er þarna um að ræða eignaupptöku á langmikilvægustu auðlind landsins. Landtökumönnum mun vera úthlutaðar 1450 kúbikmetrum af vatni á mann á ári en Palestínumenn hafa einungis 83 kúbikmetra á mann til sinna umráða á ári hverju. Allt athafnalíf og daglegt líf á svæðum Palestínumanna líður mjög fyrir vatnsskort.
Alþjóðasamfélagið hefur tjáð sig um þessi mál með ýmsum hætti. Það er annars auðvitað ekki eitt samstætt fyrirbæri og skoðanir innan þess eru skiptar á þessum málum sem og öllum öðrum. Allar þær ályktanir sem nefndar eru hér á undan og þau alþjóðalög og alþjóðasamþykktir sem vitnað er til má þó líta á sem skýlausar yfirlýsingar umheimsins enda eru nær öll ríki heims aðilar að þeim. Í tilviki öryggisráðsins hefur ekkert stórveldanna beitt neitunarvaldi gegn samþykktunum.
Mikilvægasti klofningurinn í afstöðu alþjóðasamfélagsins felst í sérstöðu Bandaríkjanna sem hafa oft verið nánast eina ríkið sem stendur við hlið Ísraels. Meðal annars af þeirri ástæðu hafa Bandaríkin verið nánast ein um að hafa nokkur umtalsverð áhrif á stefnu Ísraelsríkis. Bandaríkin hafa á síðustu áratugum veitt Ísraelsríki meiri efnhags- og hernaðaraðstoð en þau hafa samanlagt veitt til ríkja Afríku sunnan Sahara og til Suður-Ameríku, en þær heimsálfur eru byggðar milljarði fátækra manna. Með þessum gífurlega stuðningi hafa Bandaríkin styrkt stórlega efnahags- og hernaðarstöðu Ísraelsríkis.
Ríki Evrópusambandsins hafa til þessa nánast engin áhrif haft á stefnu Ísraelsríkis sem hefur meðal annars falist í því að koma í veg fyrir að alþjóðlegir aðilar eins og Sameinuðu þjóðirnar og öll önnur ríki en Bandaríkin hafi veruleg afskipti af málinu. Ríki Evrópusambandsins gætu hins vegar sennilega haft veruleg áhrif stefnu Ísraels, en þó líklega einungis með þeim hætti að beita eða hóta viðskiptaþvingunum, en um helmingur alls útflutnings Ísraels fer til Evrópusambandsins. Hugmyndir um slíkar viðskiptaþvinganir hafa nýlega komið fram innan ESB en mjög óljóst hvað úr þeim verður.
Mikill hluti ríkja heims hefur einnig með einum eða öðrum hætti mótmælt stefnu Ísraelsmanna og brotum þeirra á alþjóðalögum og alþjóðasamþykktum.