Þessi grein byrtist í Morgunblaðinu laugardaginn 13. apríl og er eftir Óla Tynes fréttamann. Þessi grein er mjög góð og held ég að allir hafi gott af því að lesa hana. Umræðan uppá síðkastið hefur verið svo lítið lituð af skoðunum Palestínumanna og það að Ísrael sé vondi kallinn í þessu máli. Bara rétt að minna á að “Sjaldan veldur einn er tveir deila!”
Hér kemur greinin:
*****************************
Morgunblaðið - Laugardaginn 13. apríl, 2002 - Aðsendar greinar

Mið-Austurlönd

Bara Ísraelum að kenna?

Umræðan um það sem er að gerast í Mið-Austurlöndum, segir Óli Tynes, er dálítið um of einfölduð.
*****************************
Það eru líklega fáir, sem ekki ofbýður hrottaskapur Ariels Sharons, forsætisráðherra Ísraels, gagnvart Palestínumönnum. Það er furðulegt að nokkrum manni skuli detta í hug að hann fái einhverju framgengt með því að leggja heimili óbreyttra borgara í rúst. Og niðurlægja þá, og kjörinn leiðtoga þeirra, með því að bjóða honum að fara í útlegð. Það er enn erfiðara að skilja þetta, þegar haft er í huga að Ísrael er eina lýðræðisríkið í þessum heimshluta. Maður skyldi því ætla að Sharon sýndi lýðræðinu einhverja virðingu, hvað sem líður hatri hans á Yasser Arafat.
Þrátt fyrir það er ekki hægt að komast hjá því að segja að umræðan um það sem er að gerast í Mið-Austurlöndum er dálítið, um of, einfölduð.

Palestínumenn eru ekki bara saklaus fórnarlömb. Það eru ekki sakleysingjar sem myrða fólk, tugum saman, í strætisvögnum, í matvöruverslunum, á kaffihúsum eða diskótekum. Ekki frekar en þeir sem ryðjast um á skriðdrekum. Það verður líka að hafa í huga að það var Yasser Arafat sem hleypti þessu stríði af stað, eftir að hafa hafnað tilboði Ehuds Baraks, þáverandi forsætisráðherra Ísraels, um lausn á deilunni. Barak samþykkti sjálfstætt ríki Palestínumanna. Hann samþykkti að draga allt herlið til stöðva sinna. Hann samþykkti að leggja af landnemabyggðir Ísraela, á Vesturbakkanum og Gaza. Hann samþykkti að Austur-Jerúsalem yrði höfuðborg hins nýja ríkis Palestínu. Hann samþykkti nánast allt sem Palestínumenn höfðu krafist. Og það átti aðeins að vera áfangi, í áframhaldandi friðarviðræðum.

Arafat sagði nei, og hrinti af stað því blóðuga stríði sem síðan hefur geisað. Það var hann, persónulega, sem gerði það, og ekki í fyrsta skipti.

Arafat hefur margsinnis espað til blóðsúthellinga, til þess að ná fram pólitískum markmiðum sínum. DÆMI: Árið 1996 hleypti hann öllu í bál og brand, þegar hann hélt því fram að Ísraelar væru að grafa jarðgöng undir Musterishæðina, þar sem er þriðji helgasti staður múslima, á eftir Mekka og Medina. Sannleikurinn er sá að Ísraelar voru að opna munna á göngum sem höfðu verið grafin fyrir tvö þúsund árum. Og þessi göng voru um hálfan kílómetra fyrir neðan Musterishæðina. En fylgismenn Arafats trúðu honum, og blóðugar óeirðir fylgdu í kjölfarið. Þessar lygar Arafats kostuðu tugi manna lífið.

George Bush, forseta Bandaríkjanna, hefur verið legið á hálsi fyrir að bjóða ekki Arafat í heimsókn, til Washington, og líklega eru margir sammála um að það sé skammsýni hjá forsetanum. Ástæðan er einkum sú að Bush er heimatilbúinn, gamaldags Texasbúi, með öllum þeim kostum og göllum sem því fylgja. Þótt það kunni að virðast furðulegt, í dag, er einn mælikvarði forsetans sá að menn segi honum satt. Þegar Ísraelar stöðvuðu skip sem var að flytja fimmtíu tonn af vopnum og sprengiefni til Palestínu, sagði Arafat að sér væri alls ókunnugt um málið. Þegar frekari gögn litu dagsins ljós, varð hann að viðurkenna að hann hefði vitað allt um þessa sendingu. Hann hefði logið, að Bush.

Arafat hefur einnig fordæmt sprengjuárásir sem hafa kostað hundruð óbreyttra borgara lífið. Skjöl, sem ísraelskir hermenn hafa fundið í árásum sínum á stöðvar palestínsku heimastjórnarinnar, sýna að samtök eins og Hamas hafa sent Arafat reikninga út af fólki sem sent hefur verið til sjálfsmorðsárása. Árásarmennirnir voru reiknaðir út á fimmtán þúsund íslenskar krónur stykkið, og Arafat var beðinn um að fjármagna níu stykki á viku. Bush lítur því á Arafat sem hryðjuverkamann og ómerkilegan lygara.

Á síðasta ári skrifuðu arabískar mæður Arafat bréf, þar sem þær báðu hann um að láta menn sína hætta að safna saman börnum og unglingum, til þess að ráðast á varðstöðvar ísraelska hersins. Þær sögðu í bréfi sínu að útsendarar palestínsku heimastjórnarinnar væru jafnvel mættir með rútur, þegar skólum lyki, til þess að flytja börnin í fremstu víglínu.

Höfum einnig í huga að Palestínumenn (Arabar) geta bundið enda á þetta stríð, hvenær sem er. Það er sífellt talað um árásir Ísraela á Palestínumenn. Það er ekki alveg rétt. Það væri að æra óstöðugan að reyna að átta sig á því hvor aðilinn er að hefna fyrir hvaða ódæðisverk, úr því sem komið er. Báðir hafa framið þau mörg og ljót. Hinsvegar er enginn vafi á því að ef sjálfsmorðsárásum yrði hætt, á morgun, þá væri um leið lokið innrásum Ísraela í þorp Palestínumanna. Og þá væri kannski hægt að byrja að tala saman.

Saudi-Arabar hafa lagt fram merkilega friðartillögu. Hún felst í því að öll arabaríkin viðurkenni tilverurétt Ísraels, og taki upp stjórnmálasamband við landið. Gegn því að Ísraelar veiti Palestínumönnum þau sjálfsögðu réttindi að stofna sjálfstætt ríki sitt, í þessu landi sem þeir hafa byggt um þúsundir ára, ásamt gyðingum. Nokkur arabaríki hafa hinsvegar stutt þær öfgahreyfingar Palestínumanna, sem hafa mest unnið að því að eyðileggja friðarferlið, með hryðjuverkum. Ef ríkjum Araba er alvara, ætti það ekki að vera ofverk þeirra að láta þetta fólk hafa hægt um sig.

En nú er málið líklega að leysast, því íslenska kirkjan hefur látið það til sín taka. Hjálparstofnun hennar hefur sent Arafat tvo blaðafulltrúa, sem eru duglegir við að segja að þetta sé allt Ísraelum að kenna. Yfirmaður blaðafulltrúanna, herra biskupinn yfir Íslandi, leggur línuna. Hann talaði, hinn fimmta þessa mánaðar, um fréttir þess efnis að ísraelskir hermenn sætu um tvö hundruð palestínska vígamenn í Fæðingarkirkjunni í Betlehem. Þar voru margir sakleysingjar innan dyra, en palestínskir vígamenn leita iðulega skjóls á bakvið slíka. Enginn óvilhallur aðili sá hvað þar gerðist, en Palestínumenn héldu því fram að Ísraelar létu skotin dynja á bakdyrum kirkjunnar. Fréttamenn, í fjarlægð, sögðu að þeir hefðu heyrt skothvelli í borginni. Biskupinn yfir Íslandi sagði að það hitti kristna menn í hjartað, þegar skotið væri á þennan mesta helgidóm þeirra.

Það væri kannski ástæða til að spyrja biskupinn að því hvar skotin lenda, sem koma út úr kirkjunni. Biskupinn sagði einnig að hryðjuverkaárásir á óbreytta borgara, í Ísrael, væru til komnar vegna þess hve vondir Ísraelar væru við Araba. Það sagði Osama bin Laden líka um árásina á Bandaríkin ellefta september.

Eins og ég sagði í upphafi hlýtur mönnum að hrjósa hugur við þeim hrottaskap sem Palestínumönnum er sýndur, í dag. Ariel Sharon á sér fáa formælendur. Að leggja alla sök á herðar annars deilenda, mun hinsvegar ekki auka líkur á sáttum.

Höfundur er fréttamaður.
*****************************
Ég vona að þessi grein sýni ykkur að það eru tvær hliðar á öllum málum. Sjónarhorn samtakana Ísland-Palestína er ekki endilega það rétta í málinu þó að vissulega hafi það einmitt verið ofaná uppá síðkastið.

Hugsið sjálf, ekki láta mata ykkur án þess að hafa kynnt ykkur málið til hlýtar.

Kveðja,

Xavie