Jæja p4a. Þú ert búinn að “vitna” svo oft í greinar úr Mbl. þar sem leiðtogar vestrænna ríkja hafa fordæmt Islamaska trú og lýst því yfir að þetta séu meira og minna fól sem hvetji til ofbeldis - en enn hefurðu ekki getað bent á hvaða grein það var, hvaða dag eða viku þannig að tjah… jáh, ég hef mínar efasemdir um þessar staðhæfingar þínar. Nú bý ég svo vel að hafa aðgang að Gagnasafni Morgunblaðsins og fór því á stúfana.
Fyrst fann ég grein síðan 7. október 2001, “Hefðir og vestrænar hættur”. Þetta er mjög góð grein, vel skrifuð og greinilega vandað til verks. Í henni er m.a. fjallað um það sem þú hefur gagnrýnt Islam fyrir, þ.e. að hún sé hvetji til ofbeldis. Grípum í greinina: "En þeir [hryðjuverkamenn] eru ekki píslarvottar, í kenningum islams er sjálfsvíg talið vera synd og ofbeldi að fyrra bragði er fordæmt. “Berjizt fyrir málstað Allah gegn þeim sem á yður herja. En hefjið eigi árás, því að eigi eru árásarmenn Allah að skapi,” segir í öðrum þætti Kóransins.
Baráttuaðferðirnar sem notaðar voru 11. september eru ekki uppfinning múslima. Allir hafa heyrt um kamikaze-flugmenn Japana í seinni heimsstyrjöld. Miklu nær er að skilgreina þær sem afkvæmi alræðiskenninga síðari tíma þar sem einstaklingurinn er ekki talinn hafa sitt eigið virði; öllu skal fórnað fyrir hugmynd. Trúin er yfirvarp þeirra sem heilaþvo útsendarana.“
Þarna kemur það fram sem ég og fleiri erum búin að reyna að segja þér. Kóraninn fordæmir árás að fyrra bragði og hvetur til friðs, en bendir einnig á að hægt er að nota trúna sem yfirvarp/afsökun í heilaþvætti. Sambærileg atriði má finna í Gamla testamentinu, og svo ég vitni aftur í greinina: ”Sé viljinn fyrir hendi er enginn vandi að finna fyrirmæli um harðýðgi og ofbeldi í [Kóraninum] og öðrum helgiritum, þau eru rituð á fornri og myndauðugri arabísku. Túlkunarmöguleikarnir eru sagðir fjölmargir. Islam gefur ekki tilefni til mannskæðra öfga nema menn velji af vandvirkni það sem sem þeim hentar úr ritunum og ákveði forgangsröðina. Kristnir menn og gyðingar geta líka fundið dæmi um hrottaleg ummæli, höfð eftir Guði í gamla testamentinu. Langflestir múslimar eru auðvitað friðsamir og halda sig fremur við mannúðarboðskapinn í ritum sínum en grimman bókstaf.“
Hér kemur önnur sönnun þess sem við höfum verið að segja við þig. Kristnir og gyðingar geta líka notað testamentin sem skálkaskjól ofbeldisverka, ef viljinn er fyrir hendi.
Einnig er minnst á uppruna Islam og Guð allra þjóða: ”Spámaðurinn Múhameð lagði grunn að islam á sjöundu öld. Jesús Kristur er einn af helstu spámönnunum í huga múslima og kemur víða fyrir í Kóraninum en er dauðlegur maður. Æðstur allra spámanna var Múhameð og Guð, Allah, er einn og óskiptur. Ekki mátti gera myndir af lifandi fólki og Allah er hvorki hvítur né svartur, leyft var fjölkvæni í samræmi við gamlar hefðir og karlaveldi. Auðvelt var fyrir hirðingja á Arabíuskaganum, blökkumenn Afríku, Indverja og Indónesa að hylla hinn nýja guð, kynþættir og þjóðir lifðu nú oft saman í betri friði.“
Nauh nauh! Kóraninn og Islam stuðlaði að friði meðal ólíkra þjóða og kynþátta. Mikið væri nú gott ef við gætum fundið það meðal okkar allra að taka okkur það til fyrirmyndar.
Greinin heldur áfram og fjallar um ástæður þess af hverju svo margir í Mið-Austurlöndum hatast út í Bandaríkin og Vesturveldin öll. Þeir skynja fyrirlitningu og hroka gagnvart sér og menningu sinni, yfirgangi og heimsvaldsstefnu og fordóma vestrænna þjóða gegn múslimum. Undir lokin vitnar höfundur í bandaríska stjórnmálafræðinginn Samuel P. Huntingdon sem ”[...]hefur varað menn við og sagt að vandi vesturlanda sé ekki bókstafstrú. “Hann er islam, önnur menning sem er sannfærð um yfirburði sína og heltekin af valdaleysi sínu,” segir Huntingdon. Islam sé eina trúin og menningin, önnur en hin kristna og vestræna, sem telji sig hafa gildi fyrir alla jarðarbúa og hljóti því samkeppni að ríkja. Vandi islams sé vesturlönd þar sem fólk sé “sannfært um almennt gildi menningar sinnar og telur að yfirburðavald sitt, sem að vísu fer dvínandi, leggi því þá skyldu á herðar að breiða þá menningu út um heiminn”. Ef ekki takist að sætta ólíka menningarheima í heiminum geti blóðug átök orðið niðurstaðan, segir hann.“
Ég held að þetta sé vert fyrir þig að hugsa út í. Við verðum að sættast á niðurstöðu, það verða aldrei allir fullkomlega ánægðir. Hins vegar er þetta spurning um að sættast á ólík sjónarmiðin og gera gott úr þeim hlutum sem við höfum og fáum. Ég mæli eindregið með því að þú (og í raun allir) kíkir upp á Þjóðarbókhlöðu við tækifæri og lesir þessa grein. Ef þú hefur ekki tök á því skal ég senda þér hana í tölvupósti.
————————
Ég leitaði meira, en fann engar fréttir um fordæmingu vestrænna leiðtoga á Islam. Hins vegar fann ég nokkrar fréttir um Silvio Berlusconi forsætisráðherra Ítalíu. Hann minntist á ”yfirburði vestrænnar menningar“ í sjónvarpsviðtali í lok september, en í staðinn fyrir að fá stuðning frá öðrum leiðtogum uppskar hann þvert a móti gagnrýni frá þeim sem þóttu ummælin óheppileg í ljósi þess að Vesturveldin reyndu þá að fylkja liði með hófsömum múslimum gegn hryðjuverkum. (mbl. 29.9.2001). Chris Patten í framkvæmdarstjórn ESB minnti einnig á að ”Við Evrópubúar ættum kannski að hugsa til þess, með viðeigandi skammti af hógværð, að hinn íslamski heimur hefur aldrei verið ábyrgur fyrir helför." (mbl. 28.9.01)
—————–
Ég leitaði áfram… en sama hvað ég leitaði þá fann ég enga grein sem fjallaði um fordæmingu vestrænna leiðtoga á hendur Islam í heild sinni. Þvert á móti hafa t.d. Bandaríkin og George Bush tekið það skýrt fram að stríðið í Afganistan sé ekki gegn Islam heldur gegn hryðjuverkum. Þetta var sagt aftur og aftur af öllum þeim sem komu eitthvað nálægt þessu, bæði USA, Bretland, ESB o.fl.
—————
Jæja, ég vona að þú sjáir smá ljóstýru eftir þetta. Þetta eru ekki mínar pælingar sem eru skrifaðar hér fyrir ofan, heldur einungis afar lauslegur samtíningur úr Morgunblaðinu frá september sl. um það sem þú hefur verið að tjá þig um. Merkilegt nokk þá styðja þær ekki það sem þú hefur verið að segja, heldur þvert á móti virðist þú eitthvað verið að misskilja.
Páskakveðja,
Hnokki