Í fyrsta lagi (og ég veit að þetta getur vel flokkast undir smámunasemi), þá er alrangt að tala um “menn og konur”. Þessi setning myndi þýðast yfir á ensku “humans and women”, og þannig gefið í skyn að konur séu ekki menn. “Maður” er nefnilega tegundarheitið, rétt eins og “steypireyður”. Eða hvað var fólk að meina hér áður þegar það sagði “Konur eru líka menn!”? Varla að konur væru bæði karlkyns og kvenkyns mannverur. Það orð sem kemur á móti kona í tvenndarpörun er ekki “maður” heldur “karl”. Þess vegna er ekkert athugavert við að tala um alþingismenn, sjómenn eða verkamenn, jafnvel þegar verið er að tala um konur. En snúum okkur að alvöru málsins.
En hins vegar er mikill munur á að segja "[e]f annar aðilinn fullyrðir sekt hins, á meðan að sá ákærði heldur fram sakleysi sínu, og það eru engin vitni eða sönnunargögn til staðar, þá er út í hött að dæma þá seka[,]“ annars vegar og að spyrja ”ef enginn sér tréð í skóginum falla, féll það þá nokkuð?“ Það eru nefnilega sönnunargögn fyrir því að tréð hafi fallið: Það stendur ekki heldur liggur það. Tré vaxa upp á við, og ef þau liggja þá hlýtur það að hafa fallið. Ástæður fallsins geta svo verið margs konar, en þær skipta bara alls engu máli í þessu dæmi. Hins vegar er það ekki sjálfgefið að ef einhver kærir annan fyrir nauðgun að nauðgun hafi átt sér stað, þar sem menn geta kært glæpi sem hafa aldrei átt sér stað.
Orð sálfræðinga og sérfræðinga geta svo talist sem sönnunargögn, rétt eins og þú segir. En ef það er ekki einusinni um slíkt að ræða - ef það er alls ekki neitt, hvorki húð undir nöglum fórnarlambsins, skaparhár nauðgarans á líkama fórnarlambs, engir líkamlegir áverkar, og ekkert kemur fram í viðtölum við sálfræðinga og aðra sérfræðinga sem bendir til þess að um nauðgun hafi verið að ræða og svo framvegis - á hvaða grundvelli á að dæma mann sekan? Á því einu, að þar sem að þetta sé svo hræðilegur glæpur að hver sá sem kærir hann hlýtur að vera að segja satt? Það er einfaldlega ekki nóg þegar það er aðeins orð hins ákærða gegn orði þess sem ákærir. En það er allt önnur staða en þegar það er orð hins ákærða gegn orðum kæranda og sérfræðinga. Þá er um sönnunargögn að ræða, en ég var hins vegar að tala um tilfelli, þar sem um alls engin sönnunargögn er að ræða. Og við (eða a.m.k. ég, ég veit svo sem ekki hvað aðrir eru að meina) erum ALLS EKKI (afsakið hástafanotkun, en það varð bara að leggja áherslu á þetta) að segja, að ” … ef maður er skynsamur þegar hann nauðgar konu [eða karli] og meðal annars notar smokk, passar sig að nota ekki líkamlegt ofbeldi [yrði það ekki ári erfitt?], smyr sig áður og neitar svo allri sök að hann sé ekki sekur, því það eru enginn sönnunargögn og orð á móti orði!" Hann er sekur, eftir sem áður. En það væri ekki rétt að dæma hann sekan fyrir dómstólum ef ekkert - alls ekkert, eins og ég nefndi hér fyrir ofan, hvorki vitnisburður þeirra sem tóku á móti fórnarlambinu, sálfræðinga, líkamlegir áverkar og svo framvegis - benti til þess að nauðgun hefði átt sér stað eða að hinn ákærði hafi framið glæpinn.